Þátttakendur eða þiggjendur

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar skrifar:

Velferð er einn af hornsteinum góðs samfélags. Þess vegna setur Viðreisn málefni eldra fólks á oddinn með áherslu á að tryggja velferðarþjónustu sem byggir á mannréttindum, virðingu og virkni. Íslendingar eru að eldast en í dag eru einstaklingar 65 ára og eldri 13% af íbúum landsins eða um 41 þúsund talsins. Hópurinn er jafn fjölbreyttur og hann er fjölmennur og því ljóst að mismunandi þörfum verður að mæta með fjölbreyttri þjónustu.

Samþætt og heildstæð þjónusta

Í lok árs 2003 skrifuðu Jón Kristjáns­son, þáverandi heil­brigðisráðherra, og Þórólf­ur Árna­son, þáverandi borg­ar­stjóri, und­ir sam­komu­lag um að tvinna sam­an fé­lags­lega heimaþjón­ustu og heima­hjúkr­un í Reykja­vík. Þetta er mér afar minnisstætt því á þessum árum stýrði ég allri þjónustu við eldra fólk í Reykjavík og fékk það verkefni, ásamt heilsugæslunni, að leiða þessa flóknu en brýnu vinnu. Árið 2004 voru svo fyrstu skrefin í samþættri heimahjúkrun og heimaþjónustu tekin í Reykjavík. Það er alveg ljóst að þetta var mikið framfaramál í öldrunarþjónustu en þjónustan verður að þróast áfram í takt við tímann og þarfir eldra fólks. Nú stöndum við aftur á tímamótum því ljóst er að þeir sem verða 65 ára eða eldri eru fleiri en árið 2004 og aðstæður þeirra eru allt aðrar en áður. Þessu verður að mæta með öflugri heildstæðri þjónustu.

Reynslan sýnir að sífellt fleiri vilja búa heima hjá sér eins lengi og kostur er. Sú þróun er ekki bara vel skiljanleg heldur einnig stórt réttindamál eldra fólks og því verða sveitarfélög að vera viðbúin aukinni eftirspurn eftir þjónustu við eldra fólk í heimahúsum. En það er ekki nóg að bregðast bara við aukinni eftirspurn heldur er einnig nauðsynlegt að tryggja heildstæða þjónustu sem mætir þörfum eldri íbúa. Við viljum að í boði sé afbragðs þjónusta fyrir einstaklinga í heimahúsum, s.s. aðgengi, hjálpartæki, endurhæfing, hreyfing, fæði og síðast en ekki síst fyrirmyndar heimaþjónusta og heimahjúkrun. Viðreisn hefur einsett sér að vinna að algjörri samfellu í þjónustu við eldra fólk. Við viljum efla kvöld- og helgarþjónustu, fjölga rýmum í dagdvöl um fjörutíu, stórbæta stuðning við böðun og að boðið verði uppá fjölbreytta sérsniðna þjónustu. Þannig skal tryggt að hugað sé að nauðsynlegum þáttum í daglegu lífi eldra fólks.

Viðreisn vill fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun Reykvíkinga. Við viljum skapa umhverfi þar sem allir geta fundið vettvang við hæfi og þjónustu eftir þörfum. Við viljum gefa öllum kost á að vera þátttakendur en ekki þiggjendur í samfélaginu og þannig hvetja til frumkvæðis og athafna. Við setjum velferðarmál á oddinn.

Ég hvet þig til að kynna þér stefnu Viðreisnar á reykjavik.vidreisn.is.

 

Ritstjórn maí 7, 2018 10:58