Íslenskir álfar eru um margt einstakir. Þeir eru greiðviknir við þá sem reynast þeim vel en hefnigjarnir og grimmir við hina. Híbýli þeirra að innan eru glæsileg en að utan virka þau kaldur, myrkur steinn. Þau Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring gera á sinn einstaka hátt úttekt á álfasögum í bók sinni Álfar. Hér eru þekktustu álfasögurnar krufnar, samskipti manna og álfa skoðuð og í raun gerð skil öllu því sem menn þurfa að vita um huldufólkið í hólum og klettum.
Hjörleifur er auðvitað löngu landsþekktur fyrir sitt skemmtilega sjónarhorn á lífið og tilveruna og frásagnargáfa hans og kímni nýtur sín sérlega vel hér. Rán hlaut nýlega Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðulandaráðs fyrir bókina Eldgos. Henni er einkar lagið að draga upp óborganleg svipbrigði á þeim fígúrum sem hún teiknar og skapa þeim umhverfi.
Það er einstök skemmtun að lesa og fletta bókinni Álfar og hún er tilvalin til að kynna barnabörn fyrir veröld huldfólksins í klettaborgum landsins. Hún er líka tilefni til að rifja upp og skoða álfasögur ættarinnar því ef vel er að gáð leynist í ansi mörgum fjölskyldum álagablettur, álfhóll eða kynni álfkonum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.