Uppselt í hópferð til tannlæknis í Búdapest

Gunnar Jónatansson og Rósa K. Benediktsdóttir sem annast tengsl við tannlæknastofuna Madenta í Búdapest eru að fara í skipulagða hópferð, svokallaða heilsuviku, þangað í þessum mánuði. Gunnar sagði í samtali við Lifðu núna að það væri orðið uppselt í ferðina, en þangað fara 15 manns. Hann segir koma til greina að skipuleggja aðra ferð í haust, en ákvörðun um það hefur ekki enn verið tekin.  Lagt verður upp frá Íslandi 25.maí og ferðin tekur viku.

Auk þess að fara til tannlæknis, munu ferðalangarnir njóta lífsins í Búdapest. Það sem er í boði þar, er meðal annars að fara í tyrknesk böð, skoðunarferð um borgina, vínsmökkun og bátsferð að kvöldi dags á Dóná. Í heilsuvikunni verður líka mögulegt að fara til lýtalæknis, frá sjóntækjaþjónustu, nudd, snyrtingu og fleira. Ferðalangarnir munu að sjálfsögðu kynna sér aðstæður hjá Madenta og þjónustuna sem þar er í boði. Á vefsíðu Gunnars og Rósu eru upplýsingar um þjónustuna og verðið sem fólk greiðir fyrir hana. Hér eru nokkur dæmi af handahófi, en verðskrána í heild má sjá hér.

Tannhvíttun í efri og neðri góm                          um 48.000 krónur  (350 evrur)

Tannkrónur                                    frá um 36.000 – 52.000 krónur  (260-380 evrur)

Tannplanti, tengi og hulsa                               alls 170.000 krónur  (1440 evrur)

Gunnar segir að tannlæknaþjónustan hjá Madenta sé 50-70% ódýrari en hér. Lesið viðtal við Gunnar hér.

Ritstjórn maí 17, 2019 12:10