Þægileg kúnstpása

Kúnstpása er notaleg afþreyingarbók þar sem ástin er í aðalhlutverki. Sóley er hljómsveitarstjóri og fiðleikari. Covid-faraldurinn kemur í veg fyrir að hún geti sinnt og byggt upp starfsferil sinn svo hún flysst frá Leipzig í Þýskalandi til smábæjar á Íslandi. Þar tekur hún að sér að selja lagerinn úr bókabúð afa síns sem er nýlátinn.

Flestir lesendur tengja örugglega bæinn við Siglufjörð en í það minnsta eiga bær Sóleyjar og sá merki staður margt sameiginlegt. Við ferðumst einnig aftur í tímann og kynnumst langömmu Sóleyjar, konu sem missti mann sinn, stóru ástina sína, áður en líf þeirra saman hafði hafist. Hún verður að gera það besta úr aðstæðum og skapa sér og syni sínum gott líf. Það er ekki alltaf auðvelt á fyrri hluta síðustu aldar.

Sóley er hins vegar nútímakona og ætlar sér stóra hluti. En stundum breytist verðmætamatið og kúnstpása Sóleyjar á hugsanlega eftir að leiða til margs annars en hún ætlaði sér í fyrstu. Hún kynnist Óskari, leiðsögumanni, kvenréttindakonum bæjarins og ekki síst langömmu sinni og hennar verkum.

Kúnstpása er fyrsta skáldsaga Sæunnar Gísladóttur og þetta er þægileg saga aflestrar sem rennur vel og skilur lesandann eftir með notalega tilfinningu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.