„Réttlæti og virðing eru ofarlega í huga um áramótin og að stjórnmálamenn og konur standi við orð sín gagnvart eldri borgurum“, segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara, þegar Lifðu núna hafði samband við hana og fleiri forystumenn eldri borgara til að ræða stöðuna í upphafi árs, og það sem er framundan. „Þeir sem eru verst settir eru enn langt í frá möguleikum á að lifa eðlilegu lífi“, bætir hún við. Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður Félags eldri borgara á Selfossi tekur í sama streng og segir að eldri borgarar með um 250 þúsund krónur á mánuði eftir skatt, nái engan veginn endum saman, ef þeir séu í leiguhúsnæði, en skrimti ef þeir séu í hjónabandi og eigin húsnæði. Þetta fólk sé í raun á hugurmörkum og geti ekkert leyft sér. „ Það er einkennileg pólitík að geta hækkað laun hæst launuðu embættismanna, alþingismanna og ráðherra um nokkur hundruð þúsund aftur og aftur og reyna svo að telja fólki trú um að það riðli ekki efnahag landsins, bara ef þeir lægst launuðu fái launahækkun, þá fari allt á hvolf“.
Vill fella niður skatta á lægstu lífeyrisgreiðslur
Ellert B. Schram formaður stærsta félags eldri borgara í landinu, félagsins í Reykjavík, hefur lagt alla áherslu á að kjör þeirra eldri borgara sem verst standa verði bætt og gerir það áfram. Hann segir í samtali við Lifðu núna að það þurfi að bæta kjörin með því að hækka greiðslur almannatrygginga, fella niður skatta á lægstu lífeyrisgreiðslur og fjölga húsnæðis- og þjónustuheimilum fyrir aldraða. Valgerður Sigurðardóttir formaður félagsins í Hafnarfirði nefnir fjárhagslega velferð einnig sem eitt helsta verkefnið framundan og vill að skattleysismörk verði 300 þúsund krónur á mánuði. Hún segir fjárhagslegt öryggi styrkja sjálfsmat eldra fólks og koma í veg fyrir depurð og einangrun. Þá þurfi heilbrigðisþjónustan að geta tekið við fólki sem eigi við veikindi að stríða. „Framkvæmdasjóður aldraðra verður að fara til uppbyggingar hjúkrunarheimila, en til að fresta því eins og kostur er að fólk þurfi að fara á hjúkrunarheimili þarf að viðhalda heilbrigði einstaklinganna. Hún segir að það verði gert með framboði á félagsstarfi og hreyfingu. „Frístundastyrkir eru mjög hvetjandi fyrir hreyfingu, við höfum góða reynslu af því í Hafnarfirði þar sem slíkir styrkir eru 4000 krónur á mánuði. Hreyfing í aldurshópnum hefur aukist til muna eftir að styrkurinn var hækkaður“, segir hún.
Elskulegheitin uppmáluð áður en þeir setjast í stólana
Sigríður á Selfossi er sammála mikilvægi þess að sveitarfélögin sjái til þess að eldir borgarar fái frítt, eða mikinn og góðan afslátt í líkamsrækt. Hún segir líka mikilvægt að búseta, öryggi og umönnun eldri borgara sé í lagi og að hægt sé að hitta heimilislækni þegar þörf krefur. Það sé ekki nóg, þó það sé skref í rétta átt, að fella niður komugjöld á heilsugæslustöðvum. Það þurfi einnig að gera fólki kleift að komast að hjá heilsugæslulækni sem fyrst, þegar hringt er, en ekki eftir 1-2 mánuði. Hún segist því miður ekki hafa trú á að stjórnvöld geri mikið fyrir eldri borgara á næstu árum. „Það hefur sýnt sig í gegnum árin að þeir eru afar skilningsríkir og elskulegheitin uppmáluð áður en þeir setjast í stólana og vilja allt fyrir eldri borgara gera. Um leið og þeir eru hins vegar komnir inn á Alþingi, þá er eins og það dragi úr þeim allan mátt. Loforðin verða ósköp rýr og lítil hænuskref eru tekin í einu, ef einhver“ segir hún og telur þetta eina helstu ástæðu þess að fólkið í landinu sé hætt að treysta stjórnmálamönnum og trúa.
Hefur ennþá trú á að ríkisstjórnin hækki ellilífeyri
Valgerður formaður félagsins í Hafnarfirði er ekki alveg jafn svartsýn og Sigríður á framhaldið en segir marga eldri borgara berjast við fátækt. En hagkerfið þrífist ekki ef íbúarnir séu fátækir.“Það er sómi hverrar þjóðar að sjá um þá sem eldri eru. Framfærsluviðmið hins opinbera verður að samræmast lágmarkslaunum í landinu. Það er einlæg von mín að ríkisstjórnin sjái sóma sinn í því að taka af alvöru á þessum málum“, segir hún. Ellert segir að fólk sem sé komið við aldur og hafi lítið á milli handa af ýmsum ástæðum, þurfi aðstoð og hjálp frá samfélaginu. „Ég hef ennþá trú á því að ríkisstjórnin í kjölfar samkomulags um launamál almennings, hækki ellilífeyri, að minnsta kosti ef maður tekur mark á kosningaloforðunum“, segir hann.
Fjármálaáætlunin þrándur í götu
Landssamband eldri borgara hefur átt aðild að nefnd á vegum stjórnvalda sem hafði það verkefni að skila tillögum um bættan hag þeirra sem lakast eru settir meðal eldri borgara. Hún átti að skila af sér 1. nóvember og tillögur frá henni liggja nú á borði ráðherra. Þórunn segir þessi mál flókin. Þeir sem verst eru settir séu eldri borgarar sem þurfi að borga húsaleigu og eldri nýbúar á Íslandi sem hafi ekki nægileg réttindi hér. Einnig þeir sem séu í lægstu tekjuhópunum. Hún segir að fjármálaáætlunin sem nú sé gerð til fimm ára, hafi gert nefndinni erfitt fyrir. „Þegar menn komu með tillögur sínar í ágúst, september, október, var allt orðið niðurnjörvað og það er ástæðan fyrir því að nefndin kemur ekki meiru í gegn, sem eru vissulega vonbrigði“, segir hún, en bætir við að Landssambandið hafi loforð um nýja nefnd til ræða áfram ýmis mál sem varða eldri borgara. Það breyti ekki því að það hafi komið nefndarmönnum á óvart hversu þunglamalegt kerfið sé og hversu langan aðdraganda þurfi, til að koma í gegn breytingum á lögum og reglum sem varða þá sem eldri eru.