Sorg og söknuður eru óhjákvæmilegir fylgifiskar lífsins og það er alltaf einhvers að sakna, ástvina, lífshátta, lands eða alls þessa. Þrjár bækur rak á fjörur Lifðu núna sem allar fjalla um sorg og söknuð á einn eða annan hátt.
Ein á báti
Þú sem ert á jörðu eftir Nínu Ólafsdóttur er feykilega vel skrifuð og áhugaverð saga. Arnaq er ein eftir af sínu fólki á ísnum eftir að hamfarahlýnun hefur breytt öllum forsendum lífs við norðurheimskautið. Hennar eini félagsskapur er hundur. Dag nokkurn hætta þau sér um of út á ótraustan ís í leit að bráð, fleki brotnar frá meginhellunni og þau tekur að reka út á reginhaf. Síðan fær lesandinn að fylgjast með hvernig þeim reiðir af þar og hvað þau finna þegar þau ber loks að landi. Nínu tekst fádæma vel að halda uppi spennu og gera þessa sögu athyglisverða og grípandi. Lesandanum þykir vænt um Arnaq og hundinn og þessi bók er ein af þeim sem býr lengi með manni. Við lifum á erfiðum tímum og ekki laust við uggur fyrir framtíðinni búi innra með flestum. Hvað bíður næstu kynslóða? Þú sem ert á jörðu er afburða vel unnin bók, falleg, dramatísk og eftirminnileg.
Kærleikurinn í verki
Þegar mamma mín dó eftir Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttir fjallar á raunsannan hátt um hvernig það er að fylgja ástvini síðustu vikurnar í þessu lífi og kveðja. Þessi skref bíða flestra einhvern tíma á ævinni og eiginlega undarlegt að við fjöllum ekki meira um kærleiksverk af þessu tagi í bókum. Í svipinn man undirrituð ekki eftir sambærilegri bók annarri en Ástin, drekinn og dauðinn eftir Vilborgu Davíðsdóttur. En engu að síður er þetta óendanlega mikilvægur hluti tilverunnar. Það að geta gefið af sér og sýnt ást sína í verki er ómetanlegt fyrir aðstandendur þótt erfitt sé. Sumir fá ekki þetta tækifæri. Þeir eru sviptir sínum fyrirvaralaust og án undirbúnings. Þess vegna er svo þakkarvert að aðrir séu tilbúnir að deila með okkur þessari reynslu og sýna hvernig hægt er að takast á við svona erfið verkefni. Sigrún Alba er einstaklega lipur og ritfær höfundur og ferst það vel úr hendi að draga upp allt hið góða, erfiða, slæma og ljúfsára við umönnun dauðveikrar manneskju. Að auðsýna kærleika á slíkum stundum tekur oft á en gefur einnig mikið. Þetta er hjartnæm frásögn, eftirminnileg og hrífandi.
Getur ástin verið köld?
Það var sérlega ánægjulegt að rifja upp kynnin af Ástinni fiskanna eftir Steinunni Sigurðardóttur. Þessi ástarsaga tveggja einstaklinga sem í senn er svo vonlaus og full fyrirheita. Ekkert gerist þegar það gerist segir Samanta í hvert sinn sem hún rifjar upp fundi sína og Hans Örlygssonar og í raun nýtur þeirra til fulls fyrst þá. Kynni þeirra hefjast í Edinborg og hann er þá þegar trúlofaður. Þau eiga saman indælt kvöld en kveðjast án þess að meira verði úr. En hann getur ekki látið hana vera þótt brúðkaup standi fyrir dyrum og dúkkar upp í lífi hennar aftur og aftur. Það er erfitt að gera upp við sig hvort eitthvert sterkt aðdráttarafl dragi þau stöðugt að hvort öðru eða hvort þau séu kaldir fiskar í leit að tilbreytingu. Hvað vilja þau? Af hverju geta þau ekki notið hvers annars í núinu heldur aðeins eftir þegar allt gerist? Sagan er frábærlega skrifuð og persónur þeirra Hans Örlygssonar og Samöntu sérlega vel mótaðar. Kímni Steinunnar er svo skemmtilegt krydd í réttinn.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.