Umbreytingin

Sólveig Baldursdóttir blaðamaður skrifar.

Ég minnist þess tíma þegar ég var bólugrafinn unglingur að hafa lamið sjálfa mig niður fyrir að vera bæði ljót og allt of stór. Viðmiðið var sætu stelpurnar sem voru litlar og nettar og mjög snoppufríðar að mínu mati. Svo hjálpaði ekki til að ég stundaði frjálsar íþróttir af kappi sem gerði það að verkum að kílóin héldust ekki utan á mér. Ég var því allt of grönn sem í þá daga var kallað að vera horuð. Bara að heyra orðið ,,horuð“ olli mér vanlíðan því ég gat ekki með neinu móti þyngst. Það þýddi að vöxturinn var svolítið eins og á strák, engin brjóst eða mjaðmir. Ég byði ekki í það ef samfélagsmiðlar hefðu verið til þá. Nægur var samanburðurinn samt.

En allt í einu og án þess að ég yrði þess vör hafði ég breyst úr því að vera óásjálegur unglingur í unga manneskju eins og þeir jafnaldrar mínir sem höfðu farið í gegnum hormótatímabilið með álíka offorsi og ég. Ég tók eftir því að viðmót fólks til mín breyttist þótt ég sjálf hefði ekki breyst að neinu leyti nema að útlitið hafði breyst. Ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð og kunni ekki að taka hrósinu sem ég fékk allt í einu en auðvitað varð ég upptekin af því.

En nú er komið að þriðja aldursskeiðinu og þá gerist sami hlutur. Nú er ég ekki ung lengur og viðmót fólks til mín hefur breyst, sérstaklega þeirra sem horfast ekki í augu við aldurinn.  Það er næstum eins og því fylgi skömm að eldast.

Munurinn er samt sá að nú bý ég yfir reynslu og þroska sem ég bjó ekki yfir þegar ég var ung. Ég hyggst nú nýta mér þennan þroska sem lífið hefur fært mér og langar ógurlega til að gera heiminn að betri stað, meðal annars með því að auðvelda lífið fyrir unga fólkið sem mér sýnist nú eiga í enn meiri vanda með að fóta sig eftir að áhrifa samfélagsmiðla hefur hellst rækilega yfir. Staðreyndin er nefnilega sú að við göngum öll í gegnum svipaða hluti frá því að vera börn yfir í ungling yfir í fullorðna manneskju og svo yfir í miðja aldurinn. Síðan tekur ellin við sem ég hef ekki enn prófað en fæ vonandi að upplifa síðar. En til þess að sá tími geti orðið góður fyrir alla þarf ýmislegt að breytast í samfélaginu okkar.

Eitt af því sem ég ætla mér að gera er að taka þátt í starfi félagsskaparins Aldin sem er félag eldri aðgerðarsinna gegn loftslagsvá. Sem dæmi hvetur Aldin skólayfirvöld nú til að nýta tækifærið og gera kröfur um umhverfisvænar og heilsusamlegar skólamáltíðir sem nú eiga að vera gjaldfrjálsar fyrir öll börn á grunnskólaaldri. Ýmislegt fleira spennandi er í deiglunni hjá félagsskapnum sem verður áhugavert að taka þátt í.

Sólveig Baldursdóttir ágúst 9, 2024 07:00