Skiptu um gír í lífshlaupinu

Magnús og Sigríður Kolbrún

Magnús og Sigríður Kolbrún

Guðrún Helga Sigurðardóttir blaðamaður skrifar

Magnús Jón Kjartansson tónlistarmaður, kannski betur þekktur sem Maggi Kjartans, er fæddur í Keflavík 6. júlí 1951 og alinn þar upp. Hann bjó fyrir sunnan til tvítugs með smávegis undantekningum en hleypti þá heimdraganum og freistaði gæfunnar því hann var farinn að vinna mikið við tónlist, upptökur og slíkt á höfuðborgarsvæðinu. Maggi Kjartans bjó í Hafnarfirði í 32 ár og var því rétt rúmlega sextugur þegar hann fyrir ári síðan ákvað að flytja í Grímsnesið.

„Ég flutti út í móa og bý í einbýlishúsi sem er orðið löggilt og kominn með lögheimili þar. Þetta er einbýlishús sem við byggðum úti í skógi við Kerið. Hér hef ég það huggulegt með hestana mína á næsta bæ. Ég er vanur því að þurfa að keyra til borgarinnar af og til, það vex mér ekki í augum,“ segir Maggi Kjartans nýkominn heim eftir að hafa tekið strætó í bæinn, nánar tiltekið í Mjódd til að hitta þar konuna sína sem kom þreytt úr flugi og keyra hana austur.

Nær hjarta landsins

Maggi Kjartans hefur sem aðalstarf að vinna með kórum og við útsetningar og annað„föndur“þannig að honum líkar kyrrðin og rólegheitin afar vel. Svo fer hann með útlendinga upp um fjöll og firnindi á sumrin fyrir Íshesta og stundum sjálfan sig með vinum og kunningjum. „Þannig að ég færði mig nær hjarta landsins ef heilinn er í Reykjavík,“ segir Maggi Kjartans.

Spurður um umskiptin eftir að hafa lifað og hrærst í hringiðunni síðustu áratugina segir hann að „lífsvélin mín fór snemma á þeytivindingu og nú er ég að hamast við það að ná mér í alla þá sálarró sem ég get og tel mig eiga inni. Ég þrái ekkert heitar en bara rólegt og yfirvegað líf. En ég er ákaflega sáttur við þann tíma sem ég átti með sjálfum mér. Ég hefði ekki viljað missa af einni mínútu af þessu hraða lífi sem ég lifði. Það var afskaplega gefandi – tónlistarstarf er gefandi. Ég hef eignast mikið af félögum og kynnst mörgu fólki, bæði hér á landi og í útlöndum, og ég hef fengið öll þau tækifæri sem hægt er að óska sér. Ég hef líka fengið ómetanlegt tækifæri til að vinna að félagsmálum og uppbyggingarstarf fyrir tónlistargeirann sem nú er farið að skila sér. Ég er afskaplega sáttur við það og mér þykir vænt um allt þetta fólk sem ég hef fengið tækifæri til að vinna með. Þetta er gífurlegur fjársjóður sem felst í því,“ segir hann.

Bókaþjóðin varð tónlistarþjóð

Maggi Kjartans er ánægður með tónlistina í dag. Hann rifjar upp að hann hafi unnið að því að koma tónlistarhúsinu Hörpu á koppinn og með flytjendum, höfundum, Reykjavíkurborg og Icelandair að byggja undir skilyrði fyrir íslenska tónlistarmenn að taka þátt í heiminum, um það beri vitni nafnið hans á koparplötu í tónlistarhúsinu.

„Ég er ófeiminn að hæla mér pínulítið af því. Ég trúi því sjálfur að Íslendingar hafi ekki komið nægilega auga á hvað árangur íslenskra tónlistarmanna á erlendri grundu hafi haft mikið að segja um kynningu landsins og þar með ferðamannastrauminn til Íslands,“ segir hann.

„Ég hef stundum sagt í gríni að þjóðin sem ætlaði að fara að stimpla sig sem bókmenntaþjóð varð allt í einu tónlistarþjóð meðan stimpillinn var á leiðinni á blaðið. Það fór í taugarnar á mörgum að þetta skyldi gerast því að allt okkar skólakerfi snerist um öxul sem hét Halldór Kiljan Laxness sem er ósköp skiljanlegt en snýst allt í einu núna eða mun snúast um Björk Guðmundsdóttur og það sem fylgdi í kjölfarið á eftir henni. Menn koma ekki nægilega mikið auga á þetta. Það er eins og Íslendingar þurfi að fara til Ástralíu eða Argentínu til að átta sig á því að útlendingar þekkja fyrst og fremst til landsins út af þeim tónlistarmönnum sem hafa náð að komast inn á þessa markaði,“ bætir hann við.

Gaman að vera lifandi

Maggi Kjartans fékk hjartaáfall í fyrra sem hægt var að laga og það kætti hann enn meira. „Það er erfitt að vera bæði dauður og kátur í einu. En það er voða gaman að vera lifandi og kátur. Ég byrjaði upp á nýtt og finnst ég aftur vera tuttugu. Ég var eiginlega sendur heim í lúdóinu og er að átta mig betur á hversu veikur ég var orðinn,“ segir hann og hlakkar til framtíðarinnar.

„Ég og konan mín tókum ákvörðun um að byggja okkur hús á landi sem við höfum nostrað við síðustu 20 ár. Við erum hér á uppáhaldsstaðnum okkar. Við byggðum okkur nýtt hús og tókum þetta mikla skref saman, stigum óhrædd á kúplinguna og skiptum um gír í lífshlaupinu. Þannig viðhöldum við ævintýrinu í lífinu og leikum á als oddi,“ segir hann.

 

Ritstjórn ágúst 24, 2014 10:39