Sjö leiðir til að gera fasteignina seljanlegri

Fasteignasalan Húsaskjól heldur úti bloggi, en þar er að finna mjög góðar ráðleggingar til fólks sem er að kaupa eða selja fasteignir. Við fengum leyfi hjá þeim til að birta úr blogginu þeirra, pistil sem heitir, Sjö leiðir til að gera fasteignina seljanlegri. Neðst í færslunni er svo gátlisti sem Húsaskjól er líka með á blogginu, en þar er hægt að fara alveg í gegnum þá hluti sem þurfa að vera í lagi, ef menn ætla að selja – og merkja við.

Hvort sem við erum á kaupenda-eða seljandamarkaði þá er alltaf hægt að auka sölumöguleika fasteignar og góður undirbúningur skilar oft hraðari sölu og hærra söluverði.Oft er fólk búið að vera að hugsa um sölu í nokkurn tíma áður en farið er að stað og svo allt í einu dettur draumaeignin í fangið á þeim og þá er skellt á sölu án þess að undirbúa eignina.Ef hugmyndin er að selja á næstu 6-18 mánuðum mælum við með því að hafa samband við sölufulltrúa til að verðmeta fasteignina og koma með ábendingar hvernig er hægt að gera fasteignina sölulegri.Það einfaldlega margborgar sig að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar kemur að því að selja fasteign. Það eru einnig til ýmsar leiðir til að gera fasteignina seljanlegri og við erum búnar að taka saman nokkur góð ráð til að auka sölumöguleika hússins.

1.Hlutleysi

Þessi stefna hefur virkað fínt fyrir Sviss og hún virkar yfirleitt mjög fínt í fasteignasölu líka. Að gera hús að sínu er frábært þegar maður ætlar að búa í því til lengri tíma, en mikil litagleði og yfirhlaðin herbergi geta fælt mögulega kaupendur frá, sem sjá ekki eignina fyrir litum og dóti.Oft getur því verið skynsamlegt að mála veggina með hlutlausum litum til að stækka rými (eða koma í veg fyrir að þau virki minni en þau í raun eru), það gerir einnig mögulegum kaupendum kleift að máta sig betur inn í húsið og einnig sjá þeir að það er mun minni vinna að flytja í húsið (þurfa t.d. ekki að mála margar umferðir yfir sterka liti).

2.Minna gefur oft meira

Þó að þú sért ekki fluttur þá hjálpar oft til að fækka húsgögnum og minnka dót í húsinu.Yfirhlaðin íbúð virkar oft fráhrindandi og erfitt fyrir kaupendur að sjá möguleikana sem gætu verið til staðar.Það hjálpar því yfirleitt að til að hafa minna dót til að hafa minna dót til að húsið virki stærra, eða hreinlega koma í veg fyrir að það virki minna.Gott er hreinlega að fara í gegnum húsið og ákveða hvað á að flytja með sér í nýju eignina, það sem á ekki að fara er langbest að fara með í Góða hirðinn áður en húsið er sett á sölu.

3.Nýja húsalyktin

Ok, það er ekki alltaf sem nýju húsin lykta vel en það er amk ný lykt. Þegar verið er að undirbúa húsið fyrir sölu og sýningu, þá er mikilvægt að forðast sterka lykt. Passa að fara reglulega út með ruslið og þrífa ísskápinn reglulega, og jafnvel forðast að elda lyktsterkan mat daginn fyrir sýningu, blessuð skatan gæti nú alveg fælt marga í burtu. Ef reykt er í húsinu gæti verið ágætt að hætta því fyrir sýningu þar sem margir eru næmir fyrir reykingalykt og geta ekki hugsað sér að kaupa hús sem hefur megna reykingalykt.Ef þið eruð með gæludýr, þá er mikilvægt að hreinsa kassann mjög reglulega,illa lyktandi hús gæti hreinlega fælt burtu mögulega kaupendur.

4.Hafðu auga fyrir smáatriðum

Það er ekki góð hugmynd að fara í meiriháttar framkvæmdir þegar það á að fara að selja eignina þar sem sú fjárfesting skilar sér yfirleitt ekki í hærra verði, auk þess sem kaupendur gætu viljað hafa hlutina öðruvísi þannig að glænýja eldhúsið vekur jafnvel ekki neina lukku og kaupendur því ekki tilbúnir að greiða hærra verð þó að það sé nýtt eldhús.Hins vegar er oft hægt að gera litlar breytingar sem hressa upp á rýmin. Skipta um brotinn vask, laga lek blöndunartæki, yfirfara fúgur, lista,hurðahúna, jafnvel lakka skápahurðir, stundum þarf að mála þreytta veggi og svo mætti lengi telja.Húsaskjól sérhæfir sig í að vinna með seljendum hvernig er best að gera eignina sölulegri án þess að leggja út í gífurlegan kostnað og gott getur verið að setjast niður með sínum söluaðila og fara yfir hvað megi betur fara og laga það áður en eignin er sett í virka sölumeðferð, það er alltaf neikvæðara að þurfa að taka fram eitthvað sem verður gert þar sem kaupendur hafa tilhneiginu til að hugsa, ef þetta er svona lítið mál, hvers vegna er ekki löngu búið að klára þetta.

5.Fyrsta sýn skiptir höfuðmáli

Aðkoman að húsinu er það fyrsta sem væntanlegur kaupandi sér og oft byrjar fólk á því að keyra framhjá húsinu áður en fyrsta skoðun er bókuð. Ef það er grasflöt, þá passa að grasið sé slegið og snyrt reglulega, ekki hafa neitt drasl fyrir utan hús og jafnvel lakka yfir útidyrahurðina, ef það er virkilega kominn tími á að hressa upp á gluggana og þakkantinn gæti verið gott að gera það áður en húsið er sett í sölu.Ekki hafa neitt drasl fyrir utan hús, það fælir einfaldlega frá.

6.Ekki vera of persónulegur

Þegar væntanlegur kaupandi kemur inn í hús þá gerir hann sér grein fyrir því að það er búið í húsinu (nema um nýbyggingu sé að ræða), en það má samt alltaf minnka persónulega muni og daglega umgengni. Fyrir sýningu er gott að fjarlægja dagblöð, tímarit og allan póst.Taka allt af ísskápnum og ganga frá skóm og þvotti.Það er einnig ágætishugmynd að fækka persónulegum munum, s.s. myndir og skrautmunir. Fyrir ykkur þá er þetta notalegt hús sem er fullt af minningum, fyrir væntanlegan kaupanda getur þetta verið fullpersónulegt og yfirþyrmandi.

7.Að undirbúa heimilið fyrir myndatöku

Fyrir myndatöku er nauðsynlegt að minnka dót þannig að myndirnar komi vel út á netinu og laði þannig að mögulega kaupendur.Gott getur verið að ganga um með gagnrýnum augum í hvert rými og skoða hvort að það njóti sín eins og best verður á kosið, kannski þarf að fækka dótinu í barnaherberginu, færa stól eða setja í geymsluna, jafnvel fá vin til að koma og kíkja á húsið með þér. Einnig er gott að skoða sambærilegar eignir sem eru til sölu á netinu og sjá hvernig myndirnar koma út, er eitthvað að trufla þig eða eitthvað sem þér finnst koma einstaklega vel út, oft getur komið vel út að hafa lifandi blóm í vasa eða jafnvel dekka borðstofuborðið til að búa til stemmingsmyndir. Fyrsta sýn getur haft úrslitaáhrif um hvort að það verði sala eða ekki. Með því að hafa hlutina einfalda og snyrtilega getur gefið þér sem seljanda forskot á aðra og hjálpað til að selja eignina hraðar og jafnvel betur. Ef þú ert að hugsa um að selja á næstu 6 -12 mánuðum, þá er hægt að panta ráðgjöf hjá Húsaskjól þar sem við förum yfir það hvernig best er að undirbúa eignina fyrir sölu.

Hérna kemur gátlistinn……

 

Ritstjórn febrúar 8, 2017 16:44