Vetrarsólstöðu tónleikar og Jólasaga Dickens

Næstkomandi laugardag þann 21. desember kl. 16 heldur Svavar Knútur Vetrarsólstöðutónleika Hannesarholti og daginn eftir kl. 13 sýnir Níels Thibaud Girerd Jólasögu Dickens í Girerd í Leikhúsinu.

Svavar Knútur á leið um borg óttans til að hnusa af nýjustu fjölskyldumeðlimunum og knúsa vini og vandamenn. Því þótti alveg rakið að heimsækja Hannesarholt og halda eitt stykki notalega vetrarsólstöðutónleika með veraldlegu ívafi en kryddaða smávegis jólastemmara, rétt korter í jól. Tónleikarnir verða sumsagt kl. 16.00 laugardaginn 21. desember.
Í tilefni útgáfu nýrrar plötu sinnar, tvöfaldrar vínyl-plötu, Ahoy! Side B og Ahoy, mun Svavar Knútur auðvitað verða með varning og gleði til sölu fyrir þá sem enn þykir tónlist vera falleg jólagjöf. Þá verða líka til sölu nokkrar skemmtilegar bækur sem söngvaskáldið heldur upp á.

Eins og Svavars er von og vísa verða tónleikarnir með einföldu sniði, einungis söngvaskáldið og kassagítarinn, ukulele-ið og mögulega píanó til að veita þeim frekari selskap. Ekkert fluss, gervisnjór, ljósasjó, sérstakir gestir, stórsveit eða flottheit önnur en þau sem viðstaddir taka með sér. Miðaverð er 4,900 á Tix.ishttps://tix.is/event/18842/vetrar-solstodutonleikar-svavars-knuts. Börn eru hjartanlega velkomin með foreldrum eða öðrum ættingjum og er ókeypis fyrir þau.

Jólasaga eftir Charles Dickens

Daginn eftir eða sunnudaginn 22. desember verður Girerd Leikhúsið með sérstaka sýningu á Jólasögu eftir Charles Dickens, allir þekkja þessa fallegu og klassísku sögu og því mjög áhugavert að sjá hvernig íslenskur leikari fer með efnið. Níels Thibaud Girerd leikur og leikstýrir sjálfur.

Hann stofnaði Girerd leikhúsið árið 2003 þá aðeins 10 ára gamall og hefur það verið starfrækt óslitið síðan. Listamenn leikhússins eru playmókallar og hafa þeir allir verið starfandi frá stofnun þess þótt hingað til hafi sýningar fyrst og fremst verið sýndar fjölskyldu Níelsar en síðastliðin ár hefur leikhúsið opnað dyr sínar almenningi.

Girerd leikhúsið kynnir nú í samstarfi við Hannesarholt Jólasögu Charles Dickens í leikgerð Níels Thibaud Girerd. Þetta er sannkallað jólaævintýri sem lætur engan ónsnortinn og er þetta tilvalin sýning fyrir allan aldur en er sérlega hentug fyrir foreldra sem vilja senda barnið sitt á sýninguna á meðan gjöfum þeirra er pakkað inn. Verið hjartanlega velkomin í Girerd leikhúsið um hátíðarnar í Hannesarholti. Sýning tekur 18 mínútur og ekkert hlé er gert á sýningunni. Frítt inn.

Ritstjórn desember 19, 2024 09:25