Upphluturinn og ræðan sem aldrei var flutt

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.

Ung stúlka í fjölskyldunni er að fara á ball í Menntaskólanum á Akureyri. Það er væri ekki í frásögu færandi nema af því að hún ætlar að klæðast upphlut samkvæmt gamalli hefð skólans. En hvar fær hún slíkan fatnað? Upphlutur er ekki lengur til á hverju heimili. En það er einn til í minni fjölskyldu. Þetta er upphlutur sem mamma lét sauma á mig þegar ég var á sama aldri og umrædd stúlka.

Ég man ekki nákvæmlega hvernig það þróaðist að mömmu fannst að ég ætti að fá upphlut, enda dýr aðgerð. Ég notaði hann í fyrsta skipti á 1. des balli í MA árið 1966. Ballið var skemmtilegt og ég naut mín. Eftir útskrift fór ég til Arkansas í Suðurríkjum Bandaríkjanna á námsstyrk. Ég fór með eina ferðatösku til ársdvalar. Í henni var ritvélin mín, upphluturinn, nýsaumaður sumarkjóll og þær fáu tuskur sem ég átti. Stelpunum í Systrafélaginu mínu í Fayetteville þótti farangurinn ómerkilegur og buðust til þess að lána mér föt til daglegs brúks.

En svo kom að því. Ég var beðin um að halda Íslandskynningu fyrir karlaklúbb sem hittist einu sinni í mánuði á veitingahúsi. Hádegisverður og einhver dagskrá. Ég var dagskráin þennan dag. Ég klæddi mig í upphlutinn og var með var með ræðuna mína og nokkrar myndir í farteskinu. Karlarnir átu og ég titraði og skalf. Þá kom að því. Sigrún Stefánsdóttir from Iceland is going to tell us about her country. Karlarnir klöppuðu. Fæturnir titruðu undir mér en upp á pallinn komst ég. Ég horfði yfir sviðið. Alvarlegir karlar í jakkafötum. Þeir biðu og ég beið eftir því að fá málið. Ég horfði stjörf yfir matarborðin. Ég kom ekki upp orði. Þetta var sennilega best undirbúna ræðan mín sem aldrei var flutt. Ég hélt að það myndi líða yfir mig á leiðinni aftur í sætið. Enn í dag sé ég þetta allt fyrir mér. Mállaus nemandi frá Íslandi í upphlut!

Viðbrögðin við þessu voru tvíþætt. Ég skráði mig á námskeið til þess að læra að koma fram og ég pakkaði upphlutninum saman. Ég vissi að hann átti ekki neinn þátt í niðurlægingunni en hann var tákn hennar.

Svo liðu árin. Sonardæturnar uxu úr grasi og sem nemendur í MA þurftu þær auðvitað að hafa aðgengi að upphlut. – Þegar mamma þeirra hringdi og spurði um búninginn og hvort þær gætu fengið hann lánaðan var svarið jákvætt. Þær mega ekki bara fá hann lánaðan heldur mega þær eiga hann.

Nú  er hann kominn í þakklátar hendur og sonardæturnar eru  báðar búnar að skarta honum. Aðrar ungar konur í fjölskyldunni hafa fengið hann til þess að fara á ball. Í morgun fékk ég símtal frá systur minni vegna dóttur hennar sem nú er að fara á ballið. Gætir þú nokkuð lagað faldinn og gert við nokkrar saumsprettur á upphlutnum? Litla saumastofan mín fór strax af stað. Viðgerð er lokið, upphluturinn er klár.

Á meðan ég lagaði pilsfaldinn hugsaði ég til elsku mömmu minnar sem af stórhug bað væna konu, Jórunni saumakonu, um að sauma upphlut fyrir dótturina sem var að leggja út í lífið.

Ósigurinn í karlaboðinu í Arkansas hafi ekkert með upphlutinn að gera heldur mínar eigin takmarkanir. Hann var mér lexía. Í stofunni í dag fannst mér loksins, loksins gott að handfjalla þykkt pilsið, og rifja upp sögu þessa búnings. Ég vona að MA nemandinn skemmti sér vel í honum.

Sigrún Stefánsdóttir nóvember 4, 2024 07:00