Þegar allt er ákveðið fyrir þig

Lilja Sigurðardóttir er margverðlaunaður spennusagnahöfundur en að þessu sinni sameinar hún glæpasöguna vísindaskáldskap. Árið 2052 hefur loks tekist að skapa þokkalega sátt í íslensku samfélagi, enda hefur gervigreindin Alfa tekið að sér að taka stærstu ákvarðanirnar fyrir fólk, hugga það þegar því líður illa og koma með ráð þegar á þarf að halda. Örflaga er grædd í einstaklinginn þegar hann fermist sextán ára og honum jafnframt sagt hvaða nám og starfsferill á best við hann. Þar með ætti allt að renna fyrirstöðulaust í sínu farvegi eða hvað?

Sagan hefst á stórum degi hjá Júlíusi og fjölskyldu hans. Þennan dag fær hann að vita framtíð sína. Mæður hans, þær Sabína og Mekkín vilja honum allt hið besta en Mekkín er fullviss um að hans bíði mikilvægt hlutverk í tæknigeiranum. Sjálf er Mekkín meðal æðstu stjórnenda í ráðuneytinu þar sem unnið er að viðhaldi og uppfærslu Ölfu. En auðvitað eru alltaf einhverjir sem þurfa að beygja út af breiða veginum og vera öðruvísi. Einn í þeim hópi er Birkir, bróðir Sabínu en. Þegar hann drukknar í kjölfar þess að sjálfrennireið sem Sabína pantar handa honum keyrir út í sjó upphefst rannsókn á andláti hans. Þetta á ekki að vera hægt en sama kvöld tókst einhverjum að trufla akstur allra sjálfrennireiða þannig að þær stoppuðu í hvert sinn sem þær sáu gulan lit. Er sami aðili ábyrgur fyrir morðinu á Birki? Og hver breytti framtíðarplönum þeim sem ákveðnar höfðu verið fyrir Júlíus?

Lilja hefur gott lag á að skapa skemmtilegar og litríkar persónur og hún nær að ljá þeim dýpt sem gerir þessa sögu áhugaverða. Henni tekst ágætlega að byggja upp spennu og koma á ávart og þetta er fín glæpasaga og afbragðsafþreying.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.