„Markmið Opna LHÍ er meðal annars að glæða áhuga almennings á listum og veita sem breiðustum hópi fólks aðgang að þeirri sérþekkingu og aðstöðu sem Listaháskóli Íslands býr yfir.Nú er að hefjast þriðja árið þar sem boðið er upp á opin námskeið í öllum deildum Listaháskóla Íslands. Í skólanum eru fimm deildir; hönnunar- og arkitektúrdeild, myndlistadeild, listkennsludeild, sviðslistadeild og tónlistardeild,“ segir Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir, verkefnastjóri Listkennsludeildar Listaháskólans.
Hún segir að inntökuskilyrði séu mismunandi, stundum sé krafist bakkalárgráðu eða sambærilegrar menntunar en þó ekki alltaf það fari eftir eðli námskeiða. Það er fólk á öllum aldri sem sækir námskeiðin allt frá fólki á þrítugsaldri og þeir elstu eru komnir á áttræðisaldur. „Algengt er að starfandi listafólk og/eða kennarar, sem hafa verið einhvern tíma á vinnumarkaði, nýti sér tækifæri til starfsþróunar eða símenntunar í gegnum Opna LHÍ, er það gjarnan fólk um eða yfir miðjum aldri,“ segir Ólöf Hugrún.
Nemendur í Opna LHÍ sitja námskeið með nemendum sem eru í bakkalár- eða meistaranámi í skólanum enda eru námskeiðin á bakkalár- og meistaranámsstigi og eru hluti af kennsluskrá skólans. Lengd námskeiða fer eftir hversu umfangsmikil þau eru, allt frá knöppum, nokkra daga námskeiðum til námskeiða sem ná yfir alla önnina. Þetta fer eftir hve margar einingar námskeiðin eru, en nemendur í Opna LHÍ geta ráðið hvort þau vilja taka námskeið til ECTS eininga eða ekki. Á síðasta skólaári sló námskeið í að læra að spila á Ukulele algerlega í gegn og á þessu skólaári er námskeiðið Snertifletir heimspeki og lista í samtíma sérstaklega vinsælt. Þónokkur námskeiða eiga eftir að hefjast á haustönn og er enn hægt að skrá sig á þau. Skráning fer fram á heimasíðu Opna listaháskólans en hún er: https://www.lhi.is/opni-listahaskolinn Á heimasíðunni er einnig hægt að sjá nánari upplýsingar um hvert og eitt námskeið. Í október eru það: Verkefnastjórnun, Tónbókmenntir 19. aldar- Ljóðaflokkurinn og Fagurferði, siðferði og námÍ nóvember er um að ræða Byggingarlist á Ísland, Listin að halda fyrirlestur, Námsefnisgerð, Formfræði – Umhverfi, Stafrænir miðlar og skapandi skólastarf, Raftónlistarsaga, og Leiklistarmeðferð.