„Jólin byrjuðu alltaf klukkan sex“

Hlín Agnarsdóttir leikstjóri og rithöfundur ólst upp í miðbænum í Reykjavík til að byrja með en síðar á Brávallagötunni í vesturbænum. Það var nóg að gera á hennar heimili fyrir jólin enda voru þau systkinin sex, öll á svipuðum aldri nema sá yngsti.

Stundum hurfu kökur úr boxunum

„Jólakvíði fór að gera vart við sig í desember. Þá var byrjað að taka eldhúsið í gegn  og þrífa alla skápa í íbúðinni. Þetta var hin svokallaða jólahreingerning. Öll gluggatjöld voru þvegin og teppi ryksuðuð í tætlur“, rifjar Hlín upp.   Á aðventunni kom svo föðuramma barnanna til að hjálpa  mömmu þeirra að baka smákökurnar. Hún bakaði til dæmis hálfmána og loftkökur en alls voru átta kökutegundir bakaðar á heimilinu. „Kökurnar voru settar í box og það vildi brenna við að hluti af þeim hvarf úr boxunum og það var heilmikill hasar í kringum það. Stundum þurfti jafnvel að baka uppá nýtt“, segir Hlín.

Stórkostlegt að fá þetta epli

„Ég man hvað það var æðislegt þegar ég byrjaði í skóla að fara á Litlu jólin. Þá var búið að skreyta í skólanum og okkur var öllum úthlutað einu rauðu epli. Það var stórkostlegt að fá þetta epli. Þetta var í kringum 1960 og þá voru ávextir ekki til nema á jólunum. Það var mikil tilhlökkun að fá epli og appelsínur og pabbi kom heim með fulla kassa af þessum ávöxtum. Á þessum tíma voru ávextir ekki fluttir inn nema fyrir jólin“, segir Hlín.

Jólakortin lesin upphátt fyrir fjölskylduna

Hún rifjar upp hvernig húsin voru skreytt. „Það var ekki jafn mikið um jólaseríur og nú er, það var bara sería á jólatrénu. Ég man eftir foreldrum mínum að hengja upp í loftið músastiga. Þeir náðu milli horna í herbergjum og mér þótti þetta rosalega flott. Mamma var mikil jólakortakona og skrifaði óhemju mikið af jólakortum og við fengum líka sjálf mikið af jólakortum. Það var fastur liður á aðfangadagskvöld, þegar búið var að deila út gjöfunum að drekka kakó og borða smákökur. Þetta var um tíu leytið um kvöldið og þá voru jólakortin opnuð og lesin upphátt fyrir alla fjölskylduna.

Styttu sér stundir við að telja bíla

Hlín segir að það hafi ekki verið mikið stress hjá fjölskyldunni á sjálfan aðfangadaginn. Foreldrarnir voru að undirbúa matinn og ýmislegt fyrir jólin og settu börnin inní herbergi á meðan. Þar héngu þau úti í glugga og fylgdust með þeim sem voru að koma með pakka til gamla fólksins á Grund, en þau bjuggu á móti Elliheimilinu. „ Við styttum okkur stundir við að telja bílana sem komu og flokka þá eftir tegundum. Við töldum hversu margir Skodar og hversu margir Volkswagen bílar komu og þar fram eftir götunum“, segir hún. 

Alltaf sami matseðill á aðfangadagskvöld

Jólin byrjuðu alltaf klukkan sex og  þá voru föðurforeldrar barnanna alltaf boðin. Hlín segir að það hafi verið hátíðleg stund að sjá þau koma prúðbúin inn út myrkrinu.  Enn þann dag í dag, hefjast hennar jól ekki fyrr en klukkan sex. „Mér finnst þetta fallegur siður og á slaginu sex var fólk tilbúið  til að óska hvert öðru gleðilegra jóla. Ekki fyrr og ekki síðar“, segir hún og bætir við að það hafi alltaf verið sami matseðillinn á aðfangadagskvöld. „Það var rjómalöguð aspassúpa í forrétt, síðan svínakótelettur í raspi með ananas sneið ofan á og alltaf heimalagaður ís í eftirrétt. Svo bauð pabbi fullorðna fólkinu uppá rauðvín. Amma var bindindismanneskja en hún fékk samt vínglas og rak tunguna ofan í glasið okkrum sinnum og það tísti alltaf í henni á eftir. Afi var aftur á móti alkahólisti og túramaður“, segir Hlín. „ Þetta var ekki trúað heimili en alltaf suðaði messan í dómkirkjunni lágt úr útvarpinu undir borðhaldinu“.

Peningakassi frá Ameríku

Hlín segir að þau börnin hafi fengið rausnarlegar jólagjafir frá foreldrum sínum og afa og ömmu. „Ég man eftir að hafa fengið peningakassa frá Ameríku. Pabbi þekkti flugstjóra sem verslaði fyrir hann í Ameríku fyrir jólin. „Við fengum rosalega flotta jólakjóla og það voru skautar og svo þessi peningakassi. Maður sló inn tölurnar og hann hringdi þegar skúffan opnaðist. Ég bjó til heila kjörbúð úti í porti hjá okkur þar sem kassinn var notaður. Ég man líka eftir góðri jólagjöf sem var uppblásinn sundkútur í líki guls svans. Þetta var á sjöunda áratugnum“.

Fjölskylda Hlínar á jólunum 1960

Nýklippt á nýjum skóm

„Mamma lagði mikið uppúr að við værum fín á jólunum, á nýjum skóm og nýklippt. Sjálf var hún í nýsaumuðum kjólum og pabbi með skyrtuhnappana. Þó þetta væri svona fínt á yfirborðinu, bjó mikið tilfinningaóöryggi undir, því pabbi var harðstjóri“, segir Hlín. „Við bjuggum ekki við efnalega fátækt, foreldrar mínir voru harðdugleg að reka þetta stóra heimili, en það var ekki gefinn kostur á samtölum við börnin eða rólegum stundum þar sem menn töluðu saman“.

Tveggja ára jólasveinn

Einn atburður er Hlín sérlega minnisstæður frá jólum bernskunnar. Fimm systkinanna sex, fæddust á fimm árum, en svo kom örverpi árið 1960. „Þegar hann var tveggja ára klæddu pabbi og mamma hann í jólasveinabúning. Svo var bankað á dyrnar á aðfangadagskvöld og þá stóð þessi litli jólasveinn fyrir utan. Við urðum alveg steinhissa og höfðum aldrei séð svona lítinn jólasvein. En þetta skapaði mikla gleði“. Hlín segir að í endurminningunni hafi aðfangadagskvöldið alltaf verið skemmtilegt. Kakó og smákökur gerðu sitt til að skapa stemmingu og svo fengu börnin bækur í jólagjöf og lásu fram á nótt. „Svona var þetta og er kannski einhvers staðar enn“, bætir hún við.

Alltaf gaman á jólunum

„Ég minnist þess bara að það hafi verið gaman á jólunum. Ég hlakkaði til að punta mig og borða góðan mat. Svo auðvitað að taka upp gjafirnar. Það er gaman að geta rifjað þetta upp á jákvæðan hátt“.  Jólahangikjötið var svo á borðum á heimili Hlínar á jóladag.

Ritstjórn desember 23, 2021 08:17