Sigmundur Guðbjarnarson prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands hefur rannsakað heilsujurtir og skrifað greinar og bloggað um málið. Hann bendir á að einstaklingurinn sé ábyrgur fyrir eigin heilsu og verði að taka frumkvæðið að eigin heilsurækt. Hann geti styrkt eigin forvarnir og bætt heilsu með líffstíl sínum, bæði mataræði og hreyfingu. En hvers vegna er grænmeti hollt? Hvaða efni eru að verki og hvernig virka þau? Í athyglisverðri grein í blaði Landssambands eldri borgara Listin að lifa árið 2010 svarar Sigmundur þessum spurningum þannig.
Rannsóknir á ætihvönn, sem er ein elsta matjurtin á Norðurlöndum, sýna hvaða heilsubótarefni eru í jurtinni og hvernig þessi efni virka til að styrkja forvarnir og efla heilsuna. Þessi heilsubótarefni eru einnig í mörgum matjurtum af sömu ætt svo sem sellerí (blaðselju), parsley (steinselju), nípu, gulrótum, kúmen, fennel o.fl. Í grænmeti og ávöxtum eru fjölmörg efni sem styrkja forvarnir líkamans gegn ýmsum sjúkdómum. Þekkt eru mörg slík efni, t.d. ýmis vítamín og má þar nefna C-vitamin sem læknar skyrbjúg og fyrirbyggir þann sjúkdóm. Er nú verið að leita þekkingar á fleiri slíkum efnum sem gætu verið mikilvæg fyrir forvarnir og til lækninga. Jurtir framleiða ýmis efnavopn en þessi varnarvopn geta einnig gagnast mönnum t.d. í baráttunni við sýkla. Menn eru sífellt að leitast við að bera kennsl á þessi efni og kanna hvort og hvernig þau gætu þjónað þeim“.
Sigmundur fjallar í greininni um jákvæð áhrif heilsujurta, á ýmsa algenga sjúkdóma og hér verður rakið það sem hann segir um áhrif þeirra á krabbamein. Hann segir grænmeti hafa krababmeinshamlandi efni sem geti stöðvað krabbamein á forstigi og líka stöðvað vöxt krabbameinsfruma.
Krabbameinshamlandi eiginleikar jurtaefna eru vel þekktir enda er meirihluti efna (yfir 60%) sem eru notuð í lyfjameðferð við krabbameini ættuð úr plönturíkinu. Forvarnir byggja á því að neyta krabbameinshamlandi efna úr jurtaríkinu og koma í veg fyrir þróun krabbameinsins og eyða afbrigðilegum frumum áður en þær ná að mynda æxli.
Virkar jurtir eru: brokkoli, gulrætur, ætihvönn, kál, blaðselja (sellerí), laukur, tómatar, sojabaunir, vínþrúgur, salat, bláber, grænt te, karrý, o.fl.
Áhrif jurtaefna: hindra nýmyndun á krabbameinsfrumum, hindra fjölgun á krabbameins-frumum, örva sjálfstýrðan frumudauða á afbrigðilegum frumum, hindra að krabbameinsfrumur myndi æxli (hindra t.d. nýæðamyndun).
Krabbamein er talið geta orsakast af breytingum á erfðaefninu af völdum efna úr umhverfinu t.d. úr mat, vatni og mengun og af sólarljósi eða veirum. Skemmdir á þessum genum eða stökkbreyting geta raskað stjórnun á frumustarfseminni. Þessi röskun getur leitt til aukinna frumuskiptinga og frumufjölgunar sem getur valdið myndun á æxli. Ef stjórnun væri eðlileg mundi fruma sem hefur skaðast og er afbrigðileg, t.d. af umhverfisþáttum eða veirum, vera eytt með stýriferli sem nefnist sjálfstýrður frumudauði. Þessi eyðing á sködduðum frumum er leið lífverunnar til að viðhalda eðlilegri starfsemi.
Unnt er að hafa áhrif á þróun krabbameins með því að hindra: a) myndun á krabbameinsfrumum, b) fjölgun á krabbameinsfrumum, c) vöxt á krabbameinsæxli“.
Sjá grein Sigmundar í Listin að lifa.