Tengdar greinar

Sjálfviti – hvað er það?

Í fullkomnum heimi væri hluti af námsefni í grunnskóla fræðsla um það hvernig við eigum að haga lífi okkar til þess að efri árin verði sem ánægjulegust. En við vitum öll að fátt er eins pirrandi og boð og bönn og ráðleggingar þeirra sem eldri eru þegar við erum á fljúgandi fart út í lífið. „Jii þau gömlu eru sko alveg að drepa mig“ heyrist sagt þegar við, „sem vitum betur“, reynum að koma þeim ungu í skilning um að þau séu ekki að gera rétt. „Já, en ég get stytt þér leiðina að markmiðinu, bara ef þú hlustar á mig og það hvernig ég rak mig á og lærði af reynslunni.“ Og það er einmitt það, við þurfum oft að reka okkur á og læra af reynslunni. Og fátt er eins pirrandi en svokallaðir „besservisserar“ eða eins og nýlega var þýtt upp á íslensku sem „sjáfviti“.

Bara ef þau vissu hvað það er augljóst að það að borða ekki hollt getur átt eftir að draga mikinn dilk á eftir sér. Allur skyndibitinn og sælgætið mætti alveg víkja fyrir vel útilátinni lifrarpylsu með rófustöppu. Eh… eða hvað? Þegar upp er staðið er sitt lítið af hverju líklega affarasælast. Því verður þó ekki neitað að betra er að hafa hugfast alla ævi að nærast á fæðu sem styrkir beinin og stunda hreyfingu sem miðar að sama markmiði. Vegna þess að þegar við erum orðin miðaldra getur eitt lítið slys gert það að verkum að þessi tími, sem getur verið svo ánægjulegur, verði hin mesta kvöl. Við erum að tala um tímann þegar börnin eru farin að heiman, barnabörnin farin að fæðast, við höfum meiri tíma og oft meiri fjárráð. Tækifærin til að láta drauma rætast eru oft fyrir framan okkur. Við þurftum bara að koma auga á þau en þá er eins gott að vera í góðu líkamlegu ástandi.

En hvað gerum við ef við rekum tána í rennustein eða dettum í tröppum. Við getum annaðhvort gefist upp eða haldið áfram. Í mörgum tilfellum er það val hvora leiðina við veljum en ekki alltaf. En ef það er val þá hljótum við að velja að halda áfram. Ef mamma gamla væri hjá okkur myndi hún eflaust segja: „Ég sagði þér það, þú hefðir átt að drekka meir mjólk. Þá væru beinin þín sterkari.“ Gamla fólkið hafði einhvers konar hyggjuvit til að styðjast við en nú höfum við alls konar rannsóknir sem styðja kenningar sem oft var ekki borin virðing fyrir. Nú höfum við sannanir fyrir því að kalkinntaka og hreyfing eru tvö atriði sem nauðsynleg eru til þess að styrkja beinin til að minniháttar slys verði ekki að risastóru vandamáli.

Hugsum jákvætt

Þegar við förum fram úr á morgnana fer ekki hjá því að við finnum fyrir verkjum hér og þar. Við höltrum fram og stynjum og hugsum um hvað við eigum bágt en þegar við setjumst við gluggann með morgunkaffibollann, hlustum á náttúruhljóðin, sem geta verið í fuglum eða bílunum eða jafnvel gröfunum við húsbygginguna í götunni, er góður tími til að hugsa jákvætt. Nú vitum við að viðamiklar rannsóknir hafa sýnt fram á að hugsanir okkar hafa bein áhrif á það hvernig okkur líður og hvernig líkaminn virkar. Það allraversta sem við getum gert er að næra líkamann með neikvæðum hugsunum. Sjálfvitinn segir að það skipti örugglega engu máli á meðan fávitinn tekur sénsinn og prófar. Ég vel að vera fávitinn í þessu tilfelli og þvinga sjálfa mig að hugsa jákvætt. En er ég þá ekki orðinn þessi sjálfviti sem er svo pirrandi og þykist vita allt best?

Nýleg rannsókn sem fjallað var um á vef Sixty and me, sem gerð var sérstaklega á miðaldra fólki sem hafði slasast, sýndi að það hvernig þeir slösuðu hugsuðu um verkina sem þjáði þá hafði bein áhrif á hversu fljótt og vel þeir greru, eða greru ekki. Þeir, sem höfðu neikvætt viðhorf, höfðu mælanlega minni hreyfigetu sem leiddi til bæklunar. Hugsanir skiptu máli!

Ann McGowan er fullkomið dæmi um manneskju sem hugsar jákvæðar hugsanir um líkamann. Hún er meistari í flokki aldraðra en hún var 93 ára gömul þegar hún vann til silfurverðlauna fyrir langstökk og bronsverðlaun í skotfimi. Hún sá enga ástæðu til að hætta að gera það sem henni þótti skemmtilegt þrátt fyrir uppskurð á baki og síðar brjóstnám vegna krabbameins. Ef hugsanir hennar hefðu verið neikvæðar allan tímann hefði hún aldrei tekið þátt í þessum skemmtilegu viðburðum hvað þá unnið til verðlauna. Hún hefði þá að óþörfu rænt sjálfa sig ómældri gleði og skemmtun.

En hvernig hugsum við jákvætt?

Tökum sem dæmi þegar einhver á við hnjámeiðsli að stríða. Þá getum við hugsað sem svo: Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég meiði mig. Nú tekur það eflaust lengri tíma en þegar ég var yngri en ég veit að ef ég geri það sem ég veit að virkaði síðast eins og sjúkraþjálfun, umbúðir og mýkjandi og græðandi olíur þá mun mér líða betur.

Svo get ég líka hugsað sem svo: Oh, gat nú verið, nú get ég ekki dansað meir. Ég get sjálfum mér um kennt að hafa verið að reyna að dansa eins og unglingur. Með svona neikvæða hugsun mun ég líklega ekki reyna neitt af því sem gæti hjálpað mér til að komast aftur í dansform. Við sendum líkamanum skilaboðin um að það taki því nú ekki að reyna. Þessi skemmtun sé nú ekki fyrir mig.

Í greininni segir á svo skemmtilegan hátt að galdurinn sé að hugsa alltaf um verki eins og þeir séu tímabundið vandamál en ekki viðvarandi. Og þá hugsa margir: „Þessi er nú meiri sjálfvitinn.“ Í þessu tilfelli er betra að vera hálfviti og fara að ráðum þeirra sem vita að það að hugsa jákvætt er miklu vænlegri leið til að líða betur. Og MIKLU skemmtilegra.

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 19, 2020 09:25