Þær völdu Ísland í þetta sinn

 

Þvottur á snúru á slóðum Kjarvals.

Fjórar vinkonur ákváðu árið 2005 að hefja sameiginlega söfnun og leggja mánaðarlega inn á sérstakan reikning sem varð að sjóði sem þær kalla „pungen“ (dönskusletta). Þetta eru þær Edda V. Sigurðardóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Margrét Sólmundsdóttir og Ingunn Stefánsdóttir. Þegar nóg hefur safnast í pungen leggja þær land undir fót. Þetta hafa þær gert reglulega en aldrei fyrr en nægileg upphæð hefur safnast þannig að þær geti farið með góðri samvisku. „Þá finnst okkur við alltaf vera að ferðast frítt,“ segir Edda og hlær því sannleikurinn er sá að þótt upphæðin sé ekki há safnast þegar saman kemur og þær finna varla fyrir því á buddunni.

Ísland bindur þær saman

Austfjarðartindar

Edda er nú búsett í Bandaríkjunum en hinar á Íslandi. Edda hefur búið ýmist á Íslandi eða Bandaríkjunum um ævina en er nú komin þangað aftur eftir 10 ára dvöl á Íslandi. Hópurinn sem kallar sig „Systurnar“ hefur ferðast saman víða erlendis en núna ákváðu þær að Ísland skyldi kannað. Þær vissu auðvitað að hér á landi fyndu þær stórkostlega náttúru en þær einsettu sér að ferðast til staða sem þær hefðu ekki komið á áður. Það eru svo óteljandi áhugaverðir staðir á Íslandi sem vert er að heimsækja og ævin endist ekki til að sjá þá.

Austurland og Norðurland

Vinkonurnar ákváðu að verja tímanum á austur– og norðurlandi í þetta sinn enda viturlegt að ætla sér ekki um of heldur njóta færri staða. Þær flugu til Egilsstaða, tóku þar bílaleigubíl og var þá ferðinni heitið frá Egilsstöðum til Akureyrar. Þær nutu þess ríkulega að skoða nærsvæði við Egilsstaði þar sem þær gistu í tvær nætur. Þær óku á Reyðarfjörð og þaðan í gegnum göngin til Fáskrúðsfjarðar þar sem Franski spítalinn var skoðaður – merkilegt safn og saga. “Heimsóttum einnig Óbyggðasetur Íslands, sem er staðsett á innsta bænum í Fljótsdal, á brún stærstu óbyggða Norður Evrópu. Við mælum eindregið með heimsókn á Óbyggðasetrið sökum þess hve þar er allt vel gert og áhugavert að skoða”.

Borgarfjörður eystri – falinn fjársjóður

Á afleggjaranum til Loðmundarfjarðar frá Bakkagerði.

“Á öðrum degi var haldið til Borgarfjarðar eystri. Leiðin þangað var svo stórkostleg að við stóðum næstum á öndinni“ segir Edda. “Og þarna voru þá Dyrfjöllin hans Kjarvals í öllum sínum formum og litum. Aðeins ein okkar hafði komið þangað áður. Borgarfjörður eystri er eins og ótal aðrir staðir á Íslandi sem hafa notið mikillar uppbyggingar til að mæta fjölgandi ferðmamönnum á síðustu árum. Þarna hafast ekki nema 70 manns við yfir vetrartímann þannig að í bæjarfélaginu hefur skapast merkilegt samfélag. Kvótinn hefur ekki verið seldur í burtu svo fólkið á sér von um að staðurinn haldast í byggð. Þarna sáum við stærri lundabyggð en nokkurs staðar annars staðar – gátum næstum klappað fuglinum.

Álfarnir fyrirferðarmiklir

Í Bakkagerði eru álfasögurnar í hávegum hafðar og gefur hugmyndafluginu byr undir báða vængi sem sjá má víða um bæinn. Ekið var afleggjarann í áttina að Loðmundarfirði í dásamlegu veðri. Landslagið var stórbrotið og ekki skemmdi veðurblíðan, því vikuna áður hafði þar verið bæði kalt og blautt.

Haldið norður um

Grjótmyndanir við Dettifoss.

Frá Borgarfirði eystri héldu „Systurnar“ á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs að Dettifossi sem er mikið náttúruvætti og eitt helsta aðdráttarafl bæði hérlendra og erlendra ferðamanna. Þaðan óku þær inn í Vesturdal sem var sem vin í eyðimörkinni. Þær gengu að Hljóðaklettum og undruðust þessar mikilúðlegu stuðlabergsmyndanir klettanna og náttúrulegar myndir í steinunum. Næst óku þær í Ásbyrgi. „Í gönguferð okkar um Ásbyrgi sáum við skilti með fróðlegum upplýsingum um allt sem fyrir augu bar og það gerði gönguferðina enn áhrifameiri. Þar sáum við berum augum afrakstur gífurlegrar vinnu sem lagt hefur verið í til að gera upplifun ferðamanna sem áhrifamesta.“

 

Húsavík

Aðgengið í sjóböðin á Húsavík.

Nú lá leiðin til Húsavíkur þar sem sjóbaðanna var notið. “Þessi framkvæmd er ofsalega vel heppnuð og öll þjónusta til fyrirmyndar,” segir Edda og mælir með að fólk leggi leið sína á þessar slóðir. En áður en þær yfirgáfu Húsavík báðu þær heimamann að benda þeim á fiskbúð í bænum því á Akureyri voru þær búnar að leigja íbúð í tvær nætur. Þær ákváðu því að kaupa ferskan fisk til að elda þegar þangað var komið. Þeim var bent á hús þar sem var pínulítið skilti sem á stóð litlum stöfum “Fiskbúð Húsavíkur”. Þær gengu inn í risastóran sal sem var eins og frystihús og þar tók á móti þeim ung, snaggaraleg stúlka í vöðlum sem taldi upp margar fisktegundir og allur fiskurinn spriklandi nýr. “Við keyptum hlýra til að elda um kvöldið og ægilega góðan harðfisk,” segir Edda og minningin var greinilega ljúf.

Akureyri

Næst var ferðinni heitið til Akureyrar þaðan sem þær höfðu ákveðið að fljúga heim. Þær elduðu meistaralegan kvöldverð og fóru svo á Græna hattinn og hlustuðu á skemmtilega tónlist. “Hlýrinn var borðaður í tvö kvöld – hann var gómsætur og við höfðum keypt nóg. Þar sem þeim fannst þær vera að spara rosalega með því að elda heima, splæstu þær á sig kokteil á KEA sem kostaði skildinginn. En þar sem þær voru að ferðast “frítt” létu þær sig hafa það. Þær vörðu síðan heimferðardeginum í að fara á listasöfn á Akureyri og nutu að síðustu sundlaugaheimsóknar áður en þær brunuðu út á flugvöll og héldu til Reykjavíkur. Þetta ferðalag á Íslandi reyndist verða óborganlega skemmtilegt og vel heppnað, ekki síður en ferðalögin sem þær höfðu farið í áður til annarra landa.

 

 

 

 

 

Ritstjórn ágúst 23, 2019 07:32