Vigdís Hauksdóttir Miðflokki og
Jón Hjaltalín Magnússon Miðflokki skrifa:
Fyrsta Landsþing Miðflokksins var haldið fyrir skömmu. Mikil eftirvænting var í samfélaginu hvaða stefnu nýstofnaður stjórnmálaflokkur myndi taka í málefnum aldraðra. Formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur margoft talað fyrir bættum hagsmunum eldri borgara og nauðsyn þess að þeir lifi með fullri reisn okkur öllum til heilla. Íslenska þjóðin stendur í mikilli þakkkarskuld við eldri borgara okkar sem hafa byggt upp þetta velferðarsamfélag. Það ber að þakka og það í verki, en ekki með innantómum loforðum fyrir kosningar!
Við undirrituð erum Sigmundi Davíð formanni okkar hjartanlega sammála og viljum í grein þessari kynna stefnumál Miðflokksins í Reykjavík svo og á landsvísu varðandi málefni eldri borgara. Það er stefna Miðflokksins að lífeyrir eigi að tryggja lágmarkslaun og að forgangsröðun hjá ríkinu verði með þeim hætti að þeim sem hafa lokið starfsævinni séu tryggðar tekjur sem standa vel undir mannsæmandi lífskjörum, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða hjón. Þá er mjög mikilvægt að afnema strax skerðingar á lífeyri undir kr. 350.000. Áfram verði síðan unnið að því að draga úr skerðingum og þær að lokum afnumdar á þessu kjörtímabili. Þannig munu atvinnutekjur eða lífeyrisgreiðslur úr sjóðum viðkomandi borgara ekki skerða greiðslur frá almannatryggingum. Samfélaginu er einnig hagur að því að fá notið reynslu, þekkingar, verðmætasköpunar og skattgreiðslna eldri borgara sem vilja vinna lengur. Slíkt hefur í för með sér ábata fyrir alla. Miðflokkurinn vill að komið verði á sveigjanlegum starfslokum bæði í opinberum störfum sem og hjá einkafyrirtækjum sem eru mikilvæg réttindi þeirra sem eru að enda starfsævina en hafa áhuga, heilsu og getu til að starfa lengur.
Lífeyrisgreiðslur eru í eðli sínu fjármagnstekjur og þær skal þess vegna skattleggja sem slíkar en ekki sem launagreiðslur. Sama á að gilda um frístundaeignir eldri borgara þegar þeir selja þær. Þá er mikilvægt að afnema ólögmæta tvísköttun þeirra sem eiga lífeyrisréttindi erlendis frá. Lífeyrissjóðakerfi okkar er allt of umfangsmikið og dýrt í rekstri. Eitt af meginmarkmiðum Miðflokksins er að einfalda lífeyrissjóðakerfið með fækkun sjóða og breyta lagaumhverfi á þann hátt að lífeyrissjóðirnir geti fjárfest enn frekar erlendis svo og í þjóðhagslega hagkvæmum innviðaverkefnum eins og þjóðvegum, jarðgöngum, flugvöllum, hjúkrunarheimilum o.fl. Skattleggja skal lífeyrissparnað við inngreiðslu í lífeyrissjóði og því er ljóst að aðeins er um fjármagnstekjur að ræða við vörslu og útborgun þeirra. Afnema skal erfðafjárskatt.
Við Íslendingar erum sem þjóð að eldast eins og aðrar vestrænar þjóðir en heilsufar verður sífellt betra hjá eldra fólki okkar þökk sé skynsömu mataræði, hreyfingu og góðri heilsugæslu. Heilsugæsluna má þó bæta verulega. Við viljum öll manneskjulegt samfélag á ævikvöldinu. Við viljum að sem flestir geti búið sem lengst á heimili sínu meðan heilsan leyfir. Það verði gert með því að fara í sérstakt átak í að efla lýðheilsuþætti, s.s. hreyfingu og mataræði. Einnig þarf átak allra sveitarfélaga í því að auka aðstoð og þjálfun við heimilishald, slíkt hefur verið prófað og virkað mjög vel, svo og heimaþjónustu við þá sem þess þurfa. Eldri borgarar eiga að fá þau lyf sem þeir þurfa gjaldfrjálst.
Fjölgun á þjónustuíbúðum og hjúkrunarheimilum um land allt er bráðnauðsynleg. Það er óásættanlegt fyrir þann sem hefur hlotið mat læknis til að komast á hjúkrunarheimili, að þegar viðkomandi þarf að leggjast inn á spítala vegna veikinda að verða fastur inni á spítalanum vegna skorts á herbergjum á hjúkrunarheimili. Það er líka óásættanlegt fyrir aðstandendur og kerfið í heild. Hvað þá sjúkahúsin sem þurfa á öllum sínum rúmum að halda til að sinna skurðaðgerðum til að stytta biðlistana.
Undirritaður; Jón Hjaltalín er 70 ára og því kominn í þennan skemmtilega og lífsglaða hóp eldri borgara. Hvers vegna að byrja í stjórnmálum á þessum aldri? Mér finnst ég alls ekki orðinn „gamall“en viðurkenni fullorðinn! Hvers vegna valdi ég Miðflokkinn? Jú, Miðflokkurinn er með skynsamlegustu stefnuna í öllum málaflokkum ekki hvað síst fyrir okkur eldri borgara! Flokkurinn er með frábæran leiðtoga á landsvísu, Sigmund Davíð, og skynsama valkyrju; Vigdísi Hauksdóttur, sem oddvita flokksins í Reykjavík. Vigdís er þekkt fyrir að láta verkin tala! Ég sjálfur tel mig hafa mikla lífsreynslu og þekkingu. Sem fyrrverandi íþróttakappi er vanur að láta verkin tala bæði inn á handboltavellinum sem utan hans! Ég er þakklátur fyrir að Miðflokkurinn, flokkur allra landsmanna, metur mig sem slíkan án tillits til aldurs og gefur mér tækifæri til taka þátt í að bæta hag eldri borgara eins og móður minnar sem og annarra landsmanna.
Þeir sem tilheyra þeim virðulega klúbbi að vera 67+ kalla eftir breyttum viðhorfum hjá þjóðinni og stjórnmálamönnum þessa lands. Þeir fara fram á það að mál þeirra séu hugsuð upp á nýtt í stað þess að binda í viðjum vanans, já og gera ekki neitt til að bæta úr málunum. Við viljum gefa eldri borgurum tækifæri til að tala fyrir sínum málum og koma með tillögur að breytingum þeim til velfarnaðar og meiri lífshamingju. Þessi lífsglaði hópur yngist sífellt þrátt fyrir að aldurstölur séu þær sömu. Enda segja margir og verða það lokaorð okkar; „Aldur er bara tala á blaði!“
Miðflokkurinn óskar eldri borgurum gleðilegrarr og gæfuríka framtíðar!
Höfundar: Vigdís Hauksdóttir og Jón Hjaltalín Magnússon, frambjóðendur Miðflokksins í Reykjavík