Sigurður Jónsson varaformaður Landssambands eldri borgara skrifar grein í Morgunblaðið, þar sem hann gerir að umtalsefni miklar launahækkanir hjá toppum þjóðfélagsins og hálaunastéttum, undanfarna mánuði. „Ekki eru þetta alltaf kallaðar hækkanir“, segir hann „heldur leiðréttingar og eru þá afturvirkar um marga mánuði“. Og seinna í greinninni segir:
Merkilegt er svo að fylgjast með að það eru alltaf nokkur þúsund einstaklingar sem standa og hrópa og skipuleggja undirskriftir til að beita þrýstingi til að hærra launaðar stéttir nái fram enn meiri hækkunum. Ég verð ekki var við að þessir sömu aðilar mæti með kröfuspjöld til að skora á stjórnvöld eða safni undirskriftum til að laun eldri borgara verði bætt“.
Sigurður bendir á að eldri borgarar sem eru yfir 40 þúsund hér á landi, eigi margir í miklum erfiðleikum með að ná endum saman.
Það eru ótrúlega margir eldri borgarar sem ná ekki einu sinni að fá 150 þúsund krónur úr sínum lífeyrissjóði. Einstaklingur sem býr einn fær í dag um 300 þúsund krónur fyrir skatt með greiðslunni frá Tryggingastofnun. Útborgaðar um 250 þúsund krónur. Velferðarráðuneytið gefur út að framfærslukostnaður hvers einstaklings sé 335 þúsund. Hjón eða sambýlisfólk fá 239 þús. fyrir skatt. Um 200 þúsund krónur útborgaðar. Allir hljóta að sjá að þetta getur ekki gengið. Það verður að tryggja að allir nái í það minnsta að fá útborgað það sem telst vera framfærslukostnaður“.
Sigurður segir jafnframt í greininni að á meðan það séu stórir hópar sem nái ekki einu sinni framfærslukostnaði um hver mánaðamót verði þeir betur settu að bíða. Getur ríkið gert eitthvað til að bæta kjör verst settu eldri borgaranna spyr hann og svarar spurningunni.
Já það er hægt með því að hækka skattleysismörkin. Að sjálfsögð á að tryggja öllum að þeir fái útborgaðar amk. rúmar 300 þúsund á mánuði. Skattleysismörkin eiga svo smám saman að fjara út við hækkandi tekjur. Þeir sem hafa til dæmis 1,5 milljónir á mánuði þurfa ekki á neinum skattleysismörkum að halda. Einhverjir segja eflaust að þetta sé ekki hægt, þetta sé alltof flókið. Þetta fyrirkomulag er notað við greiðslur frá Tryggingastofnun. Greiðslur fara minnkandi eftir því sem þú hefur hærri tekjur, t.d. frá lífeyrissjóðum. Við 550 þúsund krónur á mánuði hættir Tryggingastofnun að greiða“.
Sigurður segir að vonandi eigi starfshópurinn sem Ásmundur Einar Daðason skipaði, eftir að koma með raunhæfar tillögur um hvernig hægt sé að bæta kjör verst settu eldri borgaranna, en hann á að skila tillögum eigi síðar en 1.nóvember. Lokaorð hans í greininni eru þessi „Þjóðin hefur alveg efni á því að gera vel við þennan hóp“.