Sverrir Guðjónsson tónlistarmaður

Sverri þekkja margir fyrir fjölbreytilega listsköpun í gegnum tíðina en hann stundaði söngnám á sínum tíma við söngskólann í Reykjavík og síðan framhaldsnám í Englandi. Ekki hefur sést mikið til Sverris hér á landi í allmörg ár og fyrir því er ærin ástæða en störf hans hafa einkum falist í verkefnum erlendis í nokkurn tíma. Þar hefur hann verið að vinna með frönskum kvikmyndagerðarmanni og hafa þau verkefni leitt Sverri hingað og þangað um heiminn, t.d. til Seoul, Istanbul, Kyoto og víðar. Þetta eru meðal annars fimm heimildarmyndir sem leikstjórinn Jacques Debs var að vinna um Suður-Kóreu og Sverrir kom inn í tónlistarsköpunina. “Ég starfaði þar og flutti tónlist með mjög spennandi hópi sem nefnist Noreum Machi  og vinnur með þjóðlega tónlist í nýstárlegum útsetningum með miklu slagverki, hreyfingu og búningum,” segir Sverrir. “Við undirbjuggum og æfðum tónleikaprógram sem var kvikmyndað í Seoul og tónlistin síðan notuð í tengslum við þetta verkefni. Í Istanbul vann ég með tyrkneskum tólistarmönnum og söng alla tónlist á hinu gamla tungumáli Farsi fyrir kvikmyndina Bouzkachi, sem var mynduð í Uzbekistan. Heimildarmyndin “Walking on Sound”, í samstarfi við goðsögnina Stomu Yamash´ta, sem rataði inn í Ríkissjónvarpið okkar, var kvikmynduð í Japan, á Íslandi og tónleikasýningu í miðaldakirkjunni Saint Eustache í miðborg Parísar. Öll þessi kvikmyndaverkefni eru framleidd af Les Films d´Ici og menningarsjónvarpsstöðinni Arte.

Rökkursöngvar og Grjótaþorpið

Sverrir er að vinna að fleiri verkefnum með  kvikmyndagerðarmanninum Jaques Debs, svo að í allmörg ár hefur hann starfað fyrst og fremst erlendis. Nú er hann aftur á móti að vinna að því að gefa út tvær vínylplötur þar sem íslensk tónskáld hafa samið tónverk fyrir hann og Sverrir kallar Rökkursöngva. Hann segist vera á ferðalagi á mörkum ljóss og myrkurs í þessu verkefni og finnst vera rétti tíminn til að gefa þessa tónlist út hér á landi á haustdögum 2018, á fullveldishátíð Íslendinga. Sverrir er líka að vinna verkefni með Jónu Þorvaldsdóttur ljósmyndara (jonath.is ), sem tengist Grjótaþorpinu, en Jóna hefur sérhæft sig í upprunalegri aðferð ljósmyndunar. Í gegnum árin hefur Sverrir unnið þætti fyrir Ríkisútvarpið. Nýlega vann hann þætti sem nefnast Grjótaþorp-hjarta Reykjavíkur og tengjast þeim sem búa í þorpinu. Einnig þáttaröðina “Innrásin í Grjótaþorp” en hún tengist þeim sem komu til landsins í kjölfar 1968 stúdentabyltingarinnar í Frakklandi. “Þá var ódýrt að finna leiguhúsnæði í Grjótaþorpinu því þá var niðurlægingartími þorpsins alger og til stóð að rífa þessi gömlu hús og byggja frekar fleiri Morgunblaðshallir. Sem betur fer vaknaði fólk til vitundar um verðmæti þessara húsa og ungu, frönsku mennirnir tóku þátt í þessari baráttu með ‘herskáum’ Íslendingum. Sumir þeirra búa enn á Íslandi og má nefna mann eins og Gérard Lemarquis sem býr einmitt enn í Grjótaþorpinu. Jólin 2017 vann ég svo tvo þætti um Þorlák hinn helga Þórhallsson, eina dýrling Íslendinga, sem tengist tónlist Þorlákstíða úr handriti frá því um 1400, sem við í Voces Thules sönghópnum hljóðrituðum og gáfum út í listabók á sínum tíma í takmörkuðu upplagi, sem er löngu uppselt.”

Nokkurs konar gjörningar

Sverrir er alltaf að vinna verkefni í sambandi við tónlist og setur hana í samband við ýmis önnur listform. Sverri var boðið að taka þátt í samkeppni á vegum UK International Radio Drama Festival en þangað er hann að fara í næstu viku. “Þetta verk byggir meðal annars á mínum eigin raddskúlptúrum, barkasöng, raddhljóðum og Söng Ófelíu þar sem brotin harpa verður táknmynd fyrir brostið hjarta Ófelíu.”  Sverrir segist sífellt vera að vinna að því að finna leiðir þar sem hann vinnur með röddina á ólíkan máta, sem oft og tíðum tengist nokkurs konar gjörningum.

 

Ritstjórn mars 7, 2018 09:47