Guðrún Guðlaugsdóttir hefur gefið út níundu sakamálasöguna um Ölmu Jónsdóttur blaðamann. Hún heitir Mannsmyndin.
Alma er nú farin að spreyta sig á að gera hlaðvarp og fyrsta verkefni hennar á því sviði er viðtal við Hauk Smárason. Hann er efnaður maður sem er kominn á hjúkrunarheimili. Hann sér meira en aðrir og nú óttast hann að setið sé um líf hans. Hann hefur séð skugga af manneskju bregða fyrir utan við gluggann á herberginu á hjúkrunarheimilinu.
Dulrænar sýnir hans vekja óhug og einnig bernskuár hans og fortíð þar sem undarleg dauðsföll koma við sögu. Ekki er allt sem sýnist. Þetta verkefni er Ölmu erfitt og hún þarf á öllu sínu að halda til að leysa úr þeim spurningum sem viðtalið við Hauk vekur. Hvað er ímyndun hans og hvað er raunveruleiki? Sér hann fyrir óorðna hluti? – Inní söguna fléttast svo erfða- og fjölskyldumál.
Guðrún segist vera að skoða sektarkenndina og einmanaleikann í bókinni og hvað hann gerir fólki. „Hvernig mótast sjálfsmynd fólks og hvaða áhrif hafa félagslegar aðstæður á mótun hennar, hvernig lífi það lifir og hvernig ákvarðanir það tekur? Það er mikið verið að ræða sjálfsmynd fólks núna og þrátt fyrir stríð og hörmungar í heiminum er Íslendingum sjálfsmyndin efst í huga. Það eru endalaus viðtöl við fólk sem er að reyna að brjótast út úr aðstæðum sínum og öðlast betri sjálfsmynd, en er það hægt? Hvaða áhrif hefur uppeldið og hvað er meðfætt?”
Við grípum niður í fyrsta kafla bókarinnar. Alma er í heimsókn hjá Hauki á hjúkrunarheimilinu og spyr hann af hverju hann haldi að einhver sé að ofsækja hann.
„Af því að ég sé öðru hverju þessa dökku mannsmynd. Nú er hún komin á heilann á mér – fylgir mér í vöku sem svefni. Ýmsir vilja losna við mig. Líf mitt hefur ekki alltaf verið einfalt.“
„Hvernig er svo þessi mannsmynd sem þú sérð? Karl eða kona?“
„Það er ekkert andlit og útlínur óljósar“.
„Það er nú talsverður munur á körlum og konum – allavega í útliti.“ Sagði Alma og heyrði sjálf að rödd hennar hljómaði þurrlega.
„Það er einhver á eftir mér. Mér kemur í huga ákveðin kona. Henni fannst alltaf að hún ætti harma að hefna. En hvað veit ég, ef ég sé ekki svipmótið? Mér finnst stundum að þessi mannsmynd voki yfir mér á næturnar. Læðist um. Mig grunar að hún vilji ganga frá mér. Þessi sýn er ólík öllu sem ég hef séð um dagana – raunverulegri.“ Gamli maðurinn horfði á Ölmu dapur á svip.
„Kona? Hvaða kona ætti að vilja ganga frá þér?“ Alma varð áhugasöm.
„Kona sem fyrir eina tíð var mér reið.“
„Var hún falleg?“ sagði Alma.
„Fegurð er teygjanlegt hugtak. Tölum ekki meira um þetta. – Hitt er annað að það vofir yfir mér hætta, ég finn það svo greinilega.“ Innfallið andlitið varð enn fölara. Augun hvörfluðu til og frá um herbergið og svo aftur að glugganum.
„Heyrðu Haukur, nú held ég að þú látir ímyndunaraflið hlaupa með þig í gönur. Mér virðist allt hér á þessari stofnun mjög öruggt og vel frá öllu gengið. Svo er manneskja hérna frammi allan sólarhringinn sem fylgist með,“ sagði Alma.
„Það er ekki allt sem sýnist. Þú segir ekki gömlum leikara og fjárfesti annað. Og ekki var það betra í pólitíkinni. Alltaf öruggara að líta í kringum sig. Vittu til – Einn daginn kemur mannskapurinn hér að mér dauðum. Ég á innra með mér skýra sýn – hvernig ég ligg náhvítur með krosslagða arma í rúminu“.
Ölmu gengur ekki sérlega vel að fá Hauk til að tala, enda er hann orðinn líkamlega veikburða.
Það sækja að mér ljótar hugsanir. Við slíku eru ekki til nein lyf. Svo margt hefur gerst í lífi mínu sem angrar mig. Ekki bara frá starfsævinni heldur líka æskunni. Ef þú bara vissir hvernig það allt var,“ sagði Haukur þegar Alma hafði breitt yfir hann mjúkt og loðfóðrað teppi og hagrætt koddanum undir höfði hans.
„Viltu kannski núna rifja upp eitthvað frá æskudögunum?“ sagði Alma vongóð og færði upptökutækið af borðinu og yfir á náttborðið við hliðina á rúminu. Á því stóð einmanalegt vatnsglas og annað ekki.
„Hvar á ég að byrja og hvar á ég að enda?“ svaraði maðurinn og lokaði augunum.
„Þú varst kominn þangað sem þú gerðir þér grein fyrir að þú sæir sýnir og að það myndi kannski hafa hjálpað þér, fyrst í leiklistinni og síðan í pólitíkinni og viðskiptunum. Hvað varstu gamall þegar þú fórst að sjá eitthvað fleira en aðrir?“ sagði Alma.
„Það er engum til góðs að sjá það sem aðrir ekki sjá. Þessi hæfileiki er að mestu farinn frá mér – nema núna þetta með mannsmyndina. Ég veit ekki hvað þar er á ferð – sé bara útlínur. Þetta er öðruvísi – raunverulegra“.