Tinna missir heyrnina átta ára gömul og hafnar því að fá kuðungsígræðslu þar til lækninum hennar tekst að telja hana á að fara í aðgerð eftir að hún lendir í slysi. Tinna er fámál að eðlisfari og einræn og hið sama gildir um Lenu. Hvort báðar þessar konur eru svona að eðlisfari eða hvort alvarleg áföll hafi mótað þær er ein af leiðarspurningunum í Syndafalli Yrsu Sigurðardóttur. Hins vegar er alveg ljóst að Arna var opinská, full sjálfstraust og félagslynd þar til hún lenti í kulnun og Steinn, maður hennar, myndi gera nánast hvað sem er til að fá konu sína til baka.
Þetta eru sem sé aðalpersónurnar í nýjustu glæpasögu Yrsu. Í fyrstu er lítur ekki út fyrir að konurnar þrjár eigi margt sameiginlegt né heldur að lífshlaup þeirra tengist á nokkurn hátt en smátt og smátt rakna þræðir fléttunnar eða kannski réttara sagt taka þeir að fléttast saman og skarast.
Það er ekki að ástæðulausu að Yrsa Sigurðardóttir hefur verið kölluð drottning íslenskra glæpasagna því hún er bráðsnjöll og hér er hún í sínu besta formi. Þessi bók er spennandi og skemmtileg. Hugsanlega er hægt að segja að þetta sé saga um einfara eða einrænt fólk. Bæði Tinna og Lena kjósa að draga sig í hlé og hafa aldrei verið neitt sérlega háðar félagsskap annarra eða notið sín innan um marga. Hið sama gildir um ýmsar aukapersónur bókarinnar en allir hafa sínar ástæður fyrir að loka sig af frá heiminum.
Bókin er skemmtilega uppbyggð, hver sögupersóna fyrir sig fær sinn kafla og sniðugar vendingar á söguþræðinum halda lesandanum í senn spenntum og uppteknum við að reyna að lesa í vísbendingarnar og giska á hvernig þetta tengist nú allt saman og hver hafi drepið hvern, lengi er ekki einu sinni víst að nokkur hafi verið drepinn. Yrsa kann líka öðrum betur að nýta sér skrýtnar tilviljanir og það hvernig tilviljanirnar geta stundum raðast saman á stórmerkilegan hátt. Henni tekst að gera þetta allt trúverðugt og sagan gengur fyllilega upp.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







