Hugmynd að helgarmat

Matarþáttur hefur nú göngu sína  á Lifðu núna vefnum. Ætlunin er að vera með nýjar uppskriftir á hverjum föstudegi að aðalrétti og eftirrétti sem gaman væri fyrir fólk að spreyta sig á um helgar. Þar sem við vitum að lesendur okkar hafa langa reynslu í eldhúsinu er meiningin að þessi þáttur sé meira til að kveikja nýjar hugmyndir, en kenna fólki matreiðlu.

Helgarmaturinn, tilbrigði við íslensku kjötsúpuna

Osso buco er ítalska heitið á þessum rétti og þýðir „bein með holu“. Það vísar til beinsins sem við sjáum þegar skrokkur er þverskorinn og beinið kemur í ljós með holunni þar sem beinmergurinn er. Upphaflega var nautakjöt notað í þennan rétt en nota má naut, lamb eða svín, allt eftir því hvað fólk vill, en notaðar eru sneiðar með beini því beinið gefur kraft í soðið sem rétturinn mallar í og  er notað sem sósa. Í þetta sinn notum við lambakjöt þar sem nú er sláturtíðin að ganga í garð á Íslandi. Rétturinn er eldaður í langan tíma og þá er tilvalið að nota hluta af skrokknum sem er ekki fínasta eða dýrasta kjötið. Í þessu tilfelli eru notaðar framhryggssneiðar sem eru tilvaldar að nota þegar rétturinn er notaður sem veisluréttur.

OSSO BUCO fyrir 4

4 lambaframhryggssneiðar

2 skalotlaukar, skornir í tvennt

6-8 hvítlauksrif (afhýdd en heil)

salt og pipar

1 dós hakkaðir tómatar

½ flaska rauðvín (má nota óáfengt)

ferskur rósmarínkvistur

6-8 gulrætur, skornar í bita, má vera meira af gulrótum

Btúnið kjöt, lauk, hvítlauk á pönnu og kryddið með salti og pipar. Látið allt í pott ásamt tómötunum og rauðvíni. Bætið gulrótarbitunum út í og rósmarínkvistinum og látið malla í 2 – 2 ½ tíma við 160 gráður í ofni.

Meðlæti:

Sjóðið nýjar íslenskar kartöflur og merjið þær með hýðinu. Bætið smjörklípu eða olíu út í ásamt rifnum parmesanosti og salti og pipar. Einnig má skera nýjar íslenskar kartöflur í bita og sjóða þær með í pottinum í stað þess að merja þær.

 

Það er auðveldara en margur heldur að baka svampbotn og íslensku berin klikka ekki.

Eftirrétturinn

Skotheld svampterta

½ bolli mjólk

2 msk. smjör

2 egg

2/3 bolli sykur

1 bolli hveiti

1 tsk. lyftiduft

¼ tsk. salt

1 tsk. vanilludropar

ber að eigin vali

 

Hitið mjólk og smjör saman í potti þannig að smjörið bráðni alveg. Setjið til hliðar en gætið þess að blandan kólni ekki of mikið. Þeytið eggin svo þau þykkni og bætið sykri smátt og smátt saman við. Þeytið þar til blandan verður létt og ljós. Bætið hveiti, lyftidufti og salti varlega saman við og hrærið saman með sleif. Hellið volgri mjólkurblöndunni varlega út í ásamt vanilludropum. Snyrjið lausbotna form (u.þ.b. 20 cm). Bakið við 180°C í 30 mín. Skreytið með þeyttum rjóma og dýrlegum berjum beint úr náttúrunni.

Til að gera kökuna sætari má bræða súkkulaði og smyrja botninn áður en rjómanum er smurt á hann. Nýtínd ber eru bæði skraut og dýrlega gómsæt með rjómanum. Tilvalin kaka með kaffinu.

Ritstjórn september 8, 2017 14:28