Svo erfitt að byrja

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur og kennari hjá líkamssrækt JSB

Ég tók mér pásu fyrir jólin og svo hef ég ekki komið mér af stað aftur í ræktinni.“

„Ég veit ég þarf að drífa mig og gera eitthvað í mínum málum,

það er bara svo erfitt að byrja.“

 

Svona tilsvör þekkjum við flest en af hverju ætli þetta sé svona erfitt?

 

Kvíðum við fyrir of miklu púli og of strangri dagskrá?

  • Líkamsræktin á að vera eðlilegur hluti af lífinu og veita okkur hæfilega áskorun, vellíðan og ánægju. Hún á alls ekki að vera svo yfirþyrmandi að hún komi í veg fyrir að við lítum glaðan dag.

Getur verið að einhver önnur tegund líkamsræktar henti okkur betur?

  • Vandinn gæti legið þarna og um að gera að prófa sig áfram því að mikilvægt er að velja sér hreyfingu sem verður eðlilegur hluti af lífsmynstrinu.

Höfum við nógu mikla trú á því að líkamsrækt skili okkur árangri?

  • Þegar við erum komin heim í sófa eftir langan dag sækir efinn vissulega á. Tökum mikilvægar heilsufarsákvarðanir á öðrum tímum sólarhringsins og segjum frá þeim þannig að auðveldara sé að halda sig við þær.

Höfum við nógu mikla trú á því að við getum náð árangri?

  • Gott er að setja sér raunhæf markmið t.d. með aðstoð fagfólks. Sjálfstraustið og almenn vellíðan eykst þegar við náum settu marki og það er vissulega árangur í sjálfu sér.

Látum við stjórnast af sjálfspíningarhvöt og vanmetakennd?

  • Það er sorglega algengt að heyra fólk tala niðrandi um sjálft sig og finna sér flest til foráttu. Með slíkt veganesti í ræktinni nær maður sjaldnast fullnægjandi árangri. Sýnum sjálfum okkur sömu velvild og við viljum að aðrir sýni okkur. Niðurrif er eðli málsins samkvæmt ekki uppbyggilegt.

Til hvers að stunda líkamsrækt?

Líkaminn þarf sitt viðhald líkt og önnur gangverk sem við þekkjum. Vöðvana þarf að styrkja og hamla þannig á móti rýrnun þeirra og viðhalda grunnbrennslu líkamans, auk þess sem styrktaræfingar stemma stigu við beinþynningu. Liðina þurfum við að smyrja líkt og aðrar hjarir, hjartað og lungun þurfa sína þolþjálfun og blóðið þarf að renna óhindrað um æðarnar. Síðast en ekki síst þurfum við að teygja vöðvana svo að þeir haldi sem bestri samvirkni sín á milli.

Þannig náum við að lifa góðu lífi.

Ritstjórn febrúar 26, 2015 12:15