Á að fara í jarðarför fyrrverandi maka? Mest lesið á árinu 2019

1. Það er stór hópur fólks sem les greinar á Lifðu núna, ýmist á síðunni sjálfri eða á Facebook. Við skoðuðum hvaða greinar það voru sem voru mest lesnar á árinu 2019. Hér á eftir fer listi yfir 10 greinar sem mest var smellt á, á árinu sem er að líða. Á að fara í jarðarför fyrrverandi maka? Það mætti ætla að margir veltu þessari spurningu fyrir sér, því þetta var mest lesna greinin á Lifðu núna á árinu. Rætt var við séra Önnu Sigríði Pálsdóttur um það hvenær fólk á að fara í jarðarför og hvenær ekki.

Þegar fólk eldist, fjölgar jarðarförunum sem það fer í. Foreldrar falla frá, vinir og samferðamenn í lífinu. Oftast er það nokkuð augljóst hvaða jarðarför er farið í og hvaða ekki. En kannski ekki endilega alltaf. Fólk fer í jarðarför nánustu aðstandenda og fjölskyldu, gamalla vina og jafnvel vinnufélaga. En hvað með gamla vini, sem lítið samband hefur kannski verið við í áratugi, er óviðeigandi að fara í þeirra jarðarför og taka pláss frá örðum í kirkjunni? Eða fyrrverandi tengdafólk? Og hvað með foreldra gamalla vina, sem maður þekkti ekki endilega vel?  Lesa má greinina í heild hér.

2. María Sigurðardóttir starfaði lengi í leiklist hér á landi, bæði sem leikstjóri og einnig leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar. Eftir að hún hætti hjá LA fór hún til Danmerkur og það reyndis virkilega erfitt að fá vinnu eftir að hún kom aftur heim. Viðtalið við Maríu, Fékk vinnu í Melabúðinni, var annað mest lesna efnið á síðunni á árinu sem er að líða.

María segir skemmtilegt að vinna á kassanum í Melabúðinni

Þá sá ég auglýsingu frá Melabúðinni, sem mér fannst svolítið spennandi. En samt… að vinna í búð, eftir að hafa verið leikstjóri, og jafnvel leikhússtjóri! Ég hugsaði málið og sagði við sjálfa mig: “Er ég virkilega svona hégómleg að ég geti ekki látið sjá mig við störf í búð? Og ég komst að þeirri niðurstöðu að ég væri ekkert of fín til að vinna á kassa í matvörubúð og sótti um og fékk starfið. Ég var fljót að komast að því að manni leiðist ekki eina mínútu í Melabúðinni. Það er alltaf mikið að gera, þetta er góður vinnustaður, frábært starfsfólk og yfirmenn. Ég þekki líka ótrúlega marga  sem skipta við Melabúðina og þó það hafi komið mörgum á óvart að sjá mig við kassann þá hefur mér liðið vel með það og ég held að flestum finnist það bara eðlilegt núorðið,” segir María og hlær.

Smelltu hér á viðtalið í heild.

3. Þriðja mest lesna greinin á árinu var Finna fyrst fyrir því að muna ekki nöfn. Þar greinir Ingunn Stefánsdóttir geðhjúkrunarfræðingur hjá Heilsustofnun í Hveragerði, frá því að hún hafi sótt námskeið í minnisþjálfun fyrir 12 árum og uppúr því sett upp minnisþjálfun fyrir eldri gesti í Hveragerði.

Flestir segja að það verði erfiðara þegar sextugsaldri er náð að muna það sem við eigum að muna segir Ingunn

„Markmiðið er einfalt. Það er að vekja athygli fólks, á mikilvægi þess að þjálfa heilann, alveg eins og líkamann. Ég held að það sé misbrestur á því að fólk hugsi nógu vel um það“. Ingunn segir að þegar hægist um hjá fólki og það hætti að vinna, minnki áreiti á það mikið. „Það þarf mikið áreiti og mikla örvun til að halda sér skörpum. Lítið áreiti og mikil vanafesta eru verstu óvinir minnisins. Það að gera alltaf sama hlutinn eins og vera mikið einn heima og útaf fyrir sig“, segir hún, en á móti komi svo að menn þurfi líka röð og reglu í lífi sínu. „Maður sér þetta best á stofnunum fyir aldraðra. Fólk kemur þar inn nokkuð frískt hugrænt séð, en svo sést að það verður aðgerðarlítið og sljóvgast. Það fær svo lítið áreiti. Það þarf að huga að tómstundum og viðfangsefnum fyrir eldra fólkið, ekki bara að sinna grunnþörfum þess“.

Lesa  má viðtalið við Ingunni í heild hér.

4. Það er ævinlega mikið lesið efni, þegar eldra fólk söðlar um við starfslok og fer að gera eitthvað allt annað. Lesendum virðist þykja það forvitnilegt. Sigurður Jónsson og Dagný Guðmundsdóttir eru einmitt í hópi þeirra sem hafa gert þetta, en þau seldu húsið sitt í Reykjavík og hófu svokallaða vistræktun í Biskupstungunum.Viðtalið við þau Seldu húsið og fluttu í sveitina var fjórða mest lesna efnið á vefnum á árinu.

Dagný og Siggi eru ánægð í sveitinni

Sigurður og Dagný rækta margar tegundir grænmetis, til dæmis bæði lauk og hvítlauk og aspas, svo fátt eitt sé nefnt, tegundir sem blaðamaður hafði haldið að yxu hreint ekki hér. Þau eru líka með nokkrar hænur. En ræktunin byggist á jafnvægi, það er til dæmis gott að hafa saman í beði gulrætur sem hafa djúpar rætur og svo aðra tegund með grunnar rætur, eins og til dæmis salat. Dagný segir að það gangi vel saman. Hún segir líka að laukur gefi frá sér lykt sem fæli flugur frá beðunum. „Þetta er eins og með mannfólkið, það þarf að vera fjölbreytni í þessu“, segir hún um ræktuina. Þegar blaðamann bar að garði, sögðust þau Sigurður og Dagný vera að ljúka við að vinna úr uppskerunni frá í sumar og undirbúa beðin fyrir næsta ár. Þau nýta megnið af framleiðslunni sjálf en selja ekki á markaði.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa greinina í heild, er hún hér.

 

5.  Þú verður að koma og bjarga okkur er fyrirsögnin á fimmtu mest lesnu grein vefsins á árinu. Þar er rætt við Hinrik Greipsson sem segja má að hafi verið ómissandi á sínum vinnustað, þó hann væri formlega hættur störfum. Hinrik sem er viðskiptafræðingur vann hjá Fiskveiðasjóði Íslands í 25 ár, þar til sjóðurinn var lagður niður.

Hinrik á svölunum í nýju íbúðinni

Þegar búið var að loka sjóðnum lá leið Hinriks í sjávarútvegsráðuneytið, eins og það hét þá. „ Ráðuneytið var að hefja úthlutun byggðakvóta og skrifstofustjórinn var fljótur að setja mig yfir í það“, rifjar hann upp. Hann byggði þar upp ásamt samstarfsmönnum sínum, sérþekkingu í þessum málaflokki og segir að það hafi enginn haft áhuga á þessu, vegna þess að það fylgdi starfinu mikið þras. En svo kom að því að hann eltist og hætti störfum í ráðuneytinu 2017, þá sjötugur. Hann var nýjum manni hins vegar innanhandar, en sá maður hætti fljótlega og fékk annað starf. Það var í janúar á þessu ári og þá fékk Hinrik símtal úr ráðuneytinu „Þú verður að koma og bjarga okkur!“ var kallið og það gerði hann.  Nýr maður var svo ráðinn síðast liðið vor og enn á ný fór Hinrik að setja hann inn í starfið, fiskveiðistjórnarkerfið og byggðakvótann.  Smelltu hér til að lesa viðtalið við Hinrik í heild.

Hér á eftir fara tenglar á greinarnar urðu í  6-10 sæti.

6.Skrítið að vakna á morgnana og fara ekki í vinnu. Smella hér til að sjá grein

7.Hafa vetursetu á Spáni. Sjá hér.

8.Stundum líður sjúklingi ekki neitt. Hér.

9.Ekki bitur á bótum. Smella hér.

10.Að komast í gallabuxurnar eftir fimmtugt. Sjá hér.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 31, 2019 09:52