Brynhildur Guðjónsdóttir er einkabarn foreldra sinna sem bæði eru hætt að vinna en þau eru fædd ´45 og ´48, hann eldri. Hún segist gera sér fulla grein fyrir því hversu heppin hún sé að þau skuli enn vera heilsuhraust, virk og áhugasöm um lífið og tilveruna. “Pabbi er menntaður kennari og mamma fóstra og þau koma því bæði úr þeim ranni þar sem samskipti skipta miklu máli,” segir Brynhildur. “Mamma kemur úr stórum systkinahópi í Hafnarfirði en pabbi og bróðir hans voru bara tveir. Í fjölskyldum beggja var mikil samheldni og miklar hefðir viðhafðar. Mamma og pabbi giftu sig mjög ung og ég var einkabarn og fylgdi þeim allt sem þau fóru. Þau hafa alltaf unnið geysilega mikið og ég minnist þess að hafa verið lyklabarn snemma,” segir Brynhildur og hlær. Hún segir að foreldrar hennar hafi flakkað töluvert til að sækja sér meiri menntun, bjuggu til dæmis í eitt ár í Svíþjóð þegar hún var sjö ára. “Mamma og pabbi voru alltaf virk í félagsstörfum af ýmsum toga og sem dæmi var pabbi í alþjóðlegum félagsskap sem kallast Round table. Á vegum þess félagsskapar ferðuðust þau gífurlega mikið og hingað komu auk þess erlendir félagar í heimsókn.”
Breyttu til á miðjum aldri
“Það kom að því að mamma og pabbi ákváðu að venda sínu kvæði í kross á miðjum aldri, pabbi fór í Orkugeirann og mamma ákvað að taka við verslun föður síns, Liverpool við Laugaveg. Þau höfðu alltaf unnið mikið en þarna varð vinnuálagið á þeim enn meira. Frá tíu ára aldri var ég í sveit öll sumur þar sem ég undi mér mjög vel svo allt gekk þetta vel þrátt fyrir mikla vinnu þeirra.
Maður verður að bjarga sér sjálfur
“Mamma og pabbi báru gæfu til þess að átta sig á því snemma að maður verður að gera hlutina fyrir sig sjálfur. Þau eru svo heppin að hafa orðið það ljóst ung hvað heilsan skiptir miklu máli og nú eru þau að uppskera vel að hafa ræktað hana. Þau hafa alltaf hreyft sig mikið og gert það í félagsskap. Mamma með vinkonum sínum í gönguhópi og pabbi með körlum sem hittast í lauginni og spjalla, kallast pottverjar. Svo eru þau alltaf að gera eitthvað aukalega. Sem dæmi fór pabbi beint í leiðsögumannaskólann þegar hann fór á eftirlaun. Hann er í endalausum nefndarstörfum, þau eru virk í húsfélögum þar sem þau hafa búið o.s.frv. Mamma og pabbi eru harðdugleg og ósérhlífin bæði tvö og hafa allt sitt líf verið að gera margt í þágu annarra en hafa uppskorið fyrir sig sjálf um leið.”
Eru dugleg að finna viðburði
Brynhildur segir ómetanlegt að fylgjast með foreldrum sínum verja deginum á ótrúlega viðburðaríkan hátt. Þau fylgjast vel með öllum þeim óendanlega mörgu viðburðum sem eru í boði um allan bæ. “Það er ekki eins og þessir viðburðir kosti neitt því þeir eru njótendum oftar en ekki að kostnaðarlausu. Mamma og pabbi hafa það ágætt fjárhagsleg en þau þurfa að hugsa um í hvað þau verja peningunum sínum. Þau eru því löngu búin að finna út hvernig þau geta notið lífsins ríkulega með því að nýta það sem í boði er. Þetta er alls konar fræðsla og listviðburðir sem eru í boði, maður verður bara að sækja sér það sjálfur. Fólk hefur val og getur til dæmis valið að loka sig af og kvarta. Þau velja að gera það ekki og uppskera nú hvernig þau hafa valið í gengum tíðina.
Urðum fljótt samferðafólk
Brynhildur hefur ferðast mikið með foreldrum sínum, bæði sem barn og fullroðin. Þau voru dugleg að heimsækja hana þar sem hún var við nám, bæði í Frakklandi og Bandaríkjunum og lengst af í Bretlandi. Þau eru samheldin fjölskylda en Brynhildur segir að foreldrar hennar hafi fullan skilning á því að hún lifi sínu lífi og haldi sínar eigin hefðir. “Við berum öll foreldrana inni í lífi okkar á einn eða annan hátt, en það er ekki hægt að ætlast til þess að við lifum þeirra lífi. Við eigum ekki börnin okkar heldur erum við bara með þau í láni í ákveðinn tíma og svo verða þau ferðafélagar okkar. Ég og þau urðum mjög fljótt samferðafólk. Og af því að ég er einbirni þurfti ég mjög fljótt að hafa ofan af fyrir mér þegar þau voru í vinnu. Ég var sífellt að búa til og skapa og það kom fljótt í ljós að ég ætlaði einhverjar ákveðnar leiðir. Þau hafa leiðbeint mér í lífinu en ég geri ekki eins og þau. Það kom til dæmis aldrei til greina að ég færi í verslun og viðskipti og tæki við Liverpool.
Stoppuðu mig einu sinni af
Ég var bara unglingur þegar ég gaf út þá yfirlýsingu að ég ætlaði ekki að vinna í búðinni næsta sumar heldur væri ég búin að fá mér vinnu á kaffihúsi neðar í götunni. Við höfum síðan verið samferðafólk og að einhverju leyti leiðbeinendur hvers annars og þess vegna er sambandi okkar svona gott. Ég hef alltaf sagt þeim hvað ég væri að fara að gera. Þegar ég var 16 ára sagði ég þeim að ég ætlaði að fara í málaskóla í Frakklandi og þannig hefur það verið. Ég hef m.ö.o. alltaf vitað hvað ég vildi og hvert ég ætlaði og hef fengið að gera það afskiptalítið en í eitt skipti stoppuðu þau mig af. Það var þegar ég ætlaði að fara til Bandaríkjanna í nám áður en ég varð stúdent. Þá sögðu þau “nei, þú klárar stúdentinn” og ég er þeim mjög þakklát fyrir það núna. Ég kláraði háskólann og sagði þeim svo að ég væri að fara í leiklistarskóla í Englandi og þau samþykktu það umyrðalaust,” segir Brynhildur hæstánægð með foreldra sína sem njóta nú afraksturs langrar en erilsamrar ævi. Brynhildur er nú sjálf komin á miðjan aldur og er að vinna með fólki í leikhúsinu sem er tuttugu árum yngra en hún. Nú er hún þakklát fyrir að fá tækifæri til að miðla af sinni reynslu í lífinu, sem hún segist fyrst hafa fengið í foreldrahúsum, þar sem hún naut handleiðslu framsýnna foreldra með sterkar klassískar rætur, og síðar reynslubolta í leikhúsinu sem hafa treyst henni fyrir verkefnum. “Svo er það mitt að vinna úr allri þessari reynslu,” segir Brynhildur um upplifun sína af því að eiga foreldra sem eru hætt að vinna.