Þorvaldur Halldórsson, söngvari
Þegar nafni Þorvaldar Halldórssonar er slegið upp á ja.is koma þrír til greina. Við nafn eins þeirra stendur ,,ekki á sjó“. Sá hefur líklegast verið orðinn leiður á því að vera ruglað saman við Þorvald Halldórsson sem sannarlega söng lagið ,,Á sjó“ djúpum rómi. Vísbendingin dugði til að ,,hinn eini sanni“ fannst en sá rétti er nú fluttur til Torrevieja á Spáni.
,,Ég er nú bara eldri borgari og bý suður á Spáni,“ segir Þorvaldur léttur í bragði en hann og eiginkona hans, Margrét Scheving, hafa búið í Torrevieja á Spáni síðastliðin þrjú ár. Þau hafa hugsað sér að vera þar áfram því hitinn þar fer vel í þau. ,,Auðvitað er ýmislegs að sakna frá Íslandi en kuldinn er ekki eitt af því,“ bætir hann við. Þau hjónin eru bæði tónlistarmenn en Þorvaldur hefur verið meira áberandi en Margrét
í gegnum tíðina. Hún hefur gert töluvert af því að semja og lag eftir hana sem flestir kannast við er til dæmis fallega lagið við sálminn ,,Drottinn er minn hirðir“. Þau hjónin hafa komið mikið fram saman í kirkjum á Íslandi undanfarna áratugi og í kórum líka. Þau hafa þó ekki gert neitt af því að koma fram á Spáni en Íslendingasamfélagið þar er að sögn Þorvaldar mjög stórt og skemmtilegt svo ekki er ólíklegt að hæfileikar þeirra verði nýttir í einhverju samhengi þegar fram í sækir.
Sonur Þorvaldar og Margrétar er skipstjóri á úthafstogara frá Íslandi en hann og fjölskylda hans hafa líka flutst til Torrevieja. Togarinn er gerður út frá Íslandi en landar í Noregi. Sonur þeirra er í fríi annan hvern mánuð og kemur þá niður til Spánar og nýtur sólarinnar með fjölskyldu sinni og foreldrum. Þorvaldur og Margrét njóta þess ríkulega að hafa þau með sér í Torrevieja.
Að sögn Þorvaldar er fjölbreytt mannlíf í Torrevieja og um magt að velja. „Sumir setja sig niður sem næst golfvelli og stunda golf af kappi,” segir hann. ,,Aðrir sækjast frekar eftir strandlífinu því hér eru baðstrendur um allt og með fram þeim eru góðar gangstéttir sem auðvelt er að ganga, skokka eða hjóla eftir. Við völdum að búa í miðbænum í Torrevieja og blandast mannlífinu auðveldar. Hér eru kaffihús og veitingahús á hverju horni og fjöldi verslana sem vert er að skoða og njóta og svo eru fínar strendur í göngufæri. Svo höfum við fundið evangelíska kirkju þar sem við sækjum okkur samfélag.”
Þorvaldur er fæddur á Siglufirði þar sem hann bjó fyrstu æviárin og lærði ungur bæði á gítar og klarínett og fór snemma í skólahljómsveitina. 16 ára gamall flutti hann til Akureyrar þar sem hann fór í menntaskólann. Fljótlega var honum svo boðið að ganga í hljómsveit Ingimars Eydal og með þeirri hljómsveit starfaði hann í mörg ár. Hljómsveitin fór suður til að taka upp tvær fjögurra laga plötur 1965 en þær komu út á vegum SG hljómplatna. Fyrri platan kom út haustið 1965 og á þeirri plötu var stórsmellurinn ,,Á sjó“. Þar með var nafn Þorvaldar rækilega stimplað í tónlistarsöguna á Íslandi. Seinni platan kom út um áramótin ‘64-’65 en á þerri plöt var annar smellur: ,,Hún er svo sæt“. Þessi tvö lög voru mest um beðnu lögin í óskalagaþáttum í útvarpinu á þessum tíma.
Þorvaldur hélt áfram að starfa með hljómsveit Ingimars Eydal og um sumarið 1967 kom út Smáskífa þar sem Helena Eyjólfsdóttir söng með Þorvaldi, meðal annar lagið ,,Ég tek hundinn“ sem margir kannast við.
Árið 1974 fluttist Þorvaldur til Vestmannaeyja og tók þátt í uppbyggingarstarfi heimamanna eftir gos. Segja má að líf hans hafi tekið miklum breytingum en haustið 1977 frelsaðist hann og sneri baki við popptónlistinni um tíma. Hann hóf nám í guðfræði í framhaldinu og trúarlífið tók nú hug hans allan á þessum tíma.
Árið 1984 hóf Þorvaldur aftur að syngja ,,veraldlega“ tónlist og kom fram á mörgum slíkum skemmtunum. Honum var sannarlega tekið aftur sem týnda syninum þegar hann tók þátt í sýningu í tilefni af 25 ára afmæli hljómsveitar Ingimars Eydal 1987.
Þorvaldur og Margrét fluttu frá Vestmannaeyjum eftir áratuga búsetu og settust að á höfuðborgarsvæðinu. Þorvaldur hafði hætt guðfræðináminu en nam þess í stað húsasmíði og starfaði við þá iðngrein um árabil samhliða söng í kirkjustarfi og á skemmtunum. Hann tólk líka þátt í starfi fyrir eldri borgara auk helgihalds í Kolaportinu um helgar. Þorvaldur hefur því haft mikið að gera alla ævi og nýtur þess nú að slaka á í hitanum á Spáni.