Jón Sigurðsson forseti var ekki Forseti Íslands, eins og flestir sem komnir eru yfir miðjan aldur vita en þjóðhátíðardagurinn 17. júní er tengdur honum, enda fæðingardagur hans.
Jón var fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811. Hann var mikill baráttumaður í frelsisbaráttu Íslendinga og átti hvað mestan þátt í því að Íslendingar fengu sjálfstæði á ný. Hann varð ekki Forseti Íslands heldur var hann forseti Hins íslenska bókmenntafélags og forseti Alþingis. Þess vegna fékk hann auknefnið foseti. Þjóðin heiðraði síðan minningu hans með stofnun Háskóla Íslands á 100 ára ártíð hans, 17. júní 1911. Stofnun lýðveldisins var síðan valinn sami dagur 1944 og síðan hefur 17. júní verið þjóðhátíðadagur Íslendinga. Hann hefur ætíð verið einstaklega hátíðlegur. Sökum Covid faraldursins er hátíðahöldum stillt í hóf í ár og fólk hvatt til að halda daginn hátíðlegan í smærri hópum. En öll él birtir um síðir og við hlökkum bara til næsta 17. júní, árið 2021.
Myndina af hátíðahöldunum í miðbænum sem fylgir greininni, tók Einar Þ. Guðjohnsen á 17. júní árið 1955. Hún er einstaklega skemmtileg og muna eflaust margir eftir því umhverfi sem þar sést. Hátíðahöldin á þjóðhátíðardaginn voru þarna með allt öðrum brag en tíðkast í dag.
Eins og sjá má drifu sig allir í sparifötin í tilefni dagsins. Konurnar voru margar í drögtum og flest allar með veski um arminn. Þeir sem muna eftir þessum tíma segja að varla hafi sést vín á nokkrum manni en þó hafi verið „kaupstaðalykt“ af sumum. Engu líkara er en að myndin sé sviðsmynd úr Kardimommubænum eins og einhver hafði á orði, þegar myndin var birt á netinu.