Alþingi fjallar nær aldrei um málefni eldra fólks

Þórunn Sveinbjörnsdóttir tók við formennsku í Félagi eldri borgara í Reykjavík fyrir einu og hálfu ári. Meðal þess sem kom henni á óvart, er að Alþingi skuli nánast aldrei fjalla um málefni þessa hóps, sem telji tugi þúsunda. Hún segir líka að margir sem eru að nálgast eftirlaunaaldur átti sig ekki á hvaða lífeyrisgreiðslum þeim var lofað. Með lögum frá 1997 sé kveðið á um að lífeyrissjóðir á almenna markaðinum greiði mönnum 56% af 40 ára launum á vinnumarkaði í lífeyri þegar þeir fari á eftirlaun. Það séu margir sem geri sér ekki grein fyrir þessu.

Mikilvægt að undirbúa sig vel

Þórunn segir að lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna sé öðruvísi háttað, þar sem þeir ávinni sér á 40 árum um 70% af laununum í lífeyrisgreiðslur. Svo langt komist fólk á almenna markaðinum ekki, en það geti bætt stöðu sína með séreignasparnaði. Hún segir mjög mikilvægt að menn undirbúi sig vel fyrir efri árin. Til viðbótar við lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun eða lífeyrissjóðum þurfi að einnig að skoða, hafi menn lagt fyrir, hvernig sá sparnaður spilar inní aðrar greiðslur.

Eldra fólk „teppir“ plássin á Landspítalanum

Ekki kann Þórunn skýringu á því hvers vegna málefni eldri borgara séu nánast ekki rædd á Alþingi. Henni finnist líka að þeirri litlu umræðu sem er, hafi verið snúið gegn eldra fólki. Það sé sagt hreint út að þessi hópur teppi pláss á Landsspítalanum. „Er það eitthvað sem kemur fólki á óvart“, segir Þórunn sem veit ekki betur en líkurnar á veikindum aukist með hærri aldri. Það sé eins og verið sé að gera elstu kynslóðina að „vandamálapakka“. „Við erum það bara ekki neitt“ segir hún og bendir á að langflestir eldri borgarar séu sjálfbjarga. „Þessi umræða fer illa með margt eldra fólk, að það sé að taka upp pláss á Landspítalanum. Þetta eru neikvæð skilaboð til þeirra sem eru veikir heima og þurfa meiri heimahjúkrun eða aðstoð frá fjölskyldunni“

Ritstjórn september 23, 2014 13:15