Varnarlaus eftir Jónínu Leósdóttur

Adam er rétt mættur í vinnuna á sálfræðistofunni Sáló þegar barni er rænt úr afgreiðslunni. Síðar sama morgun vélar fyrrverandi eiginkona hans, rannsóknarlögreglukonan Soffía, hann til að taka að sér mál sem Adam er viss um að stangast alvarlega á við siðareglur stéttarinnar. Til að flækja lífið enn frekar haga aldraðir foreldrar hans í Englandi sér stórundarlega og leyndarmálið um Jennýju, hliðarsjálfið sem lakkar á sér neglurnar þegar enginn sér til, er sífellt á barmi þess að komast upp.

Jónínu tekst að fanga lesandann á fyrstu síðum bókarinnar og skemmtileg fléttan kemur á óvart,

Jónína Leósdóttir hefur getið sér gott orð fyrir bækur sínar, meðal annars glæpasögurnar um eftirlaunakonuna Eddu á Birkimelnum. Varnarlaus er tuttugasta bók hennar og önnur sagan um Adam og Soffíu, en sú fyrsta, Launsátur, hlaut frábærar viðtökur.

 

Við grípum niður í einum kafla bókarinnar:

Adam hafði beðið Pandóru um að hitta sig á Sáló hálftíma áður en formlegur vinnudagur þeirra hæfist. Hann þurfti á nánari upplýsingum um Jórunni að halda sem allra fyrst. Þau komu sér fyrir inni á skrifstofu Adams, hún með þykka, bláa möppu á hnjánum.

   ,,Var jórunn svona lengi hjá þér?“ Hann benti á bústnu skjalaskrána sem Pandóra var byrjuð að blaða í.

   ,,Ja, af og til í rúmt ár.“ Hún leit upp fá fúskinu. ,,En þetta eru ekki allt punktar frá mér, ég prentaði líka út talsvert af fræðigreinum þegar ég var að hitta hana. Það hafa verið gerðar rannsóknir á þessu um allan heim og mér fannst þetta áhugavert.“

   ,,Kom konan beinlínis út af aldurskvíða?“

   ,,Nei, út af streitu af óskilgreindum orsökum, svo skýrðist þetta smám saman.“ Pandóra hélt áfram að fletta á meðan hún talaði. ,,Það var heimilislæknir sem ráðlagði Jórunni að fara til sálfræðings, hún kom dálítið oft á heilsugæsluna út af höfuðverk sem engin ástæða fannst fyrir.“

   ,,Og hætti hausverkurinn á meðan hún var hjá þér?“

   ,,Ja, hann skánaði mikið. En ég veit náttúrlega ekki hvernig hún er núna. Í póstinum sem hún sendi mér nefndi hún ekki höfuðverk en sagðist vera hjá þér í áfallahjálp.“

   Pandóra var augljóslega forvitin en spurði samt ekki beint út hvaða áfalli Jórunn hefði orðið fyrir. Enda hafði konan aðeins gefið leyfi fyrir því að Adam fengi upplýsingar frá Pandóru, ekki öfugt.

   ,,Geturðu sagt mér frá henni í örstuttu máli.“ Adam vissi að það væri ekki auðvelt að gera rúmlega árs sálfræðimeðferð almennilega skil á nokkrum mínútum.

,,,Pandóra stansaði við handskrifað blað, renndi fingri niður línurnar um leið og hún las í hljóði og bærði varirnar. Loks leit hún upp.

Ritstjórn nóvember 29, 2022 08:16