Þakið rúmar 47.000 krónur fyrir eldri borgara

Þeir sem eru 67 ára og eldri greiða að hámarki rúmlega 47.300 krónur á ári fyrir heilbrigðisþjónustu, á meðan þakið fyrir almenna notendur er  rúmlega 71.000 krónur á ári. Þannig greiða þeir sem komnir eru á eftirlaunaaldur  66,5% þeirrar upphæðar sem vinnandi fólk þarf að borga. Þessar hámarksgreiðslur voru ákveðnar af heilbrigðisráðuneytinu og tóku gildi 1.maí 2017.

Stefán Ólafsson

„Við hjónin njótum margs góðs af breytingunni, fáum til dæmis mun fleiri tíma í sjúkraþjálfun en áður og greiðum eina lágmarksgreiðslu í hverjum mánuði“, segir Stefán Ólafsson sem er kominn á eftirlaun, en hann og eiginkona hans Bára Björk Lárusdóttir hafa þurft að nota heilbrigðiskerfið töluvert. „Þá gildir einu hvort við fáum tíma hjá heimilislækni, sérfræðilækni, röntgen, skönnun eða annarri myndatöku eða förum í sjúkraþjálfun. Er búinn að nota þetta allt saman. Áður þurfti að sæta lagi að komast í kostnaðarsama heilbrigðisþjónustu snemma árs, til þess að fá afslátt það sem eftir lifði ársins“, segir hann.

Síðast liðið vor tóku Sjúkratryggingar saman skýrslu að beiðni heilbrigðisráðherra til að meta árangurinn af breytingunum á greiðsluþáttökukerfinu. Þar kom fram að frá því nýja kerfið tók gildi, hafði enginn greitt meira en um 71.000 krónur á 12 mánuðum, fyrir heilbrigðisþjónustu sem fellur undir kerfið, en í gamla kerfinu, voru þess dæmi að sjúklingar höfðu þurft að greiða rúmlega 400.000 krónur á ári fyrir heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisráðherra sagði nýja kerfið hafa reynst sjúklingum vel og þjónað því mikilvæga markmiði að lækka verulega útgjöld þeirra veikustu sem þyrftu mest á heilbrigðisþjónustu að halda. Það hefði auk þess haft þau áhrif að efla hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu.

Heilbrigðisþjónusta sem fellur undir kerfið er þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa og sjálfstætt starfandi lækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og talmeinafræðinga samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Undir kerfið heyra líka rannsóknir, geisla- og myndgreiningar og meðferð húðsjúkdóma sem er veitt af öðrum en læknum.

Það er ljóst að kerfið kemur misjafnlega út fyrir mismunandi notendur, aðallega eftir því hversu mikið og oft þeir nota kerfið. Þá var það gagnrýnt  í fjölmiðlum að nýja greiðsluþáttökukerfið legðist þyngra á öryrkja og ellilífeyrisþega. En það er sum sé ekki reynsla Stefáns Ólafssonar. „Það er bara ekki rétt, það er beinlínis rangt hvað varðar eldri borgara. Ég var að enda við að greiða fyrir sjúkraþjálfun fyrir okkur hjónin og meira þurfum við ekki að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu þennan mánuðinn“.

Skoðaðu Upplýsingbanka Lifðu núna þar sem meðal annars er fjallað um heilbrigðiskerfið. Smelltu hér.

Ritstjórn september 16, 2018 18:23