Veisla fyrir tvo

Flestar uppskriftir eru miðaðar við fjóra þannig að til þess að laga þær að heimili þar sem aðeins búa tveir þarf að minnka um helming. Kannski ekki flókið en oft óskar maður þess að fá upp í hendurnar eitthvað sem smellpassar og ekki þarf að eiga við. Það er gaman að elda, leika sér að hráefnum og því að setja saman matseðla. Hér er hugmynd að veislu fyrir tvo.

Forréttur

Graflax með rækjum og limesósu

200 g graflax

Rækjur eftir smekk

Mjög gott er að bera fram með þessu um það bil matskeið af sýrðu grænmeti, til dæmis Klassískt frá Súrkál fyrir sælkera eða Sítrónukálið ljúfa frá sama fyrirtæki.

Limesósa

¼ bolli sýrður rjómi

2 tsk. límónusafi

2 msk. fersk saxað dill

1 tsk. svartur pipar

½ tsk. pressaður hvítlaukur

Smávegis salt

Aðalréttur

Grísakóttilettur með rabarbara

2 stórar grísakótilettur eða 4 litlar

2 msk. hveiti

2 tsk. salt

2 tsk. pipar

2-3 msk. smjör

2 stilkar rabarbari

1 msk, hunang

1/8 tsk. kanil

1-1/2 msk. steinselja

Setjið hveitið í skál og kryddið með salti og pipar. Veltið kótilettunum upp úr hveitinu og steikið upp úr smjörinu á pönnu í 4-5 mínútur á hvorri hlið. Takið þær af pönnunni og haldið heitum í ofni. Skerið rabarabarann í bita og setjið á pönnuna ásamt hunanginu og kanilnum og steikið þar til rabarbarinn er mjúkur. Setjið eina kótilettu á hvorn disk og rabarbarann ofan á. Berið fram meðlæti að eigin vali. Margt á hér vel við t.d. franskar kartöflur, baunir eða salat.

Eftirréttur

Eplakaka með crumble (mylsnu)

2 epli kjarnhreinsuð og skorin í bita

2 tsk. kanilsykur

1 msk. sítrónusafi

Veljið tvö lítil form sem taka eitt epli hvort um sig. Komið eplabitunum fyrir í þeim og dreypið svolitlum sítrónu safa yfir og svo kanilsykrinum.

Mylsna

2 msk. smjör

2 msk. hveiti

1 msk. sykur

1 tsk. haframjöl

Hitið ofninn í 180° C. Blandið saman öllum hráefnunum. Þau verða þá að myslnu sem dreift er yfir eplin. Bakið þar til mylsnan er orðin fallega brún. Berið fram með vanilluís eða þeyttum rjóma.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 27, 2024 07:00