Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi
Ég tók bílpróf á afmælisdaginn minn þegar ég varð 17 ára. Ökukennarinn nennti ekki að fara út úr bílnum til þess að kenna mér að skipta um dekk. Þú ferð bara út í vegkannt og lyftir pilsfaldinum var ráð hans. Þetta var ekki gott ráð í „den“ af ýmsum ástæðum. Á mínum ökumannsferli hef ég tvisvar lent í því að skipta um dekk. Í fyrra skiptið var ég að koma frá Húsavík, komin rúma sjö mánuði á leið. Ég ákvað að skella mér upp hlykkjóttan Vaðlaheiðarveginn þó að hann væri sagður lokaður. Uppi á háheiðinni hvellsprakk. Heiðin lokuð og enginn sími. Það er ótrúlegt hvað maður getur þegar maður verður. Hitt skiptið var bíllinn í brattri brekku og byrjaði að hallast ískyggilega þegar ég fór að tékka hann upp. Ég hljóp fram fyrir húddið og spyrnti á móti. Þannig var ég þar til góðhjartaður vegfarandi kom mér til hjálpar. Mér fannst ég óttalegur aumingi.
Ég veit ekki hvort ökukennarar kenna nemendum lengur að skipta um dekk, enda kannski orðið óþarft. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að það sé varadekk í bílnum. Við keyptum okkur bíl fyrir tveimur árum. Eftir nokkurn tíma uppgötvuðum við að það var ekkert varadekk í honum, enginn tékkur né annað sem til þarf. Við fórum í umboðið og þar sýndi ungur maður okkur spreybrúsa vandlega falinn í skottinu. Hann áttum við að nota í neyðinni ef springur. Þá vissum við það.
Um helgina sátum við í sólinni á veitingastað við veginn. Við heyrðum hvell og splunkunýr lúxusbíll var stöðvaður beint fyrir framan okkur. Út kom eldri herra og fær staðfestan grun sinn. Það var hvellsprungið eftir að hafa ekið yfir egghvasst járn. Hann fór beint í skottið enda vanur maður. Viti menn – ekkert varadekk! Minn sambýlismaður með nýfengja vitneskju um neyðarspreyið fór á vettvang og miðlaði þeim upplýsinum að það hlyti að vera kvoða í bílnum sem ætti að sprauta inn í dekkið. Þykk handbók var dregin fram og upphófst leit að töfraspreyinu. Það var í húddinu á þessum bíl. Í handbókinni var sagt að spreyið gagnaðist ef gatið væri minna en 4 sentimetrar. Eigandanum taldi að sprungan væri minnst 6 sentimetrar og spreyið því gagnslaust. Við drukkum kaffið okkar og kvöddum. Þá var bíleigandinn að leita að símanúmerinu hjá umboðinu. Ekki veit ég hvenær hann komst í bæinn.
Nokkrum dögum síðar heyrði ég í sjónvarpsfréttunum viðtal við verkstæðiseiganda fyrir austan sem sagðist hafa fullt að gera við að fara um svæðið til þess að bjarga bíleigendum sem væru ekki með varadekk. Ef við hefðum ekki vitað betur hefðum við hneykslast á þessum bíleigendum á vanbúnum bílum á ferð um landið. Þessi nýja lausn á sennilega að vera framfaraskref enda óneitanlega meira pláss fyrir farangur í skottinu. En ekki vildi ég vera upp á öræfum með töfraspreyið eitt til þess að bjarga málunum. Það gæti orðið drjúg ganga til byggða.