Wilhelm Wessman skrifar
Með því að gera lífeyrissjóðina að fyrstu stoð eftirlaunakerfisins í stað almannatrygginga um áramótin, var sá ásetningur stjórnvalda að taka lífeyrissjóðina traustataki til að niðurgreiða almannatryggingar, endanlega staðfestur. Þar með eru lífeyrissjóðsgreiðslur orðnar að skatti. Það má því segja að þetta sé hækkun á skatti uppá 15,5%.
Upphaflegur tilgangur lífeyrissjóðanna þegar þeir voru stofnaðir 1968-69 var að vera viðbót við greiðslur frá TR og áttu þeir að virka eins og uppsöfnun á bankareikningi fyrir sjóðsfélaga til að þeir gætu átt áhyggjulaust ævikvöld. Að auki áttu þeir að vera lánasjóðir, þar sem félagsmenn gátu fengið lán til húsa- eða íbúðarbygginga gegn fasteignaveði.
Þegar ríkisstjórn Alþýðuflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins setti lög um almannatryggingar 1946, var Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra. Hann lýsti því þá yfir, að almannatryggingar á Íslandi ættu að vera í fremstu röð slíkra trygginga í Evrópu. Lögin eru sambærileg lögum annarra norðurlanda sem norræna velferðarkerfið byggir á. Í annarri grein laganna segir: Almennar tryggingar eru fyrir alla óháð stétt eða efnahag og eru ekki fátækrastyrkur. Með því að gera lífeyrissjóðina að fyrstu stoð er búið að breyta kerfinu til þess, sem það var fyrir 1946 og endurvekja fátækrastyrkinn. Með þessari breytingu hefur Ísland lagt niður Norræna velferðarkerfið án þess að skilgreina hvað komi í staðinn.
Í síðasta tölublaði af Félagstíðindum FEB segir Stefán Halldórsson, verkefnisstjóri hjá Landsambandi lífeyrissjóða:
- Almannatryggingar veita vernd gegn alvarlegri fátækt
- Starfstengdir lífeyrissjóðir byggja upp sparnað til að fólk þurfi ekki að sæta verulegri skerðingu lífsgæða þegar að töku ellilífeyris kemur
- Valfrjálsir séreignarsparnaður eykur sveigjanleika t.d. til að fara fyrr á á lífeyri.
Hér er búið að snúa sannleikanum á haus með því að rangtúlka staðreyndir. Gleymum því ekki að með lögunum frá 1946 var TR fyrsta stoð kerfisins og settur var á skattstofn til að standa undir almannatryggingakerfinu. Útgjöld hins opinbera vegna ellilífeyris hér á landi eru bara 2% af vergri landsframleiðslu, en eru frá 5,3% í Hollandi upp í 8% í Danmörku – fjórum sinnum meiri samkvæmt skýrslu sem Stefán Halldórsson kynnti í febrúar s.l. Samkvæmt sömu skýrslu eru skerðingar á greiðslum frá TR viðkomandi landa vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum nánast óþekktar, nema hér á landi.
Staðreyndin er að við sem erum komin á eftirlaun og höfum engar aðrar tekjur en greiðslur frá TR og greiðslur úr almenna lífeyrissjóðskerfinu getum að hámarki vænsts þess að fá samanlagt eftir skatt um 290,000 þúsund krónur á mánuði. Þá miða ég við að viðkomandi hafi áunnið sér 40 ára réttindi í lífeyrissjóði.
Þetta er ekki bara veruleiki okkar sem komin eru á eftirlaun í dag, heldur líka þeirra sem eiga eftir að að fara á eftirlaun á næstu 15-20 árum
Hér er verkefni að vinna bæði fyrir eldri borgara og þá sem enn eru á vinnumarkaði að berjast á móti skerðingum TR vegna greiðslna úr lífeyrissjóðunum. Sú draumsýn sem við áttum, um áhyggjulaust ævikvöld með stofnun lífeyrissjóðanna 1968-69 hefur verið tekin frá okkur og samkvæmt upplýsingum frá ASÍ á þetta við þá sem fara á eftirlaun fram til 2025-2028. Þetta er því ekki eingöngu baráttumál okkar eldri borgara, heldur einnig hinna vinnandi stétta. Víðtæk samstaða er það eina sem ráðamenn skilja.
Látum ekki ráðamenn þjóðarinnar slá ryki í augu okkar, eins og keisarans menn gerðu í sögu H.C. Andersen, Um nýju fötin keisarans. Verum í hlutverki drengsins sem sá að keisarinn var nakinn.