Þegar öll ráð þrýtur fá konur sér gel á neglurnar

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir segir lífsreynslusögu af gelnöglum

 

Það er ótrúlega hvimleitt að hafa svo lélegar neglur að þær klofni og brotni  stöðugt, þannig að eina leiðin út úr vandanum er að klippa þær niður í kviku eða nota naglaþjöl til að sverfa þær alveg niður. Þetta þekki ég af eigin raun. Að vísu fann ég fyrir nokkrum mánuðum leið til að styrkja neglurnar, sem ég hafði svo sem aldrei heyrt um, en get deilt því hér. Mér datt í hug að setja vaselín á neglurnar að kvöldi dags, sofa síðan með silikon hanska á höndunum og þvo kremið svo af þegar ég vaknaði.  Það er frekar skrítið að sofa með silíkonhanska á báðum höndum og betra að taka bara aðra hendina í einu. En þetta varð til þess að mínar þurru og klofnu neglur náðu sér bara þokkalega á strik.

En svo fór ég í langa fjallgöngu og neglurnar fóru að brotna og klofna – aftur. Þá fór ég að hugsa um hvers vegna ég hefði aldrei fengið mér gelneglur eins og svo margir gera og pantaði mér tíma hjá Comfort snyrtistofu í Álfheimum í Reykjavík.

Berglind Alfreðsdóttir tók á móti mér og það var ýmislegt sem þurfti að gera við neglurnar til að undirbúa þær fyrir gelið. Hún byrjaði á að matta þær, svo þurfti að hreinsa naglaböndin og móta neglurnar. Þar á eftir setti hún þunnt efni, nánast eins og vatn á neglurnar til að verja þær.  Á meðan Berglind fór um neglurnar þjálfuðum höndum sagði hún mér að það væru helst konur sem hefðu sérstaklega þunnar og veikbyggðar neglur sem kæmu til að fá sér gelneglur. „Þær eru búnar að prófa allt og þrautarlendingin er að fá sér gelneglur eða gelstyrkingu á sínar eigin neglur án þess að lengja þær“, segir hún. En konur komi líka til að fá sér neglur fyrir brúðkaup, árshátíðir og önnur tilefni þegar þær langar að vera extra fínar.

Berglind segir áberandi að neglur eldri kvenna verði lélegar eftir breytingaskeiðið og þær séu um helmingur þeirra viðskiptavina sem fái sér gel á neglurnar.

Það eru fleiri þættir sem hafa slæm áhrif á að neglurnar. Mikill handþvottur, notkun sterkra hreinsiefna og stöðug notkun á naglalakki  geta veikt þær með tímanum og Berglind segir að það sé alltaf gott að taka pásur inná milli hvort sem er í naglalakkinu eða gelásetningunni.

Gelneglur og handáburður

Karlar koma ekki á snyrtistofu til að fá gel á neglurnar, en hún segir að sú breyting hafi orðið síðustu árin að þeir komi þó meira en áður. „Þeir láta snyrta á sér hendurnar og neglurnar, sérstaklega ef það stendur eitthvað mikið til, eins og brúðkaup, þannig að hendurnar séu vel snyrtar á sjálfan brúðkaupsdaginn og í brúðarmyndatökunni þegar teknar eru myndir af höndum brúðhjónanna með giftingahringana“.

Margar ungar konur láta gera á sig litríkar og verulega langar neglur, með alls kyns skrauti. Berlind segist ekki persónulega vera hrifin af slíkum nöglum, en geri þær að sjálfsögu fyrir þá viðskiptavini sem þess óska. Sjálf vill hún hafa neglurnar sem mest náttúrulegar.  Ég er einmitt á sömu línu og nú er Berglind búin að setja á mig gelið.  Það þarf að setja nokkur lög af geli á neglurnar og að lokum sérstakt gelnaglalakk. Það er hægt að velja um marga liti, en ég vel lakk með örlítið bleikum tóni.  Hún lakkar neglurnar á höndunum til skiptis og ég set höndina sem hún er ekki að vinna við,  inn í lítinn naglalampa sem þurrkar neglurnar á milli umferða.

En hvað á ég að gera þegar neglurnar fara að vaxa fram og það kemur bil neðst við naglaböndin, verður það ekki ljótt? Berglind segir að það sjáist ekki mikið þar sem lakkið sé nánast litlaust. En það sé hægt að fara eina umferð með lakki yfir nöglina og bilið, þannig að það sjáist sem minnst.  En hvað ef þær fara nú að vaxa svo mikið að ég verð að stytta þær til að geta unnið á tölvuna? Þá er best að nota naglaþjöl segir hún og sverfa neglurnar niður.

Til að halda nöglunum við, mælir Berglind með því að ég komi aftur eftir 4-5 vikur. Þá er hægt að taka neglurnar af og setja nýjar á ef vill. Ef konur vilja hins vegar taka gelneglurnar alveg burtu og nota bara sínar eigin neglur um hríð, eiga þær alls ekki að taka þær af sjálfar. Það er nefnilega þannig að það þarf að nota sterkara aceton en það sem fæst úti í búð,  til að ná gelinu af. Það þarf að hreinsa öll lögin burtu og ef konur gera það sjálfar er hætt við að þær gangi of langt og skemmi sínar eingin neglur sem eru undir gelinu. Það sé mun betra að láta fagmann sjá um verkið.

Ég geng út af snyrtistofunni og hef nýtt líf með nýjar gelneglur. Það verður virkilega gaman að prófa þetta og sjá hvernig gengur. Ég syndi oft á morgnana og dáist að því hvað margar konur í sundinu eru með flott gel á nöglunum. Þær virðast þola allt, meira að segja klórinn í sundinu og mér finnst þær virkilega fínar. Nú bætist ég í hópinn.

Ritstjórn september 22, 2022 07:11