Stórbrotin kona sem reis tvisvar hátt upp á stjörnuhiminn

Sumir rísa ungir hátt á stjörnuhimininn og fallið er hátt þegar þeir detta. Marianne Faithfull er ein af þeim en munurinn á hennar sögu og margra annarra er að hún lifði það að ná bata frá fíkn og eiga endurkomu inn í tónlistarheiminn. Það er ekki lítið afrek. Plata hennar Broken English sem kom út árið 1979 er flokkuð með bestu rokkplötum tuttugustu aldar.

Marianne Faithfull þótti glæsileg, hæfileikarík og eiga framtíðina fyrir sér þegar hún sló í gegn á sjöunda áratug síðustu aldar. Hennar fyrsti smellur var lagið As Tears Go By, lag sem var samið fyrir hana af kærasta hennar, Mick Jagger, söngvara og meðlim í Rolling Stones. Litlu síðar kom The Ballad of Lucy of Lucy Jordan, þar var dregin upp dapurleg mynd af leiða og tilgangsleysi lífs úthverfahúsmóður og hás rödd Marianne styrkti boðskapinn. Enn í dag er þetta lag nokkurs konar þemasöngur kvenna sem eru í uppreisn gegn þeim kröfum sem gerðar eru á þær í samfélaginu. Nokkrum árum síðar var Marianne heimilislaus og glímdi við fíkn.

Árið 1994 fylgdi hún eftir velgengni plötunnar, Broken English, með sjálfsævisögu sinni, Faithfull, An Autobiography. Þar var eftir því tekið að hún kveinkaði sér hvergi og lýsti sjálfri sér sem gerandi í eigin lífi fremur en fórnarlambi. Hún kenndi engum um hvernig farið hefði þótt æska Marianne og fjölskyldu hennar sé sannarlega hvorki auðveld né falleg.  Móðir hennar. Eva, var leikkona og dansari. Hún átti ættir að rekja til austurísk-ungveskra aðalsmanna og átti rétt á að kalla sig Erisson barónessu en hún kaus að nota ekki titilinn. Eva gekk í gegnum miklar raunir í seinni heimstyrjöldinni en í lok hennar kynntist hún breskum manni, Glynn Faithfull. Hann var majór í breska hernum og starfaði fyrir MI5.

Flutti til kærasta síns

Í ævisögunni segir Marianne að Eva hafi gert sér þær væntingar að í hjónabandinu myndi hún njóta aðdáunar eiginmannsins sem yrði henni eftirlátur og góður. Glynn var hins vegar að leita að félaga, jafningja sem hann gæti talað við og deilt með áhugamálum sínum og áhyggjum. Skilnaður þeirra var því eiginlega óhjákvæmilegur og eftir að þær mæðgur fluttu frá Glynn bjuggu þær við mikla fátækt. Á þessum árum heillaðist Marianne af Buddy Holly, Joan Baez og Simone de Beauvoir. Hún sótti listsýningar og komst í félagsskap ungs menntafólks. Í þeim hópi var John Dunbar, nemandi í Cambridge, og áður varði var Marianne farin að búa heima hjá honum og fjölskyldu hans. Þetta var árið 1964 og í farvatninu var nýbylgja tónlistar, nýrra viðhorfa og uppreisna ungs fólks um allan heim. Einn vina Johns var Peter Asher. Hann bjó einnig í foreldrahúsum eins og John og þar var einnig til húsa systir hans, Jane Asher, vinsæl fyrirsæta og kærasti hennar var Paul McCartney sem eins og Marianne flutti inn á tilvonandi tengdaforeldra sína.

Auðvitað var óhjákvæmilegt að þau mynduðu klíku og leyfðu sér að upplifa saman allt það skemmtilega sem London bauð upp á á þessum árum. Peter Asher söng ásamt öðrum vini sínum lag inn á plötu og gaf út, A World Without Love, eftir Paul McCartney sem gekk vel. Peter gat fyrir ágóðann af sölu plötunnar opnað bókbúð og listagallerí, The Indica Gallery en árið 1966 var þar opnuð fyrsta sýning á verkum Yoko Ono í London. John Dunbar bauð vini sínum John Lennon á þá sýningu og allir þekkja framhald þeirrar sögu.

Marianne var sem sagt hluti af þessum hópi og naut virðingar, enda mjög greind og vel lesin. Þegar hún kynntist strákunum In Rolling Stones fannst henni ekki mikið til um Mick Jagger til að byrja með. Hljómsveitin var þá enn lítt þekkt en þeir voru í óða önn að finna fæturnar og afla sér vinsælda. Hún segir í ævisögunni að sér hafi litist best á umboðsmann hljómsveitarinnar, Andrew Loog Oldham.

Sló í gegn með As Tears Go By

Andrew sá að Marianne var hæfileikarík og hann fór með hana í stúdíó þar tók Lionel Bart upp hennar fyrsta lag, því var ætlað að vera á B-hlið tveggja laga plötu sem Andrew ætlaði að gefa út. Lagið höfðu þeir, Mick Jagger og Keith Richards, samið. Lagið hét, As Tears Go By.  Platan kom út um sumarið og Marianne fór í nokkur viðtöl í sjónvarpi en lítið gerðist fleira. Er þetta allt og sumt hugsaði hún með sér og fór aftur í skólann um haustið. En svo fór lagið á flug og komst inn á topp tíu listann í Bretlandi og náði tuttugasta og öðru sætinu á hinum bandaríska en það var frábær árangur hjá óþekktum listamanni þar í landi, ekki hvað síst þegar haft er í huga að listamaðurinn var ekki bandarískur.

Og áfram hélt velgengnin. Marianne gaf út fjórar tveggja laga plötur sem allar náðu inn á topp tíu listann í Bretlandi. Meðal annars naut lagið Four Strong Winds, eftir Ian og Sylvie mikilla vinsælda í flutningi hennar. Hún var aðeins átján ára og bjó um þessar mundir í nokkurs kona kommúnu með John sem þarna var orðinn eiginmaður hennar. Flestir aðrir í húsinu neyttu margvíslegra vímuefna og þau tvö lögðu mest peningalega til heimilishaldsins. Hún var fastagestur í ýmsu skemmtiþáttum kom meðal annars fram með Paul McCartney og söng Yesterday.

Hún vingaðist við Brian Jones og Anitu Pallenberg og varði löngum stundum á heimili þeirra og þá var óhjákvæmilegt að hún rækist á aðra meðlimi Rolling Stones. Mick heillaðist af henni en hún sá hann ekki. Til að ná athygli hennar þóttist hann missa rauðvínsglasið sitt beint framan á hana en það dugði ekki til. Það var ekki fyrr Mick bað hana að koma með sér í búðarráp að hún kveikti á að þarna væri skemmtilegur náungi á ferð. Þau voru saman frá árinu 1966 til 1970.

Glamúrstelpan hans Jaggers

Þau voru aðalparið þessi ár. Hvert sem þau fóru sátu ljósmyndarar fyrir þeim og þau ferðustu út um allan heim. Nóg var um villt partí og peningar og vímuefni flóðu alls staðar. Þegar Brian Jones dó reyndu þau að styðja hvort annað í gegnum sorgina. Hið sama var upp á teningnum þegar Marianne missti fóstur. Henni fannst hins vegar nóg um tilfinningaleysi annarra gagnvart þeirri sorg. Henni fannst að allir sem komu að rekstri hljómsveitarinnar væru fegnir að svo hefði farið því þar með væri hún áfram glamúrgellan með Mick en ekki móðir.

Á þessum árum lifðu menn hátt, boðskapurinn um frjálsar ástir skapaði alls konar flækjur og ekki hjálpaði til tilraunir þessara ungmenna með hugvíkkandi og hugbreytandi efni. Svo rann upp örlagaríkur dagur þegar lögreglan gerði rassíu á heimili Keith Richard og fann mikið magn fíkniefna. Bæði Keith og Mick voru dæmir í fangelsi. Hópurinn hafði farið á ströndina og varið þar eftirmiðdeginum. Þau komu til baka og Marianne hafði ekki haft með sér föt til skiptanna en varð að fara úr sundfötunum og var aðeins í þunnu pilsi og bol. Hún vafði sig inn í teppi meðan fötin voru að þorna og skýldi sér þannig meðan lögreglan ruddist inn og fór um allt. Fjölmiðlar í Bretlandi gerðu sér mat úr nekt hennar undir teppinu og fyrirsagnir á borð við: Nakin stúlka í Stones partíi, skreyttu forsíður allra slúðurblaðanna. Gefið var í skyn að hún væri meira en lítið frjálslynd í kynferðismálum og það breytti ímynd hennar allverulega. Fram að þessu hafði hún verið kynnt sem hreinlíf stúlka sem hefði góð áhrif á hinn villta Mick Jagger.

Það var líka frekar kaldhæðnislegt að hún átti pillurnar sem fundust í jakkavasa Micks og hann var dæmdur í fangelsi fyrir að vera með í vörslu sinni. Hún hafði stungið þeim í vasa hans nokkrum mánuðum áður. Þeir félagar sátu ekki lengi inni, dómunum yfir þá var hnekkt og almenningsálitið snerist fljótt aftur til jákvæðni í þeirra garð, ekki síst eftir að í Times of London, Who breaks a Butterfly on a Wheel, birtist óvenjulega umburðarlyndur og jákvæður leiðari um þetta tiltekna mál.

Bar þungar sorgir  

En Marianne var ekki eins fljót að jafna sig. Sorgin yfir fósturmissinum og álagið sem fylgdi athyglinni lagðist þungt á hana. Hún vissi heldur ekki fyllilega hvað hún vildi gera við líf sitt. Hún prófaði að leika, steig á svið bæði í leikriti eftir Chekov og í uppfærslu á Hamlet. Hún fékk ágæta dóma. En á þessum tíma var hún farin að neyta hugbreytandi efna á hverjum degi. Lát Brian Jones var henni einnig mikið áfall. Hún reyndi tvisvar að svipta sig lífi en var bjargað í bæði skiptin. Hún var aðeins tuttugu og fimm ára og var þegar þarna var komið sögu háð heróíni. Mick komst að því að hún hafði haldið framhjá honum, meðal annars með dópsalanum sem sá henni og Keith fyrir heróíni. Hann sleit sambandi þeirra.

Hann samdi um þetta leyti lagið Wild Horses og það er eina Stones-lagið sem hann viðurkennir að hafa verið samið um hana og til hennar en mörg önnur hafa verið tínd til og almenningur talið að séu uppgjör hans við samband þeirra. Leið Marianne lá hins vegar hratt niður á við eftir þetta. Hún fór úr einu misheppnaða sambandinu í annað, var fljót að eyða öllum sínum peningum og eignir hennar voru fljótar að hverfa líka. Heróín er dýrt og tekur drjúgan toll af andlegri og líkamlegri heilsu þeirra sem neyta þess.

Hún bjó í París á sama tíma og Jimi Hendrix og Jim Morrison Þar lék hún í mynd Kenneth Anger, Lucifer Rising. Gersamlega misheppnuð og einstaklega léleg kvikmynd, enda flestum gleymd sem betur fer. Eftir að hún sneri aftur til London bjó hún á götunni. Hún hafði lengi strítt við átröskun og var komin niður í 45 kg. Líklega hefði hún dáið ef heilsugæslan í hefði ekki sett upp prógramm þar sem hún fékk daglega skammt af heróíni í nægu magni til að halda henni frá fráhvörfum og einnig var reynt að vinna að því að þyngja hana. Hún missti forsjá sonar síns og fór nokkrum sinnum í meðferð en entist ekki lengi. Í fimmtán ár glímdi hún við fíknina. Nokkrum sinnum á því tímabili náðu einhverjir vina hennar í hana og báðu hana að syngja með sér. Fyrir það fékk hún borgað en var fljót að eyða öllu og endaði alltaf á götunni aftur.

Nýr ferill í leiklist og tónlist

Eitt sinn tókst henni að halda sér edrú í átta mánuði en það var met. Broken English kom út á þessum árum og snerti marga mjög djúpt, einkum vegna þess að þarna var kona að syngja um hlutskipti kvenna með fíknivanda og lífið á götunni. Ekki nóg með að textarnir endurspegluðu veruleika hennar heldur var konan sjálf markeruð þessu líferni, bæði í útliti og hljómi raddarinnar. Marianne var ekki nema þrjátíu og þriggja ára en leit út fyrir að vera fimmtug.

Það var svo loks árið 1987 að henni tókst að ná varanlegum bata. Þá kom út platan Strange Wheather og náði umtalsverðum vinsældum. Næst komu tvær dúetta plötur með gömlum vinum og ungu tónlistarfólki sem hún hafði kynnst eftir að hún náði bata. Af og til sást hún á ferð með gömlum vinum á borð við Mick, Keith og Anitu og paparassarnir höfðu gaman af mynda þau saman. Hún var einnig gestaleikari í einum þætti af Absolutely Fabulous. Síðustu plöturnar sem hún sendi frá sér voru, Negative Capability, árið 2018, og She Walks in Beauty, árið 2021. Sú síðarnefnda var gerð skömmu eftir að Marianne hafði náð sér eftir að hafa veikst alvarlega af Covid. Á henni syngur hún lög við nokkur klassísk ljóð eftir bresk ljóðskáld. Marianne Faithfull var sérstæð kona með stórbrotna hæfileika en viðkvæm. Engu að síður sýndi hún fádæma styrk og þrautseigju gegnum sín veikindi og náði sér að lokum. Síðustu æviár hennar voru án efa hennar bestu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 4, 2025 07:00