Umræðan um jafnréttismálin einhæf

Íslenskar konur fengu kosningarétt fyrir 99 árum, en í fyrstu voru það einungis konur yfir fertugu sem máttu kjósa. Lifðu núna ræddi af þessu tilefni við tvær baráttukonur fyrir kvenréttindum, þær Sigríði Erlendsdóttur sagnfræðing og Þórhildi Þorleifsdóttur leikstjóra.   Sigríður segist verða þess vör að ungar konur líti á jafnrétti sem sjálfsagðan hlut, sem sé í sjálfu sér gott. En henni finnst umræðan um jafnréttismálin einhæf. „Kynbundið ofbeldi er skelfilegt“,segir hún, en þegar það ráði öllu sem rætt er varðandi jafnrétti kynjanna, sé það slæmt. Það megi ekki snúa jafnréttisbaráttunni uppí baráttu gegn körlum því það sé slæmt ef ungir karlmenn séu ekki jafnréttissinnar“. Sigríður telur að það sé á margan hátt betra fyrir konur að eldast en karla, ef þær hafi góða heilsu og búi við góðar aðstæður. Hún telur þetta gilda um konur af sinni kynslóð. „Þær sjá um tengslin í fjölskyldunni“, segir hún „ og halda áfram að gera það og hafa því nóg að gera  þótt þær eldist“.

Missir fyrir samfélagið að nýta ekki reynslu kvenna yfir fimmtugt

Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri segir að öflugasti hópur samfélagsins séu konur komnar yfir fimmtugt.   Á þeim aldri verði kaflaskil í lífi kvenna. Þær séu búnar að koma börnunum sínum upp og hafi víðtæka og mikla reynslu af svo mörgu. Þær hafi reynslu af skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu, atvinnulífinu og af því að bera ábyrgð á börnum og jafnvel eldri foreldrum. „Þær hafa víðfeðmari, fjölbreyttari og dýpri reynslu en karlar á sama aldri“, segir Þórhildur. Það sé aftur á móti ekki mikill áhugi á því í samfélaginu að nýta þessa þekkingu og reynslu. „ Það er gríðarlega mikill missir að því fyrir samfélagið að nýta þessa dýrmætu auðlind ekki til fulls“ segir hún.

Ritstjórn júní 19, 2014 15:42