Blaðari og leiðari

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

 

Elsti bróðir minn heitinn var sjómaður í húð og hár. Hann fór á sjóinn þegar hann var 12 ára og hafið var hans veröld. Ég er fegin því að hann þurfi ekki að fylgjast með umræðunni um kynhlutleysi stéttarinnar. Ég sé hann í anda hlæja sig máttlausan að bullinu og munnsöfnuðurinn hefði verið í samræmi við það. Hel…………………………………………………. rugludallar.

Fiskari á að koma í stað heitisins fiskimaður en sjómaðurinn fær enn að halda sér. Ég skil ekki alveg rökin en ég nú bara kvenmaður. Í fréttunum í vikunni heyrði ég að Karl Svíakonungur telur veika kynið ekki ætlað til stórverka. Hann lét hafa eftir sér að hann teldi að yngsta barnið, einkasonurinn, ætti að taka við krúnunni þar sem verkefnið væri ekki við hæfi kvenna. Djarflega orðað í árbyrjun 2023!

Í gegnum minn starfsferlil hef ég með nokkru stolti kallað mig blaðamann eða fjölmiðlamann án þess að það hefði  nein teljandi áhrif á kynvitund mína. Í sturtunni í morgun fór ég að velta því fyrir mér hvaða heiti væri rétt að gefa þeim sem í dag hafa það starf að miðla fréttum. Strax kom upp í hugann orðið blaðari. Ímyndunaraflið lét ekki staðar numið og annað orð bankaði fast á dyr, það var orðið blaðrari. Það munar bara einum bókstaf og hvers virði er hann á tímum kynhlutleysis?  En hvað með hitt starfsheitið mitt sem er leiðsögumaður. Jú það gæti verið leiðari, orð sem er nátengt fyrra starfi. Blaðari og leiðari, eða blaðrari og leiðari. Hljómar næstum því jafn vel og malt og appelsín. Ég ætla að láta skrá þessa titla á legsteininn minn þegar þar að kemur.

Ég man þá tíð að ég kvartaði yfir vandræðagangi á orðavali í tengslum við umfjöllun um fatlað fólk. Ein vinkona mín sem átti fatlað barn vildi að ég talaði m.a.um fatlaða og ófatlaða. Þetta flækjustig varð til þess að ég fór að forðast það að fjalla um þennan mikilvæga málaflokk.

Mér finnst við vera komin á villigötur með þetta blessaða kynhlutleysi í fallega tungumálinu okkar. Ég hlustaði á dögunum á konu í viðtali rembast við að koma öllum mögulegum og ómögulegum kynjum inn á frásögnina sína. Henni varð endalaust fótaskortur á tungunni og innihaldið óskiljanlegt. En það sem stendur upp úr er að við þurfum greinilega ekki að hafa áhyggjur af þjóðarbúinu á nýbyrjuðu ári þar sem yfirvöld mega vera að því að afkynja þjóðarstoltið okkar – tungumálið.

p.s. Verður orðið kvenmaður þá ekki líka að breytast og gæti orðið kvennari?

 

 

 

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir janúar 9, 2023 07:00