Varð faðir og afi tveggja barna á einu ári

Þessi tvö láta ekki mikinn aldursmun trufla sig.

Hin fimm ára gamla Liv elskar að tuskast með pabba sínum heima í stofu. Pabbanum Just Gram finnst líka gaman að leika við dóttur sína. Just er 52 ára og í júlí á hann von á barni með hinni 23 ára gömlu Michelle. Það verður því hlutskipti hans að skipta á kúkableyjum og vakna upp á nóttinni við barnsgrát næstu misserin. Ófædda barnið verður fjórðra barn Just. Rætt er við Just og Michelle á vef danska ríkisútvarpsins Lev nu. Lifðu núna ákvað að endursegja og stytta viðtalið.

Just tilheyrir hópi karla sem stofna nýja fjölskyldu með nýrri konu eftir miðjan aldur. Á sama tíma voru dóttir hans og sonur að eignast sín fyrstu börn. Það var geggjað þegar ég sagði þeim fyrir fimm árum að ég væri að fara að eignast barn því um leið tilkynntu þau mér að þau ættu von á sínum fyrstu börnum. Á einu ári varð ég faðir og afi tveggja barna.

Just var rétt orðin fimmtugur þegar leiðir hans og móður Liv skildu. Það var svo í ágúst 2015 sem Just ákvað að setja færslu inn í lokaðan hóp einstæðra foreldra á fésbók. Þar sagðist hann langa til að fara á ströndina með öðrum einstæðum foreldrum og börnum þeirra. Það var bara Michelle sem svaraði en hún kvaðst ætla að koma með son sinn William. Skötuhjúin hittust svo og áttu saman dag á ströndinni. Michelle leist vel á Just og stakk upp á því að þau myndu hittast fljótlega aftur. Hann spurði hvort hún vissi hvað hann væri gamall. Just sagði henni á endanum að hann væri nýorðinn fimmtugur og hún sagði honum þá að hún væri 21 árs. Skötuhjúunum féll vel hvoru við annað og ákváðu að láta aldursmuninn ekki stoppa sig. Just hafði líka skömmu áður átt miklu yngri kærustu en móðir Liv var 22 árum yngri en hann. En hvers vegna féll hann fyrir hinni 21 árs gömlu Michelle. Hún er falleg og það er gott að halda uppi samræðum við hana þrátt að aldursmunurinn sé mikill, segir Just. Michelle hafði áður verið með mönnum sem eru á svipuðum aldri og hún sjálf. Mér fannst hann myndarlegur, sjarmerandi og með mikla útgeislun segir hún og bætir við að þroski hans og reynsla hafi líka skipt hana miklu máli.  Hún kjósi rólegt líf. Hún nenni ekki út að skemmta sér allar helgar. Jafnaldrar hannar af hinu kyninu kjósi annarskonar lífsmáta.

Just gæti auðveldlega verið faðir Michelle. Hann á tvö börn sem eru eldri en Michelle, en aldursmunurinn á þeim er 29 ár.  Hún er yngri en bæði dóttir hans og sonur. Þau segja fjölskylda og vinir hafi sett spurningarmerki við þennan mikla aldursmun. Þau segja að fólk hafi lýst hneykslun sinni þegar þau voru búin að stofna heimili með börnum sínum.  Sumir halda að ég sé „sugar daddy“ og borgi Michelle fyrir að vera með mér. Sumir hafa gengið svo langt að spyrja mig hreint út hversu ungar konur ég vilji og hversu langt niður í aldri ég sé tilbúin að fara. Mér finnst þessar spurningar hljóma eins og hver annar brandari, segir hann.

Við höfum vissulega orðið fyrir talsverðum fordómum. Það tók á okkur fyrst en í dag hugsum við ekki svo mikið um það. Við vitum að það verða alltaf einhverjir fordómafullir í okkar garð en við erum hætt að velta okkur upp úr því, segja þau.

Michelle segir að þau deili öllu til helminga og það ríki jafnræði í sambandi þeirra. „Það vita allir sem þekkja okkur. Sú ró sem Just hefur finn ég ekki hjá 25 ára manni“, segir hún. Sonur og dóttir Just líta á Michelle sem kærustu föður síns og hafa ekki lengur áhyggjur af því að þau séu nokkrum árum eldri en hún. Þau segjast ekki vilja blanda sér í ástarsambönd föður síns segja að hann einn taki ábyrgð á sér.  Öðru máli gegnir um systkini Justs og maka þeirra. Þeim finnst sambandið vafasamt og hafa enga trú á að það gangi til lengdar.

Bæði Just og Michelle hlæja þegar þau eru spurð hvað þau eigi eiginlega sameiginlegt. Just svarar eftir smá umhugsun. Við höfum sömu hugmyndir um hvað hver eigi að gera. Ég er handlaginn og get séð um allar smáviðgerðir og garðinn en Michelle sér um þrif og þvotta. Við vitum líka bæði að það er nauðsynlegt barnanna vegna að hafa heimilislífið í föstum skorðum. Bæði segjast þau kjósa rólegt fjölskyldulíf.

Dagsdaglega hugsa ég ekki svo mikið um að ófædda barnið eigi föður sem verður 68 ára þegar það byrjar í fermingafræðslu. „Ég elska börn“, segir Just og bætir við að hann sé miklu þolinmóðari faðir nú en hann var þegar eldri börnin fæddust.

Just og Michelle voru spurð hvor þau óskuðu þess aldrei að þau væru jafnaldrar. Þau viðurkenna að það komi fyrir en eftir því sem tíminn líði þá sé það sjaldnar og sjaldnar. Ég sagði oft við Michelle þegar við vorum að byrja að vera saman: „Hugsaðu þér þegar þú verður fimmtug þá verð ég 79 ára ef ég lifi svo lengi. Auðvitað hef ég líka áhyggjur af því hversu lengi ég verð til staðar fyrir ófædda barnið mitt“, segir hann.

Ritstjórn maí 9, 2018 11:29