Grikkir yfir sextugu skyldaðir í bólusetningu

Grísk stjórnvöld hyggjast skylda alla landsmenn yfir sextugu í bólusetningu gegn Covid-19. BBC hefur eftir Kyriakos Mitsotakis forsætisráðherra að hafi fólk í þessum hópi ekki bókað sig í bólusetningu fyrir miðjan janúar nk. verði því gert að greiða sekt upp á 100 evrur, andvirði 15 þúsund króna.

Um 63 prósent Grikkja kváðu nú vera fullbólusettir, en talið er að um 520.000 landsmanna yfir sextugu hafi enn ekki þegið bólusetningu.

Grikkland er þar með fyrsta Evrópuríkið til að innleiða bólusetningarskyldu, en víða um álfuna er nú verið að ræða þann möguleika. Á sumum svæðum, sérstaklega í álfunni austan- og sunnanverðri, er bólusetningarhlutfallið enn tiltölulega lágt, en á þeim svæðum geysar faraldurinn nú sem aldrei fyrr. Af þessu tilefni sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á fundi með blaðamönnum á miðvikudag að „skoða yrði þann möguleika alvarlega“ að innleiða bólusetningarskyldu.

Ritstjórn desember 2, 2021 11:12