Stofna sjóð til að kosta málaferli við ríkið

Finnur Birgisson

Tillaga um að Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni verði stofnaðili að fyrirhuguðum Málsóknarsjóði Gráa hersins var samþykkt með nánast öllum greiddum atkvæðum á aðalfundi félagsins 19. febrúar s.l. Jafnframt var samþykkt að stofnframlag félagsins yrði 500 þúsund krónur. Finnur Birgisson, Ingibjörg Sverrisdóttir og Wilhelm Wessman lögðu fram tillöguna en hún hafði áður hlotið eindreginn stuðning stjórnar félagsins. Í tillögunni segir meðal annars.

Undirritaðir félagar í FEB og Gráa hernum, sem unnið hafa að undirbúningi málsóknar gegn íslenska ríkinu vegna tekjutenginga lífeyris almannatrygginga, áforma að stofna sjóð sem hefði þann eina tilgang að standa undir kostnaði af málarekstrinum. Ætlunin er að sjóðurinn verði sjálfstæður með sérstaka skipulagsskrá og stjórn, og uppfylli skilyrði laga nr.19/1988. Þannig verði fullkomið gagnsæi og öryggi í starfsemi sjóðsins tryggt, þannig að hann geti notið óskoraðs trausts bæði þeirra sem styðja hann með framlögum og þeirra sem muni eiga hagsmuni undir honum.“

Sem fyrr segir var tillagan samþykkt einróma á aðalfundinum. Fram kom að þegar lægju fyrir loforð frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur um 1 milljónar króna framlag í sjóðinn og frá  Verkalýðsfélaginu Framsýn um 100 þúsund krónur auk loforða frá einstaklingum.

Finnur Birgisson sagði eftir fundinn að samþykkt aðalfundarins hefði fyrst og fremst þá þýðingu að nú lægi fyrir ótvíræð yfirlýsing félagsins um að það vildi styðja það í verki að láta reyna á dómstólaleiðina til að fá skerðingunum í lífeyriskerfinu hnekkt. „Í framhaldinu verður leitað eftir því að önnur Félög eldri borgara víðsvegar um landið gerist einnig stofnfélagar í sjóðnum til að tryggja sem víðtækastan stuðning við málið“ Næstu verkefni framundan væru síðan að setja sjóðnum reglur og ákveða hvernig hann á að starfa í einstökum atriðum. Að því búnu verði hægt að opna bankareikning og hefja söfnun meðal einstaklinga og samtaka.

Þórey S. Þórðardóttir

Skerðingarnar hafa verið lengi til umræðu

Mikil umræða hefur átt sér stað meðal eldri borgara á umliðnum árum um skerðingar ellilífeyris. Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða hefur blandað sér í þá umræðu, nú nýlega í Morgunblaðsgrein þar sem hún spurði. „Hví eiga eldri borgarar að þola þyngri skattbyrði en almennt gerist í þjóðfélaginu, meira að segja langt umfram það sem telst vera hátekjuskattur?“.

Tekjuskerðing almannatrygginga gagnvart eldri borgurum og öryrkjum er alls ekki sjálfsögð og því síður að hún teljist vera einhvers konar samfélagslögmál sem verði ekki brotið frekar en sjálft náttúrulögmálið. Tekjuskerðingunni var komið á með pólitískri ákvörðun og henni verður ekki breytt eða hún afnumin nema með pólitískri ákvörðun“.

Segir í grein Þóreyjar. Hún nefnir líka samaburð við önnur lönd og segir að íslenska kerfið skeri sig úr.

Það sem stingur í augu við þennan samanburð er sú staðreynd að íslenska kerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris frá ríkinu. Hvergi annars staðar fellur lífeyrir úr opinbera kerfinu alveg niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk.

Tekjutengingin hér er harkaleg og vandséð hvað réttlætir það að Íslendingar skrái sig á söguspjöld með slíku fyrirkomulagi. Skerðingin varðar tugi þúsunda manna. Til að mynda hefur komið fram hjá Hauki Arnþórssyni stjórnsýslufræðingi að með núverandi kerfi, sem komið var á 2016, hafi tala aldraðra sem engar greiðslur fá frá Tryggingastofnun komist upp í 13.000!

Þá sýnir Haukur fram á með sannfærandi rökum að ríkið tvískatti í raun lífeyristekjur í núverandi kerfi, annars vegar hjá ríkisskattstjóra og hins vegar hjá Tryggingastofnun. Það er að segja að aldraðir greiði skatt af tekjum sínum líkt og aðrir en síðan annan skatt í formi skerðingar. Slíkt þekkist hvergi annars staðar“.

Svo mörg voru þau orð í grein Þóreyjar. Grái herinn hefur hug á að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort það standist að skerða lífeyri með þeim hætti sem gert er hér.

 

 

Ritstjórn febrúar 26, 2019 12:16