Sonur minn eftir Alejandro Palomas

Guilli er brosmildur og virðist vera glaður strákur, en sé kíkt undir yfirborðið sést að hann burðast með grafalvarlegt leyndarmál – um einhvern sem kann að vera í stórhættu.
,,Sonur minn“ er marglaga og átakanlega saga sem er full af tilfinningum, eymslum, vináttu, ósögðum orðum og yfirþyrmandi ráðgátu.

Sagan segir frá föður í kreppu, fjarverandi móður, forvitinn kennara, besta vininn og sálfræðing sem reynir að púsla saman vísbendingum – um einhvern sem er í hættu.

Alejandro skrifar bókina með röddum þeirra sem sagan fjallar um, hverju fyrir sig og þannig fáum við innsýn í hugarheim sögupersónanna og smám saman raðast myndin saman.

Textabrot:

,,Sjáðu til, Sonja, ég vona að þú takir þessu ekki illa, en sonur minn hefur ekki þörf fyrir neinn ráðgjafa,“ sagði hann og leit aftur upp. Svo sagði hann lágum rómi eins og hann væri að tala við sjálfan sig: ,,Hann þarf á móður sinni að halda.“

Þá vissi ég að það höfðu ekki verið mistök að boða hann til fundar við mig og ég vissi líka að ég myndi ekki hleypa honum út af skrifstofunni fyrr en hann hefði samþykkt að Guilli mætti í viðtal hjá Maríu, sálfræðingnum okkar. Ég ákvað þes vegna að grípa til þess ráðs sem ég var með í bakhöndinni og nálgast málið á annan hátt.

,,Manuel, það er ýmislegt sem ég held að þú þyrftir að vita,“ sagði ég. Hann leit tortrygginn á mig. Úr augnaráðinu mátti lesa að sem faðir Guilla vildi hann vita hvað ég ætlaði að segja en á sama tíma vildi hann ekki heyra það.

Þýðandi er Sigrún Á. Eiríksdóttir

Ritstjórn nóvember 8, 2022 09:40