Ásmundur Magnús Hagalínsson fagnaði nýlega níutíu og fjögurra ára afmæli og útkomu sinnar fyrstu ljóðabókar á sama tíma. Bókin heitir Hvammur eftir æskuslóðum hans og hugur skáldsins leitar oft vestur á firði. Í bókinni er líka að finna falleg ástarljóð til konu hans og börn hans fá um sig vísur, einnig er þar að finna ljóð ort til minningar um menn og málefni, ferðasögur og íhuganir höfundar. Magnús hefur sannarlega lifað tímana tvenna og í ljóðum hans má greina ekki bara ævisögu eins manns heldur einnig sögu þjóðar.
Æskuheimili Magnúsar heitir Bræðratunga og er í landi Hvamms í Dýrafirði. Foreldrar hans hétu Hans Hagalín Ásbjörnsson og Guðmunda Lárusdóttir. Þau eignuðust þrettán börn en misstu tvö.
„Við vorum ellefu systkinin, sex strákar og fimm stelpur. Það var til skekta á heimilinu og það var róið út á fjörðinn flesta daga til að fiska. Þannig var það á flestum búum. Það bjargaði því að hægt væri að búa þarna. Þetta var kot. Við vorum með tuttugu og þrjár kindur, tvær kýr og einn hest.“ Eins og var algengt var á þessum tíma tók Magnús þátt í bústörfum og sjómennsku frá því hann gat valdið hrífu og ár.
Var hagmælt fólk í fjölskyldunni annað en þú sjálfur?
„Guðmunda, móðir mín, skrifaði oft ljóð á miða. Gömlu dagatölin sem rifið var af daglega, miðar með tölustöfum hún skrifaði gjarnan aftan á þá. Hún lagði ljóðin á bak við kaffistellið í eldhúsinu og þaðan gufaði þetta oftast upp. En ég laumaðist í það og las. Hennar ljóð fóru hins vegar ekki á fleiri blöð.“
Sýndi bíómyndir á Þingeyri
Á unglingsárum starfaði hann í vegavinnu, á snurvoðarbát og við síldveiðar. Hann lærði málmiðn í Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri og útskrifaðist sem vélstjóri frá Vélskóla Íslands árið 1957.
„Ég lærði í frægustu smiðju á landinu,“ segir hann. „Ég hjólaði á milli Bræðratungu og Þingeyrar kvölds og morgna til að fara í vinnu um það bil 5 km leið. Þetta var mikil vinna og ekki há laun, lærlingskaupið. Svo lenti ég í að sýna kvikmyndir í bíóinu á Þingeyri. Mér var boðið starf sýningarstjóra og fyrir það voru mjög góð laun og mikið betri en fyrir vinnuna í smiðjunni. Ég sýndi í bíóinu í fjögur ár og á hátíðisdögum var sýnt tvisvar til þrisvar á dag. Um verzlunarmannahelgar voru stórar hátíðir og þá var alltaf fullur salur. Það voru sýndar margar virkilega góðar myndir með Sophiu Loren og fleiri stjörnum og massi af kúrekamyndum.“
En líkt og títt var um ungt fólk á þessum árum settist Magnús að í Reykjavík að loknu námi í Vélskólanum. Hann kynntist Önnu Bjarnadóttur, eiginkonu sinni fyrst á íþróttamóti á Núpi í Dýrafirði árið 1951. Í það sinn náðu þau ekki saman en þegar þau hittust aftur í Reykjavík árið 1959 kviknaði ástin og brann heit þar til Anna lést árið 2007. Um það vitna mörg ljóða Magnúsar ekki síst.
Magnús vann sem vélstjóri á togurum og fraktskipum og sigldi með fisk til New York. Hann tók einnig þátt í að sækja skip til Noregs og Hollands til að fylgjast með niðursetningu og frágangi á vélbúnaði. Árið 1969 hóf hann störf hjá ÍSAL í Straumsvík, þar sem hann starfaði við viðhald og eftirlit í meira en þrjátíu ár. Vinnan hefur áreiðanlega verið krefjandi og áreiðanlega oft ekki gefist mikill tími til að yrkja.
„Þessi bók varð til úr sneplum, blöðum, stílabókum og tölvunni,“ segir hann. „Fyrsta vísan var skrifuð þegar ég var tólf ára.“
Steinhissa á hvað mikið fannst af ljóðum
Aðalheiður dóttir hans bætir við að um alla íbúð hafi fundist ljóð á lausum blöðum. Hún fékk hugmyndina að því að safna þessu saman í bók. „Já, heldur betur,“ segir Magnús. „Ég bjóst raunar aldrei við að þau fyndu svona mikið, varð alveg steinhissa.“
Hvað fannst þér skemmtilegast við að setja saman vísur og yrkja ljóð?
„Það var bara að varðveita minninguna. Ég las margar Íslendingasögur og þaðan kom áhuginn. Þegar við fórum í ferðalög þá yfirleitt komu vísur. Það komu löng tímabil þegar ekki komu nein ljóð. Ég fékk engan áhuga á að skrifa þegar ég var á sjó en ég stundaði sjóinn í fjórtán ár. Konan sagði ef þú hættir ekki þessum sjóskakstri ætla ég að skilja við þig. Þá hætti ég.“
Úr Íslendingasögunum fékk Magnús líka mikinn orðaforða og hann hreifst af fornyrðislagi og nokkur kvæði í bókinni eru ort undir þeim bragarhætti. Í hvert sinn sem Magnús og Anna fóru vestur í Hvamm skildi hann eftir vísur í gestabókinni. Hann gladdi gjarnan vini og ættingja með vönduðum afmælisvísum.
Þeir sem hafa áhuga á að eignast ljóðabókina Hvammur geta í Aðalheiði í síma 896 3021.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.