Tekur eitt og hálft ár að verða gráhærður

Þegar árin færast yfir fjölgar gráu hárunum og margir velta fyrir sér hvort þeir eigi að verða gráhærðir og hvernig það sé að láta litinn vaxa úr þannig að hárið verði grátt. Elsa Haraldsdóttir hárgreiðslumeistari hefur gríðarlega reynslu í faginu og eitt af því sem varð til þess að hún ákvað að verða gráhærð, var að hún vildi upplifa hvernig það gerist, þannig að hún væri betur í stakk búin að ráðleggja sínum viðskiptavinum í þessu efni. „Ef þú prófar það ekki sjálf, hvernig áttu þá að geta ráðlagt öðrum?“ segir hún.

Byrja á hárskugga

Ráð Elsu eru einföld. Hún telur einfaldast að byrja á því að nota WOW hárskuggann til að sjá hvernig grái liturinn er. Hún segir að það sé ekki hægt að sjá gráa litinn vel með því að skoða eingöngu rótina sem er kannski 1 sentimetri. Gráa hárið þurfi að verða ca. 4 sentimetrar til að unnt sé að sjá litinn. Á meðan það er að vaxa er hárskugginn notaður í þeim lit sem manneskjan hefur verið með. Hann er einfaldur í notkun og fer ekki úr þótt menn svitni í ræktinni eða fari með hárið í vatn. Hann þvæst bara úr með sjampói og það er hægt að fá hann í sjö litum. Rauðu, svörtu, dökkbrúnu, millibrúnu, ljósbrúnu, ljósu og silfurhvítu. Sjá grein un notkun hárskugga hér.

Elsa Haraldsdóttir

Elsa Haraldsdóttir

Strípur til að jafna litinn

Elsa ráðleggur fólki að tala við sinn hárgreiðslumeistara og fá jafnvel álit fleiri en eins, ef menn eru að hugsa um að láta gráa hárið vaxa. Og það er að ýmsu að hyggja. Það þarf að skoða hvaða gráa lit menn eru með. Eru þeir með ljósgráan lit eða steingráan, eða pipar og salt? Það skiptir líka máli hversu stór hluti af hárinu er orðinn grár. Sé hárið til dæmis ljósgrátt á kollinum en brúnt að aftan, er hægt að nota tvo liti af strípum á meðan beðið er eftir að verða alveg gráhærður. Setja ljósgráar strípur í það sem er brúnt, en brúnar í það sem er ljósgrátt. Þannig jafnast liturinn út.

Hárið stór hluti af útlitinu

Það er margt sem þarf að huga að þegar hárið fer að grána, til dæmis hvaða hárlínu menn vilja hafa og hvað klippingu. Förðun skiptir líka máli. Elsa segir að margir geri sér ekki grein fyrir hvað hárið er stór hluti af útlitinu. Menn þurfi að athuga hvort hárið sé til dæmis í samræmi við stílinn og litina sem þeir klæðist. Það sé samt ekki hægt að slá því föstu fyrirfram að gráhærð kona eigi til dæmis ekki að vera í hvítu. Það geti farið ákveðinni manneskju vel, en ekki annarri sem hefur allt annan litarhátt.

Aðrir litir og skartgripir

Margir fari út í að nota meiri liti með aldrinum. „Fólk fer sjálfkrafa í liti“, segir Elsa „með meiri þroska fer fólk ekki endilega í svart, bara vegna þess að svartur litur er í tísku“. Hún segir flott að nota liti og áberandi skartgripi með gráa hárinu og segist sjá meira af gráhærðum konum til dæmis í París og öðrum stórborgum en hér. Það hafi líka komist í tísku hjá ungu fólki að lita hárið grátt.

Djúpnæring nauðsyn

En Elsa segir það nauðsynlegt fyrir alla hvort sem þeir eru brúnhærðir eða gráhærðir að nota djúpnæringu í hárið, þannig að það haldist heilbrigt, glansi og liggi fallega. Sjálf er hún orðin gráhærð og segist nota WOW hárskuggann ef hún vilji breyta til eða bara fríska uppá hárið. Hún leiki sér með hann eins og farða.

 

 

Ritstjórn september 18, 2015 12:13