Ömmu-fimman

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar. 

 

Ég kveikti á Rás 2 í morgun og heyrði bláenda viðtals við eldhressa konu. Hún var gestur í „fimmunni“ sem Felix Bergson er löngu búinn að festa í sessi um helgar á Rásinni. Hún hafði verið að segja frá fimm öfum og dagskrárgerðarmaðurinn sagðist aldrei áður hafa heyrt „fimmu“ um afa. Fimma um skóla, fimma um fjöll, fimma um borgir og fimma um fótboltaleiki. En fimma um afa var ný og fersk.

Ég er að fara í tveggja ára afmæli langömmubarns eftir hádegi í dag. Það væri ekki í frásögu færandi nema vegna þess að um árabil hafa barnaafmælin í fjölskyldunni verið sótt af fimm ömmum. Því miður verður það ekki ár, þar sem tvær úr hópnum féllu nýlega frá. Þeirra verður sárt saknað.

En hvernig er hægt að eiga fimm ömmur? Í hinu fjölbreytilega og litríka þjóðfélagi okkar er það hægt í gegnum fleiri en eitt samband á lífsleiðinni. Fjölskyldan mín er örugglega ekki sú eina sem getur talið ömmur og afa á fingrum annarrar handa og jafnvel þurft að bæta við fingrum á hinni höndinni. En það er ekki sjálfgefið að þessir einstaklingar geti verið vinir og notið samveru á góðum stundum. Hjá okkur hefur það tekist.

Ég tek hattinn ofan fyrir tengdadóttur minni og syni en þau hafa gert það að reglu að bjóða ömmunum fimm í fermingar, afmælisboð og útskriftarveislur. Ég þurfti að venjast þessu í byrjun en með árunum hefur þróast vinskapur og gagnkvæm virðing  í ömmuhópnum, sem hefur mikið gildi fyrir mig.

Einu sinni gat ég ekki verið viðstödd fermingu barnabarns. Maðurinn minn hélt tölu í veislunni og skilaði kveðju frá mér. Hann sagði líka að fjarvera mín gerði ekki mikið til þar sem fjórar ömmur væru þegar á staðnum, sem yrði að duga í þetta sinn!

Við ömmurnar erum ekki allar eins þó að við elskum sama barnahópinn. Við komum úr ólíkum áttum og erum með ólíkan bakgrunn. Sumar tengast börnunum blóðböndum, aðrar ekki. En það skiptir bara engu máli í þessari fimmu. Fyrir barnabörnin hefur þetta verið dýrmætt og ég tala nú ekki um allar gjafirnar sem þessu fylgir á tímamótum í lífi þeirra. Þegar ein amman lést fyrir nokkrum mánuðum sagði eitt barnabarnið „Ég veit að hún var ekki raunverulega amma mín, en ég sakna hennar eins og hún væri það.“

Við hittumst síðast allar fimm í barnaafmæli á sama heimili og veislan verður haldin í dag. Ég sé svo eftir því að hafa ekki látið taka mynd af okkur því við vissum þá að ein í hópnum var orðin alvarlega veik og átti ekki langt eftir. Ég hefði vilja ramma þá mynd inn og setja upp á myndahilluna mína til heiðurs konum sem ekki létu gömul ástarsambönd og skilnaði koma í veg fyrir ánægjulega samveru með sameiginlegri stórfjölskyldu.

Sigrún Stefánsdóttir júní 23, 2024 07:00