Nýlega bárust fréttir af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings einkareknum fjölmiðlum á Íslandi. Margir hafa áhyggjur af stöðunni og þeim áhrifum sem það kann að hafa á lýðræðislega umræðu í landinu ef þeim fækkar. Þróunin er ekki bundin við Ísland því ritstýrðir milðar eiga undir högg að sækja víða. Þetta skýtur nokkuð skökku við því ekki er langt síðan að blaðamennska var eftirsótt starf. Til að mynd birtist árið 1962 í tímaritinu Fálkanum opnugrein þar sem kynntar voru þær átta blaðakonur sem þá voru starfandi á Íslandi en samkvæmt greininn var blaðakonustarfið annað tveggja draumastarfa ungra stúlkna á þessum tíma. Konum hefur fjölgað töluvert í þessari starfsgrein síðan og konur gegna í æ ríkari mæli stöðum ritstjóra og fréttastjóra.

Margrét Indriðadóttir
Tilefni greinarinnar í Fálkanum var að blaðamaðurinn hafði nýlega hitt litla stelpu sem hafði sagt honum að loksins væri hún búin að ákveða hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór. „Ég ætla annaðhvort að verða flugfreyja eða blaðakona,“ sagði stelpan. Þetta varð til þess að blaðamaðurinn fór að athuga hversu margar konur væru starfandi í stéttinni um þær mundir. Sumar þessara kvenna ílengdust í blaðamannstétt og voru allan sinn starfsferil starfandi blaða- eða fréttamenn.

Margrét Jóhanna Heinreksdóttir
Þær átta sem þarna voru nefndar voru þær: Margrét Indriðadóttir, Kristín Halldórsdóttir, Hólmfríður Kolbrún Gunnarsdóttir, Halldóra Gunnarsdóttir, Elín Pálmadóttir, Sólrún Jensdóttir, Margrét (Bjarnason) Heinreksdóttir og Fríða Björnsdóttir.
Margrét Indriðadóttir var þá fréttamaður á útvarpinu. Hún varð seinna fréttastjóri útvarps og gengdi þeirri stöðu í mörg ár áður en hún fór á eftirlaun. Kristín Halldórsdóttir hafði þá starfað á Tímanum í aðeins fjóra mánuði en hún starfaði lengi sem blaðamaður. Á níunda áratug síðustu aldar sneri hún sér að stjórnmálum og var kosin á þing fyrir kvennalistann.
Fékk alltaf sömu laun og strákarnir

Hólmfríður Kolbrún Gunnarsdóttir
Hólmfríður Kolbrún Gunnarsdóttir sem hafði verið í rúm þrjú ár blaðamaður á Alþýðublaðinu þegar viðtalið var tekið. Hún sneri sér síðar heilbrigðismálum og hefur gert margar merkar rannsóknir á áhrifum vinnu og vinnuumhverfis á heilsuna. Doktorsritgerð Hólmfríðar fjallaði um dánar- og krabbameinstíðni í starfs- og þjóðfélagshópum á Íslandi. Halldóra Gunnarsdóttir hafði unnið tvö og hálft ár á Morgunblaðinu. Hún var einkaritari ritstjóranna, þýddi greinar og tók viðtöl. Halldóra býr um þessar mundir í Svíþjóð.

Elín Pálmadóttir
Elín Pálmadóttir hafði verið fjögur ár á Morgunblaðinu þegar þetta var en Elín var blaðamaður allan sinn starfsferil. Sólrún Jensdóttir og Margrét Heinreksdóttir unnu líka á Morgunblaðinu. Margrét sneri sér síðar að lögfræði en hefur undanfarin ár staðið framarlega í mannréttindabaráttu og er framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands en Sólrún er skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu. Fríða Björnsdóttir hafði þá aðeins starfað eina viku á Tímanum en áður sumarlangt á Fréttastofu útvarps. Fríða starfaði lengi hjá Fróða og skrifaði fyrir mörg tímarita útgáfunnar meðal annars Hús og híbýli og Vikuna. Hún starfaði einnig samhliða blaðamennskunni hjá Blaðamannafélagi Íslands í meira en tvo áratugi.
Kristín Halldórsdóttir vann einnig lengi á Vikunni og Elín Pálmadóttir hóf blaðamannsferilinn á því tímariti. Árið 2003 komu út æviminningar Elínar, Eins og ég man það, en þar segir hún frá fyrstu árum sínum í starfi fyrst á Vikunni hjá Gísla J. Ástþórssyni en síðar á Morgunblaðinu.

Sólrún Jensdóttir
„Framkvæmdastjórinn Sigfús Jónsson var kallaður til. Hann spurði hvað ég hefði í kaup og hvort ég væri sátt við að byrja með það sama. Tveimur til þremur mánuðum síðar mætti Sigfús mér seint um kvöld á spretti niðri í prentsmiðju. „Elín, þér eruð á lægri launum en sumir fréttamannanna, en mér sýnist þér ekki vinna minna en þeir. Þér hækkið um næstu mánaðamót,“ sagði Sigfús.“ (Eins og ég man það bls. 149)
Sigfús sá síðan til þess, meðan hans naut við, að Elín fengi sömu kjör og karlmennirnir án þess að hún þyrfti nokkurn tímann um það að tala. Það væri óskandi að algengara væri að yfirmenn fyrirtækja hugsuðu eins og Sigfús því fjörutíu og einu ári síðar eru konur enn með 14% lægri laun að meðaltali en karlar. Þrátt fyrir það eru þær einnig fyrstar til að fá reisupassann þegar harðnar á dalnum hjá fyrirtækjunum.

Kristín Halldórsdóttir
Gekk í sömu verk og karlmennirnir
Elín lagði einnig mikið upp úr því að hún gengi í sömu verk og karlmennirnir og það markaði tímamót hvað snerti konur í stétt atvinnufréttamanna, enda þakkar Dr. Sigrún Stefánsdóttir henni það að þegar hún hóf störf hjá Morgunblaðinu, áratug síðar, þótti sjálfsagt að konur skrifuðu innlendar fréttir af öllu tagi. Elín var brautryðjandi í skrifum um sjávarútvegs- og umhverfismál en áhugi hennar á fjalla- og jöklaferðum varð til þess að hún skrifaði heilmargt um þessi mál sem varla hafði verið tæpt á í íslenskum blöðum áður.
Hún kynntist einnig mörgum fréttariturum Morgunblaðsins sem þá voru starfandi víðs vegar um landið og minnist kjarnakonunnar Regínu Thorarensen sem sendi kjarnyrtar fréttir af Ströndum með frásagnarhætti sem lesendur Morgunblaðsins höfðu mjög gaman af. Regína fluttist seinna á Selfoss og hóf þá fréttaritarastarfið að nýju. Hún vann þá fyrir útvarpið og margir muna pistlana hennar ekki bara vegna þess hve skorinorðir þeir voru heldur líka vegna raddbeitingarinnar sem var einstök.
Árum saman skrifaði Elín pistla í Morgunblaðið undir yfirskriftinni Gárur. Pistlarnir voru ótrúlega vinsælir og margir söknuðu þeirra eftir að þeir hættu að birtast. Upphaflega áttu pistlarnir að lífga upp á blaðið og föstu blaðamennirnir á Mogganum að skrifa hver sinn dálk. Fram að því hafði það lítið verið tíðkað að blanda skoðunum og persónu blaðamannsins í skrif hans.

Halldóra Gunnarsdóttir
Ekki lengur draumastarfið
Í einni útlitsbreytingu á Morgunblaðinu var ákveðið að fella mynd af blaðamönnunum inn í þessa dálka en Elín var ekki á því að birta mynd af sjálfri sér. „Hafði þá bjargföstu skoðun að blaðamaðurinn ætti ekki að vera aðalatriðið í greinum, hvorki í höfundarmerkingum né með mynd. Þess vegna hafði ég þá lífsreglu að birta ekki í greinum myndir af sjálfri mér.“ (Eins og ég man það bls. 289)
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og núorðið þykir sjálfsagt og jafnvel nauðsynlegt að blaðamenn merki greinar sínar. Það verður sömuleiðis sífellt algengara erlendis að greinar blaðamanna byggi á þeirra eigin lífi og reynslu en sá siður hefur enn ekki náð fótfestu að neinu marki hér á landi. Þess er þó æ oftar krafist að blaðamenn segi skoðanir sínar. Þeir skrifa bókmennta- og leikhúsgagnrýni, rýna í dagskrá annarra fjölmiðla og senda ráðamönnum tóninn ef þörf er talin á að veita aðhald.

Fríða Björnsdóttir
En skyldu blaðamanns- og flugfreyjustarfið enn vera draumastörf íslenskra smástelpna? Ef marka má svör nokkurra stelpna á aldrinum sex til tólf ára sem Lifðu núna tók tali þá er það ekki svo. Lögfræðingur er einna vinsælasta starfsgreinin en auk þess vildu allmargar verða annaðhvort læknir eða söngkona. Þrjár tiltóku meira að segja að þær vildu verða Idol-söngkonur. Ein nefndi að hún væri alveg tilbúin að starfa sem flugfreyja eða flugmaður og sú hin sama vildi líka gjarnan vinna við eitthvað sem tengdist því að hugsa um dýr. Hún vildi samt hvorki verða dýralæknir né bóndi, gæslumaður í dýragarði var mun meira spennandi.
Engin stúlknanna hafði neinn sérstakan áhuga á blaðamennsku en nokkrar sögðust geta hugsað sér að vinna í sjónvarpi. Árið 1962 freistuðu flugfreyjustarfið og blaðamannsstarfið vegna þess að margir töldu að þeim fylgdu ferðalög og ævintýri. Það er ekki að heyra að slíkt skipti máli við starfsval stelpna í dag. Þær voru allar á því að þær gætu bara ferðast sjálfar þegar þær vildu og engin nauðsyn væri að starfið byði upp á slíkt. Ævintýrin ætla þær að skapa sjálfar, starfið er enn sem komið er aukaatriði í þeirra huga. Það hvernig þær ná að verja frítímanum er meira um vert.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







