Aldursfordómar ráða ríkjum í bankakerfinu

Friðbert Traustason

Bankastarfsmönnum hefur fækkað um 40 prósent hér á landi á rúmlega tíu árum. Uppsagnirnar hafa bitnað verst á fólki sem komið er yfir miðjan aldur. Bankastarfsmenn voru 4.600  árið 2008 en eru nú um 2.600. Útibúum hefur fækkað úr 150 í rúmlega 70 á sama tíma. Um 20 útibú eru á höfuðborgarsvæðinu.

Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, var gestur  Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Hann sagði að fyrir hrun hafi rúmlega  20 sparisjóðir verið starfræktir auk stóru bankanna þriggja. Nú eru stóru bankarnir eftir og fjórir litlir sparisjóðir. Í kjölfar hrunsins var hátt í 1.000 manns sagt upp störfum. Friðbert sagði að það fólk hefði verið á öllum aldri, menntað fólk og ómenntað. Á undanförnum árum hafa um 1.000 manns til viðbótar misst vinnuna og sagði Friðbert að það sé starfsfólk í eldri kantinum um 80 prósent þeirra eru konur. Margar þeirra eru án formlegrar menntunar. „Það sem mér þykir nú alltaf jafn merkilegt er að við erum að tala um að vernda kvennastörf en ég hef aldrei heyrt nokkurn stjórnmálamann hafa áhyggjur af því þó þessi kvennastörf hverfi,“ sagði Friðbert. Hann sagði að það væri stefna innan bankanna að fólk mætti helst ekki vinna lengur en til 65 ára aldurs. Það væri varla nokkur starfsmaður í bankakerfinu sem sé eldri en 67 ára. „Það eru aldursfordómar í bankakerfinu,“ sagði hann.  Friðbert segir að þessari þróun verði að breyta til að halda fólki lengur í starfi. Þá ræddi hann um stafræna þróun innan bankanna sem hefði haft veruleg áhrif. Nú vinni 400 til 500 manns við upplýsingatækni innan bankakerfisins.

Ritstjórn júlí 10, 2019 13:43