Verður dánaraðstoð að veruleika hér á landi?

Sjö alþingismenn flytja í þriðja sinn á Alþingi þingsályktunartillögu um dánaraðstoð, en hún snýst um að binda enda á líf af ásetningi, til þess að leysa viðkomandi undan óbærilegum sársauka eða þjáningum. Bryndís Haraldsdóttir frá Sjálfstæðisflokki er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, en meðflytjendur eru: Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson og Guðjón Brjánsson.

Heilbrigðisráðherra er í tillögunni  falið að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð, sem og tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar og hver reynslan hefur verið.  Þá er lagt til að athugað verði í löndum sem ekki leyfa dánaraðstoð, einkum Norðurlöndum, Þýskalandi og Kanada, hvort opinber umræða sé um málið þar eða unnið að lagabreytingum. Einnig verði gerð skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar, annars vegar hvort starfsmenn telji dánaraðstoð vera réttlætanlega í ákveðnum tilfellum og hins vegar hvort þeir væru tilbúnir að verða við slíkti ósk að uppfylltum skilyrðum og að því gefnu að það samræmdist íslenskum lögum.

Í greinargerð með tillögunni segir að hún hafi tvisvar áður verið lögð fyrir Alþingi. Ennfremur segir í greinargerðinni.

 Á síðustu árum hefur reglulega komið upp umræða í íslensku samfélagi um dánaraðstoð, líknardráp eða sjálfsvíg með aðstoð. Ljóst er að umgjörð um þetta viðkvæma mál er mismunandi eftir löndum.
Dánaraðstoð er þýðing á gríska orðinu evþanasía (góður dauði/að deyja með reisn) sem merkir að binda enda á líf af ásetningi til þess að leysa viðkomandi undan óbærilegum sársauka eða þjáningum. Í nóvember 2015 lét Siðmennt gera könnun á lífsskoðunum og trú Íslendinga. Ein spurninga í könnuninni var: „Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði)?“ 74,9% aðspurðra voru mjög eða frekar hlynnt því, 18% voru hvorki né en 7,1% mjög eða frekar andvíg.
Árið 1997 birtist grein í Læknablaðinu þar sem fjallað var um rannsókn á afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til siðfræðilegra álitamála um takmörkun meðferðar við lífslok. Í umræddri rannsókn var ein af spurningunum um dánaraðstoð eða líknardráp eins og það var kallað í rannsókninni. Aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga töldu líknardráp réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum en einungis 2% svarenda gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk. Árið 2010 þegar sambærileg könnun var gerð var niðurstaðan sú að líknardráp þótti réttlætanlegt hjá 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga en aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk.
Í janúar 2017 voru stofnuð samtökin Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð. Í kjölfar stofnunar samtakanna, svo og skoðanakönnunar Siðmenntar sem hér er vísað til, spruttu upp umræður í samfélaginu um málefnið. Flutningsmenn þessarar tillögu telja að forsenda þess að umræðan geti þroskast og verið málefnaleg sé að fyrir liggi upplýsingar um stöðu þessara mála í öðrum löndum, svo og um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks. Mikilvægt er að stjórnvöld safni þeim upplýsingum saman og setji fram á skýran og hlutlausan hátt.
Tillaga þessi felur ekki í sér afstöðu til þess hvort ástæða sé til að breyta lögum hérlendis. Tilgangurinn er að treysta grundvöll nauðsynlegrar umræðu um viðkvæmt mál.

Við þetta má bæta að nýlega gengust samtökin Lífsvirðing fyrir málþingi um dánaraðstoð og líknandi meðferð, en íslensk lög heimila ekki dánaraðstoð. „Eftir að við stofnuðum félagið, í janúar 2017, þá vitum við allavega um fjóra einstaklinga sem eru í dag að sækja um dánaraðstoð í Sviss,“ sagði Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar í samtali við Visir.is.
Meðal framsögumanna á málþinginu voru læknar frá Belgíu og Hollandi sem eru á meðal fremstu sérfræðinga í Evrópu um dánaraðstoð og líknandi meðferðir.

Ritstjórn september 27, 2018 15:47