Einmana á sextugs- og sjötugsaldri

Breytingar sem verða á högum fólks á sextugs og sjötugsaldri geta ýtt undir að fólk fyllist einmanakennd. Þetta geta verið breytingar eins og starfslok, uppsögn úr starfi, skilnaður eftir langt hjónaband, fráfall maka eða náins vinar eða að börnin fara að heiman. Um það bil fjórir af hverjum tíu á aldrinum 52 til 71 árs telja sig einmana í Bandaríkjunum, samkvæmt nýlegri könnun Cigna. Í könnuninni kemur fram að þeir sem telja sig félagslega einangraða búa við verri heilsu en þeir sem eiga gott tengslanet. Það sama hafa raunar ótal aðrar kannanir sýnt fram á. Einmanaleiki og félagsleg einangrun fólks er talin auka líkurnar á hjartasjúkdómum og heilablóðfalli, sykursýki, mígreni og slæmum nætursvefni.  Einmanaleiki og að vera einn eru tveir ólíkir hlutir. Það er hægt að upplifa sig einmana innan um annað fólk, svo eru aðrir sem telja það til lífsgæða að vera einir og geta hagað málum sínum eins og þeim sýnist.

Það er erfiðara að kynnast nýju fólki eftir fimmtugt en þegar fólk var ungt. Það getur tekið tíma að byggja upp ný vináttusambönd en það er þess virði að reyna og gefast ekki upp á miðri leið. Fólk ætti að leitast við að kynnast fólki sem hefur svipuð áhugamál og það sjálft. Ef fólki finnst gaman að lesa bækur ætti það að koma sér í bókaklúbb. Ef því finnst gaman að fara í gönguferðir út í náttúrunni ætti það að ganga í félög sem bjóða upp á slíkar göngur. Mörgum hefur líka gengið ágætlega að sigrast á einmanaleikanum með því að bjóða sig fram til sjálfboðaliðastarfa, til dæmis hjá Rauða krossinum. Það er fátt jafn gefandi fyrir sálina og hjálpa öðrum.

Sumu einmana fólki finnst það ekki fá nóg út úr samböndum sínum við vini og kunningja og þá er um að gera að reyna að breyta samböndunum.  Stingið upp á að gera eitthvað skemmtilegt, fara saman í leikhús, út að borða, í karókí eða á dansnámskeið. Það að gera eitthvað jákvætt og skemmtilegt saman styrkir sambönd fólks.

Svo eru það börnin í fjölskyldunni. Að umgangast þau getur verið hin besta skemmtun og létt lundina. Af hverju ekki að biðja börnin að koma í göngutúr, á námskeið eða í ferðalag með ykkur.

Tengslanet fólks breytist ekki á einni nóttu en ef fólk reynir að bæta það hefst það yfirleitt. Byrjið smátt og bætið í. Heilsið nágrönnum ykkar. Talið við þá sem þið hittið í búðinni, í gönguferðum. Brosið til þeirra sem eru annað hvort miklu yngri eða eldri en þið.

Í Cigna könnuninni kemur fram að fólk ætti að reyna að eiga í góðum samskiptum við að minnsta kosti eina manneskju á dag. Það hafi þau áhrif að fólki finnist það hafa einhvern sem það gæti snúið sér til ef eitthvað bjátar á, einhvern sem það geti talað við.  Fólk sem sagðist eiga í góðum félagslegum samskiptum sagði líka að það svæfi vel og væri yfir höfuð við góða líkamlega heilsu.

Ritstjórn ágúst 30, 2018 08:55