Taka hundana með í vinnuna

Gæludýr geta aukið lífsgæði fólks sem er komið á hjúkrunarheimili. Sú var niðurstaða bandaríska læknisins William H.Thomas, sem er frumkvöðull Eden hugmyndafræðinnar sem tíðkast nú í auknum mæli í rekstri hjúkrunarheimila. Markmiðið með þessari aðferð er að útrýma einmanaleika, hjálparleysi og kvíða á hjúkrunarheimilum og skapa þar eins heimilislegt andrúmsloft og kostur er. Það sem er notað til að gera það, er meðal annars að vera með gæludýr, fá börn í heimsókn og rækta grænar plöntur.

Kolbeinn Bjarnason er greinilega í góðu sambandi við páfagaukana  á Hjúkrunarheimilinu Mörk.Við hlið hans stendur Reynir Jóhannesson.

Kolbeinn Bjarnason er greinilega í góðu sambandi við páfagaukana á Hjúkrunarheimilinu Mörk.Við hlið hans stendur Reynir Jóhannesson.

Fyrsta Eden heimilið í Reykjavík

Hjúkrunarheimilið Mörk er fyrsta heimilið í Reykjavíkurborg þar sem byggt er á þessari hugmyndafræði. Rúmlega 100 manns búa á heimilinu. Þangað koma rúmlega 30 leikskólabörn í heimsókn í viku hverri og starfsmennirnir taka með sér hundana sína í vinnuna til gleðja íbúa hjúkrunarheimilisins. Það er enginn hundur á heimilinu að staðaldri en einn köttur og páfagaukar. Gísli Páll Pálsson forstjóri í Mörkinni segir að þetta hafi mjög jákvæð áhrif á heimilinu. Dýrin séu falleg og vilji láta klappa sér.

Vanda þarf val á hundum

Björg Óskarsdóttir skrifaði ritgerð í námi sínu í Háskóla Íslands árið 2010, um Eden hugmyndafræðina og lífsgæði fólks á hjúkrunarheimilum og þar er vitnað í Thomas um hundahaldið.

Vanda þarf val á hundum sem eiga að dvelja á hjúkrunarheimilum. Þeir skulu vera minnst eins árs og skapgerð þeirra verður að vera blíð og góð. Einnig verður að gæta þess vel að hundurinn fái sína reglulegu hreyfingu svo hann hlaupi ekki í spik og haldi góða skapinu. Íbúarnir eru oft gjarnir á að lauma að þeim ýmsu góðgæti

Og um kettina segir Thomas.

Kettir eru nauðsynlegur hluti af Eden hugmyndafræðinni. Kettir gefa frá sér mikla hlýju og mal þeirra bræðir hvert hjarta.Oft hjálpa íbúarnir til við að greiða þeim og snyrta.Gæta þarf þess að þeir kettir sem valdir eru til dvalar séu heilbrigðir og líflegir og séu minnst eins árs gamlir. Feldur þeirra á að vera snöggur, en það minnkar öll þrif

Mátti ekki heyrast hávaði

Gísli Páll segir að gæludýrin bjóði uppá, að íbúarnir á hjúkrunarheimilinu bæði annist þá og gauki að þeim góðgæti. Þannig sé komist hjá því að þeir séu eingöngu þiggjendur sem fái allt upp í hendurnar. „Það er ekki sniðugt að pakka eldra fólki inn í bómull“, segir hann og vísar þar til þess að hér áður fyrr mátti til dæmis ekki vera hávaði á hjúkrunarheimilum. Nú komi leikskólabörn í heimsókn í Mörkina og þeim fylgi líf og fjör.

 

 

Ritstjórn mars 17, 2015 14:54